fim. 24. apr. 2025 16:16
Nokkur þúsund störf eru í fiskvinnslu á Íslandi. Gunnar Örlygsson telur þeim munu fjölga um fleiri hundruð ef til staðar verði vinnsluskylda.
Kallar eftir vinnsluskyldu á allan afla

Gunnar Örlygsson framkvæmdastjóri IceMar kallar eftir því að sett verði innlend vinnsluskylda á þann fisk sem íslensk fiskiskip landa. Hann segist finna fyrir auknum undirtektum með þessum hugmyndum en bíður þess að stjórnvöld taki málið til umræðu.

„Í meira en tvo áratugi hef ég haft áhuga á frekari vinnslu hér heima fyrir, skrifað greinar, hitt ráðherra og þingmenn og reynt að hafa áhrif á umræðuna. Yfirleitt hef ég talað fyrir daufum eyrum en blessunarlega er þetta loks að breytast. Nú er svo komið að rekstrarfélög í sjávarútvegi eru flest komin á þennan vagn, ótækt sé orðið að keppa við fiskvinnslu í Evrópu þar sem laun eru mun lægri og ríkisstyrkir verulegir að sama skapi,“ segir Gunnar.

Hann kveðst hafa átt samræður við fjölmarga innan sjávarútvegsins um það hvort ekki sé nú lag að tryggja fullvinnslu innanlands, sérstaklega hvað varðar þorsk og ýsu.

Fyrst um sinn vill Gunnar sjá lagasetningu sem tryggir að allur þorsk- og ýsuafli verði að vera unninn innanlands, en telur þurfa lengri aðlögunartíma fyrir karfa, steinbít og fleiri tegundir, þar sem vinnsla þeirra kalli á aukna sérhæfingu.

 

Nú er lag

„Allir sem ég hef rætt við eru sammála um mikilvægi þess að ráðast í aðgerðir,“ fullyrðir Gunnar. „Fólk innan greinarinnar, framkvæmdastjórar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum innan raða SFS. Framkvæmdastjórar hjá sjálfstæðum fiskvinnslum sem kaupa hráefni á fiskmörkuðum. Framkvæmdastjórar hjá sjálfstæðum sölufyrirtækjum. Framkvæmdastjórar hjá tækni- og þjónustufyrirtækjum og fleiri. Sama gildir um stjórnmálamenn sem ég hef rætt við.“

Eina spurningin núna sé hvað ríkisstjórnin hyggst gera í málinu, að sögn hans.

„Með aflasamdrætti í Barentshafinu og almennt mikilli eftirspurn erum við í dauðafæri að efla íslenska fiskvinnslu og koma á verðmætasköpun sem skiptir okkur Íslendinga verulega miklu máli. Útgerðarmenn og ríkisstjórnin ættu að geta slíðrað sverðin og unnið saman sem ein heild í þessu máli. Við eigum hér auðlind sem er takmörkuð; hámörkum verðmætasköpunina og vinnum aflann hér heima, ekki bara hluta af honum.“

Til mikils að vinna

Máli sínu til stuðnings vísar Gunnar til þess að nokkur hundruð þúsund tonn hafa verið flutt úr landi óunninn á undanförnum áratug.

„Hver hefði verðmætasköpunin orðið við vinnslu hér innanlands á þessu magni?“ spyr hann og svarar sjálfur að hann áætli að um sé að ræða um fimm milljarða króna á ári undanfarin tíu ár, eða 50 milljarða króna á tímabilinu. Bendir hann á að í þeirri upphæð séu ótalin þau verðmæti sem verði til við alla þjónustu við fiskvinnsluna.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/11/23/verdandi_radherra_taki_a_markadsbrestum/

„Undanfarin ár hefur verið bent á að þessi útflutningur sé ekki mikill í sögulegu samhengi. Það skal bent á að í sögulegu samhengi hefur tækniþróun orðið á þá leið að fiskvinnsla á Íslandi hefur aldrei átt meiri möguleika en í dag til að framleiða vöru gegn hæsta verði; nýjar framleiðsluaðferðir, nýjar flutningsleiðir, betri kæling og svo framvegis. Því er ólíku saman að jafna möguleikum fyrirtækja í dag eða fyrirtækja á 6.-9. áratug síðustu aldar. Að bera þetta tvennt saman verður að teljast í besta falli útúrsnúningur. Jafnframt hefur verið bent á fjárfestingu íslenskra fyrirtækja í vinnslum erlendis. Sú fjárfesting ætti ekki að hafa nein áhrif; markmið íslenskra stjórnvalda hlýtur að vera að hámarka verðmætasköpun á Íslandi en ekki verðmætasköpun erlendis, hver sem hluthafinn er,“ segir hann.

Þá sé sú þekking sem til hefur orðið á Íslandi undanfarinna áratugi í tengslum við vinnslu og nýtingu mikilvægt forskot sem tryggi að verðmæt afurð geti skilað hámarksverði, að sögn Gunnars, sem bendir á vinnsluþætti, vinnslutæki, markaðssetningu og flutningsmiðlun.

„Þessari þekkingu er kastað út um gluggann ef fiskur er fluttur úr landi óunninn. Störfin hér heima eru einnig undir ef útflutningur óunnins afla fær að vaxa óheft.“

Vægi ímyndar

Telur Gunnar að sala á óunnum fiski grafi undan einhverju öflugasta markaðssetningartæki íslenskra afurða.

„Erfiðasti hluti umræðunnar og jafnframt sá sárasti er sá hluti sem snýr að ímynd íslenskra sjávarafurða. Beint orsakasamhengi er á milli þess hversu mikinn hluta aflans við flytjum óunninn úr landi og hversu sterka ímynd afurðir okkar hafa. Stöðugar fullyrðingar eru uppi í greininni um falskar upplýsingar um sjávarafurðir. Þekkt er að í mörgum löndum í kringum okkur eru kröfur og eftirfylgni með uppruna vörunnar mun minni en hér á landi. Aðgreining okkar vöru frá annarri er einnig án vafa mun erfiðari vegna sölu á óunnu hráefni.“

 

Hann telur að með því að tryggja innlenda vinnslu megi standa vörð um þá þekkingu sem skapast hafi í tengslum við vinnslu sjávarfangs og styður við áframhaldandi þróun á því sviði. Jafnframt að verðmætasköpun á grundvelli takmarkaðrar auðlindar verði aukin með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á fjölgun starfa, bæði beint og óbeint í gegnum aukin umsvif fyrirtækja sem sjái vinnslum fyrir tækjum og búnaði. Þetta muni síðan skila ríkissjóði og sveitarfélögum auknar tekjur.

Gunnar segir að með innlendri vinnsluskyldu verði samkeppnin um hráefnið einskorðuð við innlendar fiskvinnslur á innlendum fiskmörkuðum. „Þannig komum við í veg fyrir ójafna samkeppni með okkar eigið hráefni við ríkisstyrktar fiskvinnslur í Evrópu.“

Enn fremur segir hann aukna innlenda vinnslu sjávarfangs auðvelda utanumhald ímyndar- og gæðamála.

til baka