Raðhúsin í Fossvoginum í Reykjavík eru eftirsóttur búsetukostur. Oft eru þessi hús auglýst til sölu á fasteignavef mbl.is en ekki alltaf. Á dögunum var raðhús nokkurt við Búland í Fossvogi selt í skúffunni hjá fasteignasölunni Eignamiðlun. Fasteignasalar á Eignamiðlun eru sérfræðingar í Fossvoginum og eru oft með hús á sínum snærum sem leita nýrra eiganda, án þess að vera að flagga því sérstaklega.
Húsið við Búland er 213,1 fm að stærð og var reist 1968. Nokkrum árum síðar, eða 1972, var sérstök bílskúrslengja reist en hverfið var á sínum tíma byggt að sænskri fyrirmynd þar sem lagt var upp með þá hugmynd að íbúar hefðu næði þótt þeir byggju þétt saman. Hið skipulagða næði var hannað með því að inngangar væru í norður og garðar í suður og að bílskúrar væru oft í sérlengjum, ekki áfastir húsunum sjálfum, þótt vissulega séu til raðhús í Fossvogi með innbyggðum bílskúr.
Húsið, sem er við Búland 27, er á pöllum og stendur á skjólgóðum stað í Fossvoginum þar sem garður snýr í suður og eldhús í norður.
Arnþrúður Örk Einarsdóttir og Þorvaldur Stefán Jónsson eru seljendur hússins en þau keyptu það 1994. Kaupendur eru Ívar Baldvinsson og Lísa Lind Björnsdóttir og greiddu þau 173.200.000 kr. fyrir húsið.
Smartland óskar nýjum eigendum til hamingju með húsið!