lau. 26. apr. 2025 08:30
Hildur Örlygsdóttir hefur dvalið í Marokkó síðan í janúar og elskar land og þjóð.
„Stutta svarið er að mér líður svo vel“

Ævintýrakonan Hildur Örlygsdóttir er heilluð af Marokkó og hefur dvalið þar síðan í janúar. Hún er á þrítugsaldri og lærði ljósmyndun við GrisArt í Barcelona. Ástríða hennar felst í að fanga augnablik og umhverfi á mynd, sérstaklega eitthvað ævintýralegt og spennandi.

Hildur er búsett norður á Tröllaskaga, á Siglufirði, og milli þess sem hún ferðast starfar hún m.a. við leiðsögn á Sílarminjasafninu.

 

Ætlaði að ferðast strandlengjuna til Portúgal

„Ævintýraþrá og frelsislöngun dró mig hingað fyrst í nóvember í fyrra. Vinkona mín hafði dvalið hér í einhverja mánuði og ég kom meðal annars til að hitta hana. Ég eyddi þremur vikum á flakki upp og niður strandlengjuna frá Agadir til Essaouira, fór á brimbrettanámskeið í strandbænum Imsouane, í heilunar- og jógabúðir í Tamraght og varð ástfangin af landi og þjóð.“

Í janúar hafði sama vinkona samband við Hildi og sannfærði hana um að koma aftur til að ferðast með strandlengjunni til Portúgal. Ekkert er meira freistandi en að yfirgefa kalda og dimma daga janúarmánaðar og fara á suðrænni slóðir og því varð valið ekki erfitt. 

„Eftir alls ekki mikla umhugsun sló ég til og síðan þá, þremur mánuðum seinna, er ég enn hér.“

Hildur bætir við að hún hafi ekki drifið alla leið til Portúgal og hafi ferðin endað í hafnarborginni Tangier. Þaðan ferðaðist hún um Norður-Marokkó, áður en hún hélt aftur suður, í strandbæinn Tamraght, þar sem hún hefur mestmegnis dvalið.

 

 

Dvöl á mismunandi stöðum

„Ég hef aðallega verið á flakki á milli strandbæjanna Tamraght og Taghazout, en einnig ferðast mikið um. Af borgunum sem ég hef heimsótt stendur menningarmekkan Fez upp úr og fjallaborgin Chefchouen eða „bláa perlan“ sem ég heillaðist mjög af og hlakka til að heimsækja aftur.“

Að sögn Hildar er mjög ódýrt að lifa í Marokkó og kemur það stöðugt á óvart. Hún nefnir dæmi um að brauð í bakaríi kosti 13 kr. og kíló af jarðarberjum 270 kr. Hún hefur leigt tveggja herbergja íbúð á 50.000 kr. á mánuði en bætir við að hægt og bítandi fari leigu- og húsnæðisverð hækkandi, sérstaklega á þeim stöðum þar sem ferðamannastraumur er mikill.

„Sem gerir innfæddum oft erfitt fyrir að búa þar því laun eru ekki í samræmi við verð á húsnæði, sem er afar sorgleg þróun.“

 

Gæði dvalarstaða Hildar eru mismunandi enda ekki annað hægt þegar um ræðir svo mikla ævintýrakonu. Hún hefur gist í húsbíl með vinkonu sinni, leigt útsýnisíbúð við ströndina í Taghazout, gist á hosteli og leigt eins konar smáhýsi með sundlaug.

„En núna er ég að leigja herbergi í Tamraght.“

Er ekki rétt að þú ert í raun búin að vera lengur en þú ætlaðir þér, af hverju?

„Stutta svarið er að mér líður svo vel,“ svarar Hildur skelegg og segist einfaldlega fylgja flæðinu. Í því felst m.a. að plana hlutina ekki um of. Hins vegar þarf uppihaldið að vera eitthvað og starfaði Hildur í fimm vikur á gistiheimilinu Dar George í Tamraght en hún er einnig með sjálfstætt verkefni sem hún vinnur af og til í.

 

 

Lífsgæðin felast í hversdagsleikanum

Spurð út í bestu upplifunina segir Hildur það eflaust vera augnablikin í sjónum með brimbrettið, í fullkominni núvitund.

Hvað er það fallegasta við Marokkó?

„Það er svo mikil fegurð sem leynist í einfaldleika hversdagsins og fyrir mér eru það mestu lífsgæðin.“

Hún segir veðrið vera æðislegt, um 24 gráður og glampandi sól sem virki líkt og fleiri klukkustundir séu í sólarhringnum. Þá verji fólk miklum tíma hvert með öðru, bæði fjölskyldum og vinum. 

„Að koma hingað er ferðalag fyrir öll skilningarvit, framandi lykt af kryddum, ilmur af myntu, jasmín og sedarvið, maturinn ferskur og ljúffengur. Sjónrænt er allt svo litríkt, mikið af munstrum og mismunandi áferðum, svo finnst mér arabíska letrið vera eitt það fallegasta og mjög hljómfagurt hvernig sérstaklega konurnar tala tungumálið og beita röddinni eins og þær séu að syngja í háum tón. Svo er náttúran svo fjölbreytt, frá eyðimörkum til skóglendis og fjallgarða.“

 

Þegar við komum inn á áskoranirnar sem fylgja því að vera kona og dvelja í landi með svo ólíka menningu segir Hildur muninn á Íslandi og Marokkó vera mikinn, þar sem flestir í því síðarnefnda séu múslímar.

Hins vegar sé svo margt sem sameini menningarheimana og hefur heimsmynd hennar breyst mikið við dvölina.

„Ég held að margir Vesturlandabúar heyri sögur sem eru byggðar á fáfræði og fordómum og byggi skoðanir sínar á því. En auðvitað sker ég mig úr verandi hvít, bláeygð og ljóshærð. Það kemur fyrir að kallað sé á eftir mér úti á götu og þá þarf að hafa þykkan skráp, vera ákveðinn og hafa varann á. En þrátt fyrir að hafa komið hingað einsömul og ferðast mikið um þá hefur mér aldrei fundist öryggi mínu ógnað.“

Hildur lýsir innfæddum sem hlýju fólki með mikinn náungakærleika og húmor.

„Það gerist nánast á hverjum degi að einhver innfæddur gefur sig á tal við mig, hvort sem það er kaupmaðurinn á horninu, leigubílstjóri eða tesölumaður á ströndinni.“ Fólk bjóði hana velkomna til Marokkó með orðinu „marhaba“ sem þýðir „velkomin“ og segist hún varla hafa tölu á því hve mikið af góðu fólki hún hefur kynnst og hve marga vini hún hefur eignast frá hinum ýmsu heimshornum.

 

 

 

til baka