þri. 22. apr. 2025 06:00
Rut Kára hannaði hjónasvítu í bílskúrnum

Rut Káradóttir innanhússarkitekt fékk það verkefni að endurhanna einbýlishús eftir Manfreð Vilhjálmsson. Rut sagði frá hönnunarferlinu og sýndi útkomuna í þættinum Heimilislíf Mörtu Maríu. Styrmir Gunnarsson heitinn, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, bjó í húsinu alla tíð en það er við Fossvoginn sjálfan. 

Rut notaði hugvit sitt til þess að nýta plássið sem best. Eitt af því sem hún gerði var að stækka efri hæðina með því að nýta rými sem áður tilheyrði bílskúrnum. Við þessa opnun var hægt að bæta við tveimur baðherbergjum á efri hæðinni. 

„Þetta var eina baðherbergið á hæðinni en við ákváðum að opna yfir í rýmið sem var yfir bílskúrnum. Þá komum við fyrir baðherbergi fyrir hjónasvítuna og baðherbergi fyrir barnaherbergið,“ segir Rut og útskýrir hvernig stigi hafi verið úr bílskúrnum upp á efri hæðina sem nýttist kannski ekki sérlega vel.  

„Hér var stigi upp úr bílskúrnum upp í þetta vinnurými og það var lokað hérna á milli. Við söguðum hér á milli og bættum við tveimur þakgluggum. Ef þú liggur í rúminu þá sérðu út,“ segir Rut. 

https://www.mbl.is/smartland/heimilislif/2025/02/25/eg_vildi_ekki_eydileggja_husid_hans_manfreds/ 

 

til baka