sun. 27. apr. 2025 06:00
Edda Hrund hefur starfað sem kennari í grunnskólum bæði hérlendis og í Noregi.
„Á þessum tíma var strembið að ná endum saman“

Árið 2016 fluttu Edda Hrund Þráinsdóttir og Ómar Ingi Sverrisson til Noregs með þrjá drengi og sá fjórði fæddist úti. Drengirnir aðlöguðust norsku samfélagi ansi vel og eignuðust þar marga vini. Þegar þau fluttu til baka til Íslands í fyrra ákvað elsti sonur Eddu, Birkir Snær, að verða eftir í Noregi og stunda þar háskólanám. Breytingunum fylgja ýmsar áskoranir, sérstaklega tilfærsla yngri drengjanna úr norskum skóla yfir í íslenskan, en allt hefur sinn tíma og er daglega lífið að komast í góðan farveg.

Það var mun erfiðara að koma til baka til Íslands en að flytja út,“ segir fjögurra drengja móðirin Edda Hrund Þráinsdóttir. Árið 2016 fluttu Edda og eiginmaður hennar, Ómar Ingi Sverrisson, til Noregs þar sem þau komu sér fyrir í bænum Ski, fyrir utan Osló. Þau bjuggu í Noregi í átta ár og fluttu til baka hingað til lands í mars í fyrra.

Edda segir eina af helstu ástæðum þess að erfiðara hafi verið að flytja til baka þá að væntingar til drengjanna í íslensku skólakerfi voru of miklar.

„Við töluðum alltaf íslensku heima en þeir lærðu að lesa á norsku og við vorum ekki að kenna þeim að lesa á íslensku til þess að rugla þá ekki.“

Að öðru leyti segir Edda skólakerfin keimlík hérlendis og í Noregi, en áður en þau fluttu út starfaði Edda sem kennari í Varmárskóla í Mosfellsbæ og síðustu þrjú árin áður en þau fluttu heim kenndi Edda í Siggerud skole og Ómar í Sofiemyr skole.

 

 

Fyrsta árið ansi strembið

„Við fluttum út því Ómar fékk starf sem kerfisfræðingur hjá fyrirtæki sem er svipað og Epli hér heima.“

Fyrsta árið var Edda heimavinnandi og segir þann tíma hafa verið ansi snúinn, félagslega, fjárhagslega og „á alla kanta“ eins og hún orðar það. Þá var elsti drengurinn, Birkir, ellefu ára, miðjudrengurinn, Þráinn, fimm ára og Sverrir, sá yngsti, nýorðinn tveggja ára. Þau hafi á þeim tíma verið að komast inn í kerfið, koma drengjunum í skóla og klára þá praktísku hluti sem til þarf í daglegu lífi.

Á meðan Edda sinnti heimili og börnum vann Ómar myrkranna á milli í Osló, eins og hún segir sjálf.

Að fyrsta árinu liðnu stefndi Edda inn á vinnumarkaðinn þegar hún komst að því að hún væri ólétt að fjórða barninu, þá hvorki með fæðingarorlofsréttindi hér heima né í Noregi. Hún er ekki vön að sitja auðum höndum og þrátt fyrir það stóra verkefni að taka á móti fjórða drengnum skráði hún sig í fjarnám í menningarstjórnum við Háskólann á Bifröst, þaðan sem hún kláraði með diplómu á meistarastigi.

„Á þessum tíma var strembið að ná endum saman.“

Árni Kjartan, yngsti drengurinn, var aðeins tíu mánaða þegar hann komst inn í leikskóla. Þá komst Edda aftur út á vinnumarkaðinn þegar hún hóf störf sem flugfreyja hjá SAS. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á missti Edda starfið hjá SAS, eins og 5.000 aðrir kollegar hennar, og fékk fljótlega starf sem afleysingakennari við Siggerud skole og síðan sem umsjónarkennari.

 

Fyrsta flokks aðlögun

Edda og Ómar voru með mjög skýra sýn á hvernig fjölskyldan myndi aðlagast nýju umhverfi sem best. Þau ákváðu að tala enga ensku heldur reyna fyrir sér í norsku og læra tungumálið fljótt og vel.

Þegar Árni byrjaði á leikskóla var Sverrir á sama leikskóla, Þráinn kominn í fyrsta bekk í grunnskóla og Birkir í 7. bekk.

„Það ferli gekk alveg lygilega vel.“

Drengirnir voru ekki lengi að komast inn í tungumálið og nefnir Edda dæmi um að Þráinn, sá næstelsti, hafi verið orðinn altalandi á norsku þegar hann hóf nám á fyrsta ári í norskum grunnskóla.

Hún segir móttökurnar í skólum drengjanna hafa verið mjög góðar og þeim strax fundist þeir hluti af hópnum. „Það var meira að segja lagt upp úr að bera nöfnin þeirra hárrétt fram, eins og að segja Þráinn en ekki Trainn.“

Þeir eignuðust góða vini, líkt og foreldrar þeirra, enda segir Edda Norðmenn svipaða Íslendingum að því leyti að vera svolítið lokaðir til að byrja með en þegar vinasambönd myndast eru Norðmenn afar traustir og góðir vinir.

„Þeir eru ótrúlega hjálplegir og í augum Norðmanna eru Íslendingar „litli frændinn“, sem er að vísu alltaf með vesen,“ segir hún og hlær.

 

Áskoranir í íslensku umhverfi

Edda starfar í dag sem ráðgjafi í samræmdri móttöku flóttafólks hjá Garðabæ og Ómar sem kennari í unglingadeild. Þau hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsbæ. Birkir, elsti sonur Eddu, varð eftir í Noregi. Þar lauk hann menntaskóla og hóf nám í tölvuleikjaforritun við háskólann í Osló.

„Birkir var náttúrlega ellefu ára þegar við fluttum út. Allir hans góðu vinir eru þarna. Hann var á síðasta ári í menntó þegar við fluttum heim. Í dag býr hann í stúdentaíbúð í Osló og er hæstánægður. Ég efast um að hann eigi nokkurn tímann eftir að koma heim.“

Yngri synir þeirra byrjuðu strax í skólanum og segir Edda það hafa gengið ágætlega en að áskoranirnar fyrirfinnist vissulega. Hún nefnir dæmi um ólíkar kennsluaðferðir í norskum skólum og hérlendis.

„Í Noregi stunda börnin nám í gegnum spjaldtölvu og eru tölvurnar notaðar í skólaskrift og annarri kennslu. Öll heimavinna fer fram í gegnum spjaldtölvur. Það var ekkert bara þannig í okkar skólum heldur er þetta stefna í Noregi sem nær yfir alla skóla.“

Edda segir það ágætt að einhverju leyti en hins vegar hafi kennararnir alveg lent í vandræðum með að börnin voru að nota spjaldtölvurnar til annarra hluta en þeim var ætlað, eins og til skilaboða- og myndsendinga sín á milli í tímum. Þess utan er minni áhersla á að börnin skrifi með blýanti og megináhersla á að þau skilji hvað þau skrifa.

„Það er miklu minna lagt upp úr skrift þar en hér. Börnin læra að lesa vel en það er ekki mikil áhersla á að draga til stafs.“

Af þeirri ástæðu áttu synir þeirra Eddu og Ómars í vandræðum með að skrifa þegar þeir byrjuðu í íslenskum skóla.

„Það var mesta áskorunin fyrir þá.“

Edda bætir því við að eins og áður sagði hafi væntingarnar til þess að þeir gætu lært á íslensku verið of miklar. Þótt þeir tali tungumálið ágætlega kunni þeir t.d. ekki almennilega að fallbeygja.

„Svo með tímanum sáum við að þeir þyrftu aukna íslenskukennslu og meiri aðstoð, sem þeir fá í dag.“

Hún segir það einnig hafa komið sér verulega á óvart þegar þau fluttu til baka að synir hennar kunnu vart að leika sér á íslensku. Árni Kjartan, sem fæddist í Noregi og var kominn í 1. bekk í grunnskóla þegar þau fluttu, átti einkum erfitt með að leika sér við önnur börn á íslensku.

„Þeir lærðu bara leik á norsku. Þegar þeir léku sér við íslensk börn úti þá léku þau saman á norsku, því þannig var leikmálið þeirra. Ef t.d. Árni er úti að leika hér heima og eitthvert barn pikkar í hann og segir: „Þú ert hann!“ þá sér hann bara einhvern krakka sem ýtir í hann og hleypur í burtu.“

 

Heilbrigðisþjónusta úti mun betri

Edda, Ómar og fjölskylda bjuggu öll árin í sætu raðhúsi í sama bænum. Spurð um reynsluna af að eignast barn úti í Noregi segir Edda þá upplifun ekkert ósvipaða og hérlendis. Mæðraverndin á meðgöngu sé svipuð og á Íslandi. Hún átti drenginn í keisarafæðingu og það ferli var líkt og hérlendis, spítalinn að vísu stærri og auðvitað fari allt fram á norsku. Ungbarnaverndin taki svo við eftir fæðingu eins og hér.

Það sé hins vegar mun auðveldara að sækja alla heilbrigðisþjónustu í Noregi. „Það er t.d. þvílíkur munur að komast til heimilislæknis. Þegar við komum til Noregs fékk fjölskyldan strax úthlutaðan heimilislækni og ef við hefðum verið ósátt við hann hefði ekki verið neitt mál að fá nýjan lækni í gegnum vefsíðu sem er eins og Heilsuvera hér heima.“

Hún segir erfiðara að hafa ekki sinn heimilislækni hérlendis og að leita til sérfræðinga á Íslandi sé eins og að hitta páfann, biðin er löng og mun lengri en úti.

„Tannlæknaþjónusta er svipuð þeirri hérlendis og ókeypis fyrir börn. Strákarnir fengu reglulega boðun í eftirlit hjá skólatannlækni.“

 

„Ut på tur, aldri sur“

Að lokum berst talið að því besta við fjölskyldulífið. Það sem kemur efst í huga Eddu er samveran, sem hún segir mjög mikilvæga.

„Í raun fannst mér við geta gert mun meira af samverunni úti. Lífið var bara rólegra.“ Hún lýsir þessari týpísku norsku afþreyingu að fara af stað með bakpoka, nokkra viðarkubba og pylsur á teini og grilla í skóginum. Í Ski, þar sem þau voru búsett, var skógurinn nánast í bakgarðinum.

„Ekki síður á veturna, þá er haldið út með bakpoka og viðarkubba, en bara á gönguskíðum.“ Útiveran og gönguskíðaiðkunin kom sterk inn hjá fjölskyldunni í Noregi og öll lærðu á gönguskíði að Ómari undanskildum.

„Gönguskíðamenningin er mjög stór og það eru t.d. gönguskíðadagar í skólunum. Krakkarnir gátu jafnvel mætt á gönguskíðum í skólann,“ segir Edda. „Ut på tur, aldri sur,“ bætir hún við og segir þetta eina bestu tilvitnun Norðmanna, þ.e. að ef útivist er stunduð þá verði lundin góð.

En svona að lokum, hvað er mikilvægast í barnauppeldi?

„Annað en heragi?“ segir Edda létt í bragði. „Samvera, samvinna og að hlusta á börnin. Maður verður að vera ansi þolinmóður gagnvart þeim áskorunum sem fylgja því að flytja á milli landa. Allir geta orðið þreyttir þegar hugsað er á tveimur tungumálum. Það er gott að minna sig á þetta, reyna að finna lausnir saman og líka leyfa þeim að blása.“

til baka