Rafael Jón Gunnsteinsson er háseti á uppsjávarskipi hjá Brimi. Hann er fjögurra barna faðir og segir áskoranirnar af ýmsum toga hvað varðar fjarveruna frá fjölskyldunni. Hann hefur misst af ýmsum viðburðum í lífi barnanna en þó engri fæðingu, þrátt fyrir að litlu hafi mátt muna í eitt skipti. Rafael, Sveina Rún og drengirnir una sér vel á Vopnafirði og segir Rafael samveruna það mikilvægasta í barnauppeldi, eins og að renna fyrir fisk eða byggja Legó.
„Mér finnst langerfiðast að þurfa að kveðja strákana mína, þar sem þeir eru allir mjög hændir að mér,“ segir Rafel Jón Gunnsteinsson um helstu áskoranirnar við að vera sjómaður. Rafael er háseti á uppsjávarskipi hjá Brimi og er giftur Sveinu Rúnu Kristjánsdóttur.
Saman eiga þau tvo drengi, Maríus Ármann, sjö að verða átta ára, og Ívan Berg, sem er að verða þriggja ára. En sá fyrrnefndi á einmitt sama afmælisdag og faðir sinn, 26. apríl.
Rafael á uppkomna stúlku úr fyrra sambandi, hana Anítu Kareni, og Sveina átti fyrir einn dreng, Bjarka Snæ.
„Ég lít á hann sem minn eigin son.“
Missti næstum af fæðingunni
Fjölskyldan er búsett á Vopnafirði og unir lífinu vel þarna á norðaustanverðu landinu.
„Ég starfa hjá Brimi og eru túrarnir mjög fjölbreyttir, það fer alveg eftir því hvaða fiskitegund við erum að veiða. Við veiðum makríl, síld, loðnu og kolmunna. Makríltúrarnir geta verið frá einum degi upp í viku, svipað er með síld og loðnu en kolmunnatúrarnir eru yfirleitt vika og allt að 2-3 vikur, sem fer mikið eftir veðri.“
Rafael bætir því við að hann og sá sem starfar á móti honum, makkerinn, semji sín á milli um lengd úthaldsins (þess tíma sem skipið er á sjó án þess að koma til hafnar).
„Yfirleitt erum við með þrjár vikur á túr og þrjár vikur í frí.“
Eins og skín í gegn í viðtalinu er Rafael sáttur við sjómannsstarfið þrátt fyrir að því fylgi ýmsar áskoranir. Fjarlægðin frá fjölskyldunni getur oft reynst erfið og þá sérstaklega þegar hann missir af viðburðum í lífi barnanna eins og t.d. afmælum, viðburðum á leikskólanum og í skólanum, íþróttamótum og fleiru.
„Það munaði litlu að ég missti af fæðingunni hjá þeim yngsta,“ segir Rafael þegar hann lýsir því hvernig örlögin réðu því að hann náði að vera viðstaddur komu litla mannsins í heiminn.
„Sveina var komin 34 vikur og ég var á leið í land þegar ég ákvað með litlum fyrirvara að taka næsta túr í frí vegna veikinda hennar.“ Meðgangan með síðasta barn var ansi erfið hjá Sveinu og fæddist drengurinn fyrir settan dag, kom í heiminn 27. apríl en átti að mæta í lok maí.
„Hefði ég ekki tekið þetta óvænta frí hefði ég misst af þeirri fæðingu, en Guð hafði annað plan.“
Pabbinn í landi
Spurður hvað taki við þegar heim af sjónum er komið segir Rafael að nóg sé að gera og mikið fjör. „Og þá fær konan mín gott frí, þar sem þeir sjá bara mig fyrstu dagana,“ segir hann kíminn.
Annars bíða hans verkefnin í hrönnum þegar hann stígur fæti á þurrt land. Verkefnin eru af ýmsum toga, eins og að byggja Legó. „Það er líka oft sem þarf að laga eitthvert dót, byggja og græja, eitthvað sem mamma þeirra hefur sagt að aðeins pabbi geti gert.“ Hann brosir við.
„Ég og sá yngsti förum á hverjum degi í bíló, þar sem honum finnst mamman ekki nógu góð í að leika og gera bílahljóð. Það er allavega nóg að gera hjá mér þegar ég kem heim og er ég mjög þakklátur fyrir að þeir séu svona nánir mér þrátt fyrir mikla fjarveru.“
Hluti af fjölskyldusamverunni hverfist einnig mikið um útiveru og ein uppáhaldsafþreying fjölskyldunnar er að fara í veiðiferðir á sumrin og lautarferðir með nesti, að vaða í lækjum og finna fossa.
„Það er hægt að stunda mikla útiveru í umhverfinu okkar og þannig búum við til skemmtilegar minningar, öll saman.“
Samveran mikilvægust
Rafael er ekki lengi að svara því hvað skipti mestu máli í barnauppeldi: „Það mikilvægasta að mínu mati er samveran og að búa til minningar og helling af þeim.“
Hann segir þess utan að Sveina sé dugleg að leiðbeina honum, þar sem hún hafi mikinn áhuga á uppeldi og hafi leitað sér þekkingar og fræðslu á því sviði.
„Hún er dugleg að leita aðstoðar ef upp koma vandamál varðandi börnin og finnst mér hún einstök í því. Ég dáist að því hversu mikla vinnu hún leggur í uppeldið.“
Rafael bætir við að hann reyni að taka fast á hlutunum og sé jafnvel svolítið af „gamla skólanum“ þegar komi að uppeldinu en hann eigi það einnig til að vera „skemmtilegi pabbinn“ þegar hann kemur af sjónum.
„Þegar ég kem heim brýt ég stundum reglurnar og geri Sveinu alveg brjálaða,“ segir hann og hlær. Hann sé þó alltaf að reyna að verða betri og læra og bæta sig í því sem hún bendir honum á, enda hvað er lífið annað en stöðugur lærdómur?
„Þegar maður er ráðalaus er bara svo mikilvægt að leita sér upplýsinga og fá lánaða dómgreind varðandi hvað er best að gera hverju sinni.“
Svo margt að vera þakklátur fyrir
Rafael segist hafa margt að þakka fyrir í lífinu. Hann sneri við blaðinu í byrjun árs 2016 þegar hann fór í meðferð og varð edrú. Af vinnusemi hafi góðir hlutir komið upp í hendurnar á honum.
Í dag er hann þakklátur fyrir hjónabandið og þessi fjögur heilbrigðu börn sem þau eiga. Lífið sé svo fallegt.
„Svo á ég frábæra og yndislega foreldra, systkini og tengdafjölskyldu sem styðja mig í öllu. Ég á almennt bara gott fólk í kringum mig og er ótrúlega heppinn og hamingjusamur maður.“
Hann segist í raun vera þakklátastur konunni sinni og því hve dugleg hún er við að sinna börnum, heimili og dýrum á meðan hann er á sjónum. Það sé ekki einfalt og mörgum boltum þurfi að halda á lofti.
„Ég dáist að henni.“
Að lokum segir hann að fyrst og fremst reyni hann að gera sitt besta í einu og öllu og sýna ótakmarkaða ást og umhyggju. „Við segjum oft á dag: „Ég elska þig“, á þessu heimili og börnin segja það óspart að fyrra bragði.“