fim. 24. apr. 2025 22:00
Mæðgurnar á góðri stund.
„Höldum hreinu megrunartali í lágmarki í kringum börn“

Fjöllistadísin Margrét Erla Maack á Ragnheiði Nínu, fimm ára. Ragnheiður er aðra hvora
viku hjá móður sinni og hina hjá föður sínum. Saman finnst þeim skemmtilegast að dansa og
syngja, fara í leikhúsleik, dunda sér og panta pizzu. Margrét vinnur gjarnan um kvöld og helgar og á fullt í fangi með að díla með risastórt samviskubit, en segist vera að vinna í því. Henni finnst dóttir sín vera heimsins sniðugasta barn.

Margrét Erla viðurkennir að hafa farið í kleinu þegar hún var beðin um uppeldisráð, því hún er með stöðugt samviskubit þessa dagana vegna sýninga á Þetta er Laddi í Borgarleikhúsinu.

Hér eru uppeldisráð Margrétar Erlu Maack:

Brjóstagjöf

„Allar ákvarðanir sem móðirin með brjóstin tekur um brjóstagjöf eru réttar. Finnst þér þetta erfitt og bindandi og vilt hætta sem fyrst? Það er alveg rétt. Finnst þér þetta geggjað og ert með barnið á brjósti til fjögurra og hálfs? Líka alveg rétt.“

Góð samskipti

„Samskipti við maka eru kennslustund barnsins þegar kemur að þeirri virðingu sem við berum fyrir maka og sjálfum okkur. Verum sanngjörn, stöndum með okkur og ekki kenna barninu þínu að sætta sig við eitthvert kjaftæði.“

Mikilvægt að hjálpast að

„Þegar það koma þannig tarnir að það þurfi að leita á náðir fjölskyldu og barnapíu reyni ég að gera það spennandi. Ég leyfi minni konu að vera með að gera plan fyrir helgina – svona upp að skynsamlegu marki – þannig að hún upplifi að hún stjórni með. Ég hlusta eftir því af hverju hún fílar að vera með þessum. Þetta er líka skemmtilegt upp á að kenna barninu á tíma, skipulag, vikudagana og svo framvegis.“

Ekkert megrunartal

„Höldum hreinu megrunartali í lágmarki í kringum börn. Tölum ekki illa um holdafar fólks, sama hvort börn eru nálægt því eða ekki. Að tala um að borða hollt og hreyfa sig er ekki það sama og að ræða megrun við börn. Dóttir mín sagði við mig áðan: „Þegar ég verð stór vil ég vera feit og mjúk eins og þú.“ Bingó í sal!“

Talaðu við aðra foreldra

„Það er ógeðslega erfitt að ala upp börn og setja þeim mörk. Talaðu um það og speglaðu þig í öðrum foreldrum. Börn, eins og allt fólk, eru nefnilega misskemmtileg og viðráðanleg. Þér finnst þitt barn kannski snilld, en öðrum ekki.

Ekkert sem heitir úlfatími

„Nart, nart, nart. Dóttir mín er á sífelldri beit og það er í góðu lagi því hún verður algjör skapdreki ef hún er svöng. Hér er ekkert sem heitir úlfatími, því hún byrjar bara strax að narta þegar hún kemur heim. Og borðar samt alveg á við mig í kvöldmatnum.

Gott að hvetja börnin til að tjá sig

„Við orðum tilfinningar okkar þannig að börn skilji og hvetjum þau til að útskýra hvernig þeim líður. Upp úr þessum umræðum kemur oft alls konar krúttlegt en líka mikil dýpt, eins og þegar Ragnheiður sagði mér að hún væri feimin við myrkrið – og útskýrði þannig myrkfælni fullkomlega.

Hámarksnýtni

„Náttföt eru sumarföt og sumarföt eru náttföt. Hámarksnýtni, mjúkt og gott.“

Stefnumótaforrit

„EKKI SETJA MYNDIR AF BÖRNUNUM ÞÍNUM Á STEFNUMÓTAFORRIT.“

til baka