fös. 14. mars 2025 19:00
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Ljúka sölu á eftirstandandi hlutum í Íslandsbanka

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Íslenska ríkið á 42,5% af útgefnum hlutum í bankanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Frumvarpið er lagt fram í kjölfar samþykktar þess í ríkisstjórn en það er sameiginlegt mat ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar að markaðsaðstæður séu hagfelldar til að ljúka sölunni á eftirstandandi hlutum.

Frumvarpið breytir lögum frá 2024 um heimild fjármála- og efnahagsráðhera til þess að selja hluti ríkissjóðs í Íslandsbanka í einu eða fleiri útboðum á næstu misserum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/02/17/halda_afram_med_soluna_erindi_arion_metid/

Tryggja aðkomu allra fjár­festa­hópa

Sala á hlutum ríkisins er fyrirhuguð með útboði á fyrri helmingi ársins þar sem almenningur hefur forgang á lögaðila og eiga lögin sem sett voru á síðasta ári að tryggja að við framkvæmdina á útboðsferlinu verði viðhöfð hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi.

Frumvarpið nú bætir við einni tilboðsbók til viðbótar við tilboðsbækur A og B, tilboðsbók C, með það að markmiði að tryggja aðkomu allra fjárfestahópa og auka líkur á virkari þátttöku stórra fjárfesta án þess að ganga á forgang almennings.

Uppfært fyrirkomulag útboðsins á að tryggja einstaklingum lægsta verð og forgang á úthlutun í tilboðsbók A. Tilboðsbók B verður óbreytt frá fyrri lögum, með gagnsæja verðmyndun með að lágmarki sama verð og í tilboðsbók A en tilboðsbók C, veitir stórum eftirlitsskyldum fagfjárfestum hefðbundnara úthlutunarferli, á sama verði og í tilboðsbók B, og er talið geta aukið selt magn af bréfum í bankanum.

Með þessum breytingum er því þátttaka allra fjárfestahópa tryggð.

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2025/02/14/salan_a_islandsbanka_baeta_thridju_tilbodsbokinni_v/

Áhersla á forgang almennings

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur söluna á Íslandsbanka mikilvægan lið í að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs og ná meiri árangri í opinberum fjármálum.

„Við leggjum áfram áherslu á forgang almennings en jafnframt bætum við við nýrri tilboðsbók til að styðja við árangursríkt útboð,“ er haft eftir Daða í tilkynningunni.

til baka