mán. 17. mars 2025 08:30
Jón Finnbogason framkvæmdastjóri Stefnis.
UFS-þættir áhættudreifingartól

Jón Finn­boga­son fram­kvæmda­stjóri sjóðastýr­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Stefn­is er í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna.

Stefnir hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á að þau félög sem sjóðirnir fjárfesta í uppfylli skilyrði um UFS-þætti. Nú er það svo að umræðan um UFS-þætti hefur snúist og mörg þekkt fjármálafyrirtæki í heiminum hafa fallið frá þeirri stefnu. Hvernig horfir það við ykkur hjá Stefni?

„Ég hugsa nú að það sé ofsagt að hún hafi snúist. Umræðan hefur þroskast og fleiri koma nú að málum sem snúa að sjálfbærni, sem endurspeglast í fjölbreyttari skoðunum um þau málefni. Mat fjárfestingarkosta og ígrunduð ákvarðanataka byggð á áhættumiðaðri nálgun er nokkuð sem við höfum ávallt stundað hjá Stefni. Að innleiða aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga var okkur frekar auðvelt verkefni og ákvörðunin um að vera leiðandi í þeirri umræðu dýpkaði skilning okkar á þeim málefnum sem í daglegu tali eru oft nefnd UFS. Við erum um þessar mundir að huga að frekari sjálfvirknivæðingu hvað þessi mál varðar. Viðskiptavinir okkar og þá sérstaklega stofnanafjárfestar fara núna fram á ítarlegar upplýsingar á þessu sviði og er okkur ljúft og skylt að verða við því. Það styrkir okkur einnig í vöruþróun að skilja hvar áherslur viðskiptavina okkar liggja þegar kemur að UFS-málum. Sjálfbærni er orðin hluti af fjárfestingarákvörðunum og horfum við sérstaklega til þeirra tækifæra sem geta skapast á því sviði í þeim fjárfestingum þar sem við höfum áhrif,“ segir Jón.

Spurður hvort honum finnist að sjóður eigi að líta framhjá fjárfestingartækifæri ef það samræmist ekki UFS-sjónarmiðum segir Jón að allar ákvarðanir er varða fjárfestingartækifæri sjóðanna þurfi að vera vel rökstuddar.

„Nú er það sem betur fer svo að ótal fjárfestingartækifæri standa sjóðum til boða sem þarf svo að meta út frá fjölmörgum þáttum. Að hafna fjárfestingartækifæri vegna UFS-sjónarmiða eingöngu þarf að vera vel rökstutt, en þegar áskoranir blasa við á sviði UFS-mála eru þar líka tækifæri. Það verður ekki sagt að þeir sjóðir okkar sem eru með sérstaka áherslu á UFS-mál sýni lakari árangur en aðrir fjárfestingarkostir. Þetta eru frábær tól til áhættudreifingar og það sést líka núna þegar heimsmyndin er að breytast að mögulega felast tækifæri í sjálfbærni og sterkum stjórnarháttum félaga,” segir Jón.

Bjartsýnn á markaði

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á þróunina á mörkuðum næstu misserin segir Jón að íslenskt atvinnulíf hafi staðið frammi fyrir miklum áskorunum vegna hás vaxtastigs, sem hafi haft þung áhrif. „Seðlabankinn hefur verið einn á bremsunni á meðan skuldir ríkissjóðs hafa aukist töluvert,“ segir hann og bendir á að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi vaxið um 162 milljarða króna á árinu 2024, eða 237 milljarða króna þegar skuldir frá 2023 eru teknar með í reikninginn. „Hið opinbera hefur því gert lítið til að draga úr verðbólguþrýstingi,“ bætir hann við.

Hann telur þó að von sé á breytingum. „Ný ríkisstjórn hefur lýst yfir ásetningi sínum um að ná fram stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla að lækkun vaxta með skynsamlegri fjármálastjórn. Við bindum miklar vonir við að það gangi eftir,“ segir hann.

Þegar kemur að hlutabréfamarkaðnum er Jón bjartsýnn. „Drunga síðustu ára virðist vera að létta, og nú glittir í sól,“ segir hann. Hann bendir á að markaðurinn hafi tekið við sér í lok síðasta árs, sem sýni að eftirspurnarhliðin sé sterk. „Samkvæmt tölum Seðlabankans eru um 1.700 milljarðar króna í innlánum heimila í landinu og það er líklegt að hluti af þessu fé muni færast yfir á verðbréfamarkaði,“ útskýrir hann.

Hann telur að þessi þróun gæti leitt til aukinnar virkni á markaði, hærri veltu í kauphöllinni og hækkandi verðmætis eigna. „Nokkur félög eru einnig að íhuga skráningu eða útboð, sem gæti aukið fjölbreytni í kauphöllinni,“ segir hann og nefnir sérstaklega sölu á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka sem eitt þeirra verkefna sem muni hafa áhrif.

Jón leggur áherslu á að aukin fjölbreytni í Kauphöll Íslands sé lykilatriði. „Ef við náum að laða fleiri erlenda fjárfesta að íslenskum markaði mun það styrkja bæði markaðinn og íslenskt atvinnulíf til lengri tíma litið,“ segir hann.

Jón segir að íslenski markaðurinn hafi verið í miklum vaxtarfasa á undanförnum árum. „Við sjáum mikla þróun í skráðum félögum – árið 2010 voru aðeins 11 félög skráð á markað hérlendis, en nú, einum og hálfum áratug síðar, eru þau orðin 33,“ segir hann.

Hann bendir á að íslenskur markaður hafi aldrei verið fjölbreyttari. „Við höfum nú átta skráð félög þar sem markaðsverðið er rúmlega 100 milljarðar króna,“ útskýrir hann og bætir við að þessi þróun sé mikil breyting frá því þegar sjávarútvegur og landbúnaður voru meginatvinnuvegir landsins. „Í dag er Ísland miðstöð hátækniþróunar og hugverkaiðnaðar. Við sjáum bæði stóriðju og nýsköpun vaxa hratt, og íslenskir frumkvöðlar hafa skapað vörur og þjónustu sem er eftirspurn eftir um allan heim,“ segir hann.

Hann leggur þó áherslu á að það megi ekki gleyma því sem Ísland hefur löngum staðið sig vel í. „Við höfum verið í fararbroddi í sjávarútvegi og íslensk fyrirtæki hafa náð gríðarlegum árangri í þróun veiða og vinnslu. Þessi geiri hefur skilað miklum verðmætum og gert okkur að einni fremstu fiskveiðiþjóð heims,“ segir hann.

Jón telur því að fjárfestingartækifæri sé að finna í mörgum mismunandi geirum. „Hvort sem það er nýsköpun, hátækniiðnaður eða hefðbundnari atvinnuvegir er fjárfesting í íslensku atvinnulífi og uppbyggingu alltaf gulls ígildi,“ segir hann.

Að mati Jóns hefur tæknivæðing gjörbreytt sjóðastýringu og aðgengi fjárfesta að fjárfestingarkostum. „Við sjáum nú að fjárfestar hafa betri aðgang að sjóðum og öðrum fjárfestingarmöguleikum en nokkru sinni fyrr,“ segir hann.

Hann bendir á að fjárfestar séu að verða sífellt upplýstari og taki meðvitaðri ákvarðanir um fjárfestingarkosti sína. „Þróunin hefur verið í átt að aukinni skilvirkni og betri yfirsýn, sem hefur gert notendaviðmót sjóðastýringarþjónustu mun þægilegri,“ útskýrir hann.

Hann telur að Stefnir hafi verið í fararbroddi í þessum málum. „Við höfum lagt mikla áherslu á að gera aðgengi að sjóðum okkar einfaldara og veita nákvæmar og skýrar upplýsingar fyrir fjárfesta,“ segir hann.

Þá nefnir hann einnig mikilvægi fjártæknilausna í þessari þróun. „Arion banki hefur verið leiðandi í innleiðingu nýrra fjártæknilausna sem stuðla að betri sjóðastýringu, og við hjá Stefni höfum nýtt okkur þessa tækni til að bæta þjónustu okkar,“ segir hann að lokum.

Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.

til baka