Yfirvöld í Bandaríkjunum og í Ísrael hafa sett sig í samband við embættismenn stjórnvalda í þremur ríkjum í Austur-Afríku til að ræða notkun á landsvæðum þeirra sem hugsanlega framtíðarbúsetu Palestínumanna sem hafa verið fluttir frá Gasasvæðinu. Þetta er samkvæmt boðaðri tillögu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Þetta sögðu bandarískir og ísraelskir embættismenn við Associated Press.
Bandaríkin og Ísrael hafa rætt við embættismenn í Súdan, Sómalíu og aðskilnaðarsvæði Sómalíu sem kallast Sómalíuland. Málið þykir til marks um áframhaldandi tilraunir Bandaríkjanna og Ísraels til að halda áfram með áætlun sem hefur verið fordæmd víða og vakið alvarlegar lagalegar og siðferðilegar spurningar.
Vill koma Palestínumönnum fyrir á „fallegum stað“
Fram kemur í umfjöllun AP að öll ríkin séu fátæk og ofbeldi sé þar víða. Þetta sé því þvert á yfirlýst markmið Trumps um að koma Palestínumönnum frá Gasa fyrir á „fallegum stað“.
Embættismenn frá Súdan sögðu að þeir hefðu hafnað tilboðum frá Bandaríkjunum, á meðan embættismenn frá Sómalíu og Sómalíulandi sögðu við AP að þeir væru ekki meðvitaðir um nein samskipti.
Nær til ríflega tvegga milljóna
Samkvæmt áætlun Trumps yrðu ríflega tvær milljónir íbúa Gasa sendar til annarra landa varanlega. Forsetinn hefur lagt til að Bandaríkin myndu eigna sér svæði, hafa umsjón með hreinsun þess og þar yrði svo farið í uppbyggingu á fasteignum.
Fram kemur í umfjöllun AP að hugmyndin um flutning Palestínumanna í massavís hafi eitt sinn verið draumórar öfgaþjóðernissinna í Ísrael. En frá því Trump kynnti hugmyndina á fundi í Hvíta húsinu í febrúar hefur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fagnað henni sem „djarfri framtíðarsýn“.
Palestínumenn hafna tillögunni
Palestínumenn á Gasa hafa hafnað tillögunni og vísað á bug fullyrðingum Ísraela um að flutningurinn yrði sjálfviljugur. Þá hafa Arabaþjóðir lýst yfir harðri andstöðu og boðið fram aðra sýn sem myndi gera Palestínumönnum kleift að búa áfram á svæðinu. Mannréttindasamtök hafa enn fremur sagt að það að þvinga eða þrýsta á Palestínumenn til að yfirgefa svæðið gæti hugsanlega talist vera stríðsglæpur.
Engu að síður segir talsmaður Hvíta hússins að Trump „standi við sína sýn“.