fös. 14. mars 2025 12:45
Bríet og GDRN stíga saman á svið í Hörpu ásamt Stórsveit Reykjavíkur í apríl. Bríet ræddi það sem fram undan er í Ísland vaknar – en söngkonan hefur nóg fyrir stafni þessa dagana.
Kjaftasögurnar lifa enn: „Er það ekki það sem fólk vill?“

 „Þetta er ekki minn tími sko,“ sagði söngkonan Bríet með svefndrukkinni röddu þegar Bolli Már og Þór Bæring tóku hana tali í morgunþættinum Ísland vaknar, eldsnemma í morgunsárið.

Þótt söngkonan sé ekki mikil morgunmanneskja má engu að síður segja að nú sé hennar tími, enda nýbúin að hljóta Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bæði plötu og myndband ársins, í samstarfi við Birni.

 

https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/03/12/thessi_hljota_islensku_tonlistarverdlaunin_2025/

Þeir Bolli Már og Þór Bæring rifjuðu upp síðustu heimsókn hennar í K100-stúdíóið í nóvember, þar sem hún gerði upp árið og sagðist ætla að breyta til á nýju ári og vinna meira með enskt efni. Aðspurð hvernig það gengi svaraði hún:

„Það gengur mjög vel. Það er alltaf að koma mynd á þetta. Þetta er bara spennandi. Ég er ógeðslega spennt yfir þessu ári.“

https://k100.mbl.is/frettir/2024/11/11/thetta_er_buid_ad_vera_ogedslega_skritid_ar/

Hún var þó varkár í að gefa upp tímalínu fyrir nýtt efni:

„Svo er það stundum þannig að um leið og maður tekur einhverja ákvörðun, gerir maður eitthvað allt annað. Þannig að maður þorir ekki að segja neitt.“

View this post on Instagram

A post shared by BRÍET (@brietelfar)

 

Bríet er þessa dagana á fullu að undirbúa tónleika, og í kvöld, 14. mars kl. 20.00, stígur hún á svið í Salnum í Kópavogi með tónleikana Söngvaskáld | Bríet. Um er að ræða innilega tónleikaröð þar sem söngvaskáld flytja frumsamin lög og deila sögum af tilurð þeirra.

Daginn eftir, laugardaginn 15. mars kl. 14.00, heldur hún svo sérstaka fjölskyldutónleika á sama stað, þar sem yngstu aðdáendurnir fá tækifæri til að upplifa tónlistina í nærumhverfi. „Það verður gaman að fá að vera með börnunum og geta talað við þau,“ sagði hún. Enn eru einhverjir miðar lausir HÉR.

„Þetta gerir maður aldrei aftur“

Þegar talið barst að því að hún hefði áður tekið að sér morguntónleika, rifjaði hún upp einstaka upplifun sem hún segist ekki ætla að endurtaka:

„Ég tók það svona til að byrja með. Það var eitthvað gigg klukkan 9.00 á morgnanna þar sem maður áttaði sig á því að þetta gerir maður aldrei aftur. Þá hljóma ég eins og ég hljóma akkúrat núna. Og þá kemur það bara illa út fyrir alla,“ sagði hún og hló.

Bríet mun einnig halda miðnæturtónleika á Vagninum á Flateyri í 18. apríl, en þetta er þriðja árið í röð sem hún kemur fram á hátíðinni sem hún segir ótrúlega skemmtileg.

„Er það ekki það sem fólk vill?“

Eftir tónleikana í Salnum og Vagninum, taka við stórtónleikar í Hörpu þar sem Bríet kemur fram með GDRN og Stórsveit Reykjavíkur, en tónleikarnir verða haldnir 25. apríl kl. 20.00 en þar munu þessar tvær vinsælustu söngkonur landsins flytja nýjar og spennandi útsetningar af lögum sínum undir stjórn Ara Braga Kárasonar.

Þegar Bolli Már nefndi að hann hefði haldið að rígur væri á milli þeirra svaraði Bríet sposk:

„Er það ekki það sem fólk vill? Við getum alveg startað einhverju,“ sagði hún kaldhæðnislega áður en þau grínuðust með að söngkonurnar ættu að fara í samstarf með auglýsingastofu til að búa til ríginn sem samfélagið virðist vera að óska eftir. 

Þær Bríet og GDRN hafa oftar en einu sinni þurft að svara spurningum um uppspunninn ríg á milli þeirra. GDRN ræddi þetta sérstaklega í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan fyrir þremur árum, þar sem hún sagði:

„Við Bríet erum tvær ungar stelpur og strax fann ég fyrir samfélagslegum skringilegheitum. Það er eins og fólk hugsi sér borð fullt af karlmönnum, þar er ein kona. Svo á hún að henda konunni úr sætinu til að fá sæti við borðið.“ Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is HÉR.

 

Bríet og GDRN virðast því frekar vilja einbeita sér að tónlistinni og samstarfi sín á milli, en að láta sögusagnir hafa áhrif á sig – og hlakka til að stíga saman á svið í apríl.

Hér má hlusta á spjallið við Bríeti í Ísland vaknar. 

 

 

til baka