fös. 14. mars 2025 11:15
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur.
Rasmus­sen bregst við Trump: Virkar ekki svona

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, hefur brugðist við nýjustu ummælum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um Grænland, en Rasmussen segir að önnur ríki geti ekki tekið yfir danskt sjálfstjórnarsvæði.

„Ef þú skoðar NATO-sáttmálann, sáttmála Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðalög, þá er Grænland ekki opið fyrir innlimun,“ sagði Rasmussen við blaðamenn.

Þegar blaðamenn í Hvíta húsinu spurðu Trump í gær um innlimun Grænlands sagði forsetinn: „Ég held að það muni gerast.“

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, sem fundaði með Trump í gær, neitaði að tjá sig um málið.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/03/13/svarar_trump_nog_komid/

 

Vanvirðing

En Múte Egede, fráfarandi formaður landsstjórnar Grænlands, sagði að nú væri „nóg komið“. Hann greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að boða flokksleiðtoga á fund til að hafna sameiginlega ummælum Trumps.

Hann skrifaði í færslu á Facebook að grænlenskir leiðtogar yrðu að taka harðari sameiginlega afstöðu gagnvart hugmyndum Trumps. „Fólk getur ekki haldið áfram að vanvirða okkur,“ skrifaði Egede á Facebook.

Egede heldur áfram um stjórnartaumana á Grænlandi á meðan unnið er að myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir ósigur flokks hans í kosningum á þriðjudaginn.

„Enn einu sinni hefur Bandaríkjaforseti viðrað hugmyndina um að innlima okkur. Ég get alls ekki sætt mig við það,“ skrifaði hann.

til baka