Isaiah Stokes sem lék í þáttunum Law & Order: SVU og Blue Bloods hefur verið sakfelldur fyrir að verða hinum 37 ára gamla Tyrone Jones að bana og gæti þurft að verja það sem eftir er af ævinni bak við lás og slá.
Stokes, sem er 45 ára, var fundinn sekur eftir tveggja vikna réttarhöld. Dómurinn felur í sér manndráp og glæpsamlega vopnaeign í tengslum við skotárás á Jones 2021.
Saksóknarar segja að fyrir atburðinn hafi Stokes verið í hefndarhug gagnvart Jones síðan í október 2020, þegar hinn síðarnefndi sparkaði honum úr afmælisveislunni sinni eftir mikið rifrildi á klúbbi í Queens.
Þann 29. janúar 2021 á Stokes að hafa sett GPS-staðsetningartæki undir bifreið Jones í því skyni að elta hann uppi sömu viku. Það var svo 7. febrúar sem Stokes yfirgaf bifreið sína og gekk um svæðið í fimmtán mínútur áður en hann dró upp skotvopn og skaut alls ellefu skotum á bifreið Jones.
Jones, sem sat í bíl sínum og beið eftir vin, fékk skot í höfuð og brjóst, samkvæmt saksóknurum, og var síðar úrskurðaður látinn á vettvangi. Þess vegna töldu saksóknarar að Stokes hefði myrt hann að yfirlögðu ráði.
Úrskurðað verður um dóminn 21. mars og á hann yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi.