Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodkastsins svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem segir frá því að kærasti hennar hafi haldið framhjá með karlmanni.
Sæll Valdimar.
Barnsfaðir minn og kærasti til fjögurra ára hefur opnað sig við mig og sagt mér að hann hafi áhuga á karlmönnum… líka. En hann vill ekki hætta með mér. Hins vegar hélt hann fram hjá mér nýlega með karlmanni og segist hafa þörf á að taka svona hliðarspor af og til í framhaldinu. Ég er gjörsamlega miður mín. Ég elska hann ótrúlega mikið og hef í raun ekki séð framtíðina með neinum öðrum en honum. Allir í kringum mig segja mér bara að hætta með honum en það er bara of mikið fyrir mig. Hvað á ég að gera?
Kveðja,
BMG
Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.
Þetta er augljóslega erfið staða og skiljanlegt að þú sért miður þín yfir þessu. Það er eðlilegt að verða ringlaður í svona aðstæðum og margir upplifa að þeir séu í frjálsu falli þegar alvarlegir brestir eða óheiðarleiki kemur upp í samböndum. Það er mikilvægt fyrir þig að tengjast þínum eigin tilfinningum, komast að því hvað þú vilt í þessu sambandi og hvar mörkin þín liggja.
Þar sem upplýsingarnar eru takmarkaðar og þið eigið barn saman, þá myndi ég hiklaust mæla með faglegri aðstoð í þessu máli. Þar gætir þú fengið stuðning við að móta grunninn sem þú vilt standa á í áframhaldandi skoðun á málinu. Það getur líka verið mjög gagnlegt að hafa þriðja aðila viðstaddan þegar pör eru að fara í gegnum svona aðstæður. Hvað sem öðru líður þá mæli ég alla vega með því að þið eigið heiðarlegt samtal þar sem þú setur fram skýrar línur um hvað þú ert sátt við og hvað þú vilt út úr þessu sambandi. Það er eðlilegt að gera þá kröfu að samböndin okkar byggi á gagnkvæmri virðingu og heiðarleika. Ef þarfir maka þíns í kynlífinu fara engan vegin saman við þær línur sem þú getur sætt þig við, þá eru miklar líkur á að sársaukinn við að ljúka sambandinu sé léttvægari en að halda því áfram.
Gangi þér vel með næstu skref.
Kær kveðja,
Valdimar Þór Svavarsson.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR.