fös. 14. mars 2025 13:00
Mikil von er bundin við Demna Gvasalia.
Á Gucci sér viðreisnar von?

Demna Gvasalia hefur verið ráðinn nýr listrænn stjórnandi ítalska tískuhússins Gucci. Hann kemur frá franska tískuhúsinu Balenciaga þar sem hann hefur gegnt stöðu listræns stjórnanda síðustu tíu ár. 

Þessar fréttir koma nokkrum vikum eftir að Gucci tilkynnti um brottför ítalska fatahönnuðarins Sabato De Sarno sem stoppaði stutt við. De Sarno tók við Gucci af Alessandro Michele sem kom Gucci á flug þegar hann var aðalhönnuður. De Sarno tókst ekki að hleypa lífi í Gucci á þessum stutta tíma en salan dróst saman um 25% á síðasta ári. Það hafði mikil áhrif á móðurfélag fyrirtækisins, Kering, en Gucci er þeirra stærsta merki. Balenciaga er einnig í eigu Kering. 

https://www.mbl.is/smartland/tiska/2025/02/06/hefur_gengid_illa_og_haettur_eftir_tvo_ar/

Íþróttagallar fyrir ríka fólkið

Mikil von er bundin við Gvasalia og fróðlegt verður að sjá hvað hann gerir hjá ítalska lúxusmerkinu. Ráðningin er þó ekki laus við að vera umdeild. Eins og áður kom fram hefur Gvasalia vakið mikla athygli hjá Balenciaga en síðustu fatalínur hans hafa þó þótt vanta ýmislegt. Hann hefur aðallega verið í því að senda skítuga íþróttagalla fyrir ríka fólkið niður tískupallana eins og haust- og vetrarlínan hans fyrir árið 2025 hjá Balenciaga sýndi vel. Í línuna vantaði nýjungar sem flestir aðdáendur Gucci vonast til að sjá á næstu misserum.

Það verður þó að taka fram að Gvasalia hefur stórkostlega hæfileika í að koma sinni sýn áfram og búa til tískustrauma sem koma á óvart. Hann er vanur að fara sínar eigin leiðir og það er nákvæmlega það sem Gucci þarf á þessum tímapunkti. 

 

„Það er mikill heiður að komast inn í Gucci-fjölskylduna,“ sagði Gvasalia í fréttatilkynningu. „Ég ber mikla virðingu fyrir tískuhúsinu og hef lengi dást að merkinu. Ég hlakka til að skrifa næsta kafla um stórkostlega sögu tískuhússins og teymisins hjá Gucci.“

„Skapandi kraftur hans er nákvæmlega það sem Gucci þarf,“ sagði François-Henri Pinault, forstjóri Kering um ráðninguna.

til baka