fös. 14. mars 2025 11:28
Dæmi eru um að símahlið og öryggiskerfi hafi verið óvirk.
Furðar sig á að þjónusta sé ekki uppfærð

Brögð eru að því að fyrirtæki hafi ekki verið undir það búin að fjarskiptafyrirtæki vinna nú að því að slökkva á 2G- og 3G-farsímaþjónustu. Dæmi eru um að ýmis þjónusta sem styðst við farsímalausnir hafi ekki verið uppfærð til að mæta auknum tæknikröfum og því hafi orðið rof á þjónustu við neytendur.

Hjálmar Gíslason framkvæmdastjóri vakti máls á þessu í facebook-færslu í vikunni. Gat hann þess að bómuhlið við sumarbústaðabyggð hefði verið óvirkt í nokkra daga af þessum sökum og samband við öryggiskerfi í sumarbústað fjölskyldunnar hefði rofnað.

„Samband rofnaði og þegar ekki hafði náðst samband aftur eftir viku höfðu þau samband við okkur og sögðust enn ekki ná sambandi. Við þurftum sjálf að spyrja þau hvort verið gæti að þetta tengdist umræddum breytingum og jú, þau höfðu eitthvað heyrt um það. Myndu skoða málið. Reyndist vera raunin. Enn ekki kominn nýr búnaður og veit ekki hvort þau hyggjast rukka fyrir þá vinnu eða búnað,“ sagði í færslu Hjálmars. Ekki náðist í hann í gær.

Hjálmar gat þess einnig að hleðslustæði við fjölbýlishús hefði hætt að virka og nokkra daga hefði tekið fyrir þjónustuaðilann að komast að því hvað ylli. Tíu dögum seinna hefði hann fengið tilboð frá fyrirtækinu um uppfærslu búnaðar sem fæli í sér talsverðan kostnað.

Segir Hjálmar að það komi á óvart að viðkomandi þjónustuaðilar fylgist ekki betur með. Vitað hafi verið í áratug að til stæði að leggja þessi kerfi af og endanleg tímaáætlun hafi verið birt fyrir þremur árum. Þá veki það furðu að velta eigi kostnaði við endurnýjun yfir á viðskiptavini vegna eigin yfirsjónar.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

til baka