Stórleikur Luka Doncic dugði skammt þegar Los Angeles Lakers mátti sætta sig við 20 stiga tap fyrir Milwaukee Bucks á útivelli í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt, 126:106.
Doncic skoraði 45 stig fyrir Lakers í leiknum og tók auk þess 11 fráköst en það var ekki nóg. Giannis Antetokounmpo fagnaði sigri en hann skoraði 24 stig fyrir Milwaukee, tók 12 fráköst og átti níu stoðsendingar.
Lakers er eftir sem áður í fjórða sæti Vesturdeildar með 40 sigra í 64 leikjum og Milwaukee er í fjórða sæti Austurdeildar með 37 sigra í 65 leikjum.
Golden State Warriors hélt áfram sinni sigurgöngu og vann öruggan heimasigur á Sacramento Kings, 130:104. Draymond Green skoraði 23 stig fyrir Golden State og Steph Curry komst í sögubækurnar með því að verða fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að skora 4.000 þriggja stiga körfur í deildinni. Hann hefur átt metið í slíkum körfum í rúm þrjú ár og bætir það stöðugt.
Lið Golden State hefur nú unnið sex leiki í röð og níu af síðustu tíu. Liðið er komið upp í sjötta sæti Vesturdeildar með 38 sigra í 66 leikjum eftir að hafa verið í neðri hluta töflunnar mestallt tímabilið.
Úrslitin í nótt:
Detroit - Washington 125:129
Milwaukee - LA Lakers 126:106
New Orleans - Orlando 93:113
Chicago - Brooklyn 116:110
Golden State - Sacramento 130:104