Lögregla tilkynnti um stolinn bíl í dagbók sinni án þess að átta sig á að bíllinn væri þegar í hennar vörslu, vegna gruns um tengsl við meint manndrápsmál í Gufunesi.
Að skipan lögreglu hafði rauður Volkswagen Golf verið dreginn í burtu af bílastæði snemma á þriðjudag í tengslum við málið en síðar kom í ljós að hann var tekinn í misgripum.
Í millitíðinni lýsti lögregla sjálf eftir bílnum í dagbók sinni, eins og áður sagði, og gaf þar upp lit, tegund og skráningarnúmer. Var þar talað um nytjastuld.
Bíllinn skemmdist við aðgerðina og grandlaust ungmenni situr uppi með reikninginn.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/12/slogust_inni_i_bilnum_og_tjonudu_annan/
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/13/nyjar_upplysingar_utiloka_ekki_frekari_husleitir/
„Hvar er bíllinn?“
„Þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn og ætlaði að fara að keyra kærustuna mína í skólann var bíllinn ekki á sínum stað á bílastæðinu og ég bara: „Hvar er bíllinn?“. Kærastan mín bara yppti öxlum og sagðist ekki vita það.“
Þannig segir rúmlega tvítugur Palestínumaður, Sohaib Husam Albayyouk, af raunum sínum.
Segir hann vini sína hafa sagt sér frá því að einhvers konar lögregluaðgerð hefði staðið yfir fyrir utan húsið um nóttina en gestagangur var á heimilinu þá um nóttina.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/13/einn_handtekinn_til_vidbotar/
Send á milli lögreglustöðva
Parið hringdi í lögregluna þegar bíllinn fannst ekki á bílastæðinu og voru þau beðin að koma á lögreglustöðina á Dalvegi í Kópavogi.
Þaðan voru þau send á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem tekin var skýrsla af Sohaib en parið sagðist strax finna á sér að um eitthvað stærra og meira mál væri að ræða en að bílnum hefði verið stolið.
Síðar kom svo í ljós að lögregla hafði tekið bíl Sohaib í misgripum fyrir annan svipaðan af sömu tegund án þess að láta hann vita.
Gerð var leit í bílnum en ekkert fannst og að lokum fékk Sohaib bílinn til baka í gær, fimmtudag.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/13/rannsoknin_a_vidkvaemu_stigi/
„Sögðu ekki einu sinni sorrí“
„Þetta er svo mikið rugl. Ef þú tekur eitthvað, verður þú ekki að láta vita? Hvað ef ég hefði verið á leið í flug eða eitthvað?“
Parið segir einnig að lögregla hafi jafnvel talið að Sohaib stundaði peningaþvætti eða sé hluti af einhverjum hópi sem stundi slíkt.
Þau segja málið allt saman mjög undarlegt. Bíllinn hafi komið skemmdur úr vörslu lögreglu sem hafi ekkert þóst vita um skemmdirnar.
„Þetta er alveg ruglað. Þeir sögðu ekki einu sinni sorrí.“