Útvarpsmaðurinn og samfélagsmiðlastjarnan Ólafur Jóhann hefur nýlega deilt reynslu sinni af hjartaaðgerð sem hann gekkst undir í Svíþjóð í einlægu TikTok-myndbandi.
Fór fyrst í aðgerð aðeins tveggja daga gamall
Ólafur, sem fæddist með hjartagalla var tveggja daga gamall þegar hann var sendur til Boston í tvær hjartaaðgerðir, hefur alist upp með vitneskjuna um að aðgerð þar sem gerð væru hjartalokuskipti biði hans einhvern tímann í framtíðinni. Sú stund rann svo upp fyrir skömmu. Í myndbandinu talar hann um að aðdragandi aðgerðarinnar hafi reynst miklu erfiðari en hann átti von á.
Versti dagur lífs hans
Ólafur greinir frá því að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús í meira en tvær vikur. Hann þurfti að dvelja á gjörgæslu í þrjá daga, þegar læknar settu dren undir hjartað og í síðu hans til að losa um vökva. „Ég öskraði af sársauka í 40 mínútur – þetta var versti dagur lífs míns,“ segir hann um þá reynslu.
Gangráður nauðsynlegur
Einnig þurfti að setja upp gangráð í Ólaf til að tryggja eðlilega hjartsláttartíðni þar sem hluti af hjartanu náði ekki að slá eins hratt og hinn.
En það var ekki allt - læknar komust einnig að því að ósæðin var of þröng og þurfti að setja aukabúnað til að halda henni opinni, sem hefur reynst Ólafi erfitt í bataferlinu.
Andlegir erfiðleikar
Ólafur segist aldrei áður hafa upplifað jafn mikla andlega erfiðleika.
Hann missti um það bil 7-8 kíló á þessum tíma og telur að það muni taka langan tíma að byggja sig upp aftur, bæði andlega og líkamlega.
Ólafur, sem dvaldi í Svíþjóð ásamt kærustu sinni, Sigurlaugu, fékk að fara heim 7. mars síðastliðinn og tekur því rólega.
Í myndbandinu á TikTok, sem sjá má hér að neðan, opnar Ólafur sig um þessar miklu áskoranir og löngu spítalavist:
Ólafur deildi einnig Instagram-færslu þar sem hann segir frá þessum atburði: