fös. 14. mars 2025 10:50
Drengurinn hafði verið tekinn úr skóla og sýndi einkenni geðrofs.
Myrti foreldra sína og kveikti í æskuheimilinu

Sautján ára franskur drengur hefur verið dæmdur af barnadómstól í tólf ára fangelsi fyrir morð á foreldrum sínum. Drengurinn er einhverfur og hefur lengi glímt við þunglyndi.

Í nóvember árið 2023 – þá fimmtán ára gamall – skaut drengurinn föður sinn og móður í höfuðið með riffli, kveikti í æskuheimili sínu og flúði síðan vettvang á bíl foreldra sinna.

Var hann handtekinn sex dögum seinna, er hann reyndi að flýja til Spánar.

Sýndi einkenni geðrofs

Á meðan á rannsókn málsins stóð viðurkenndi drengurinn að hafa framið morðin af yfirlögðu ráði, í von um að breyta lífi sínu.

Að sögn lögfræðings föðurbróður drengsins sagðist hann í réttarhöldunum hafa verið að upplifa mikla andlega erfiðleika á þeim tíma og hafi viljað lina þjáninguna.

Það er mat sérfræðinga að á verknaðarstundu hafi drengurinn – sem er einhverfur og hefur glímt við þunglyndi – einnig sýnt einkenni geðrofs, eins og ranghugmyndir, ofskynjanir og hugsanatruflanir. Hann hafði einnig verið tekinn úr skóla.

Rannsókn á málinu sýndi þó einnig fram á að drengurinn og móðir hans þjáðust líklega af lyme-sjúkdómnum, sem berst í menn eftir bit sýkts skógarmítils.

til baka