Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekki hafa meint neitt illt með ummælum sínum um árangur Shamrock Rovers, sem komst í umspil um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar fyrr á tímabilinu.
Í desember, þegar ljóst var að Shamrock Rovers færi áfram eftir deildarkeppni Sambandsdeildarinnar, sagði Heimir að hann vonaðist til þess að ferlar leikmanna liðsins myndu breytast við það að ná þessum árangri.
Stephen Bradley, þjálfari Shamrock Rovers, brást ókvæða við ummælunum og sagði þau markast af „ótrúlegri vanvirðingu“.
„Ef ég hef sagt þetta á þann hátt að leikmenn þyrftu að fara frá félaginu til þess að komast í landsliðið var það ekki það sem ég meinti.
Enskan mín er ekki fullkomin en ef ég hef sagt þetta með röngum hætti biðst ég afsökunar á því. Það er ekki það sem mér finnst. Það var ekki meining mín að vanvirða írsku deildina.
Ef þið lítið á fortíð mína sem landsliðsþjálfara þá hef ég reglulega valið leikmenn sem spila innanlands til þess að hrista upp í hlutunum og virða þær deildir,“ sagði Heimir á fréttamannafundi í dag.
Var að hrósa liðinu
„Ef lið standa sig jafn vel og Shamrock Rovers eru þau að spila á því stigi sem við berum hina leikmennina saman við. Ég var að hrósa Rovers.
Það sem er líklegt að gerist ef þú stendur þig vel í Evrópukeppnum er að athyglin beinist að félaginu og mikil athygli beinist að leikmönnunum og þjálfaranum,“ útskýrði Eyjamaðurinn nánar.