Karl Héðinn Kristjánsson, forseti ungliðadeildar Sósíalistaflokksins, segir Gunnar Smára Egilsson hafa reynt að standa í vegi fyrir að unnið sé í lýðræðislegum ferlum innan flokksins. Slæmt samband hafi verið þeirra á milli síðan Gunnar neitaði að borga Karli tvenn mánaðarlaun sumarið 2023. Gunnar hafi svo neitað sáttarfundi eftir beiðni flokksins.
Greint hefur verið frá að Karl hafi sagt af sér úr kosningastjórn flokksins í vikunni en í bréfi til félagsmanna sakaði hann Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjórnar flokksins, um trúnaðarbrot, ofríki og andlegt ofbeldi.
Karl segir af sér: „Ömurleg vinnubrögð“
Könnunin myndi fá „falleinkunn í félagsvísindum“
Karl Héðinn segir að nýverið hafi verið haldin vinnuhelgi á vegum kosningastjórnarinnar sem félagsmenn úr öllum kjördæmum, stjórnum og virkri grasrót hafi sótt. Þar hafi verið unnið málefnalaga að því að læra af kosningabaráttu flokksins frá síðustu Alþingiskosningum og spruttu fram ýmis þemu um breytingar sem félagsmenn vildu sjá í flokknum.
Segir hann að lítill kjarni innan framkvæmdastjórnar flokksins og formenn málefnastjórnar hafi ákveðið að gera skoðunarkönnun en eins og fram hefur komið kom þar í ljós að á meðal þeirra 15% félaga sem svöruðu könnuninni hafi verið 90% ánægja í öllum spurningum nema um niðurstöður kosninganna.
Karl segir hins vegar könnunina vera ómarktæka. Spurningar hafi t.a.m. verið leiðandi og ýmsum atriðum blandað saman.
„Þú myndir fá falleinkunn í félagsvísindum ef þú myndir búa til svona könnun,“ segir Karl og veltir því einnig fyrir sér hvort það eigi að „hlusta á virka félagsmenn Sósíalistaflokksins eða þá sem sitja heima á sófanum.“
Formennirnir standa með Gunnari Smára
Lítill kjarni hafi reynt að koma í veg fyrir vinnuhelgina
Þá nefnir hann að Gunnar Smári hafi sniðgengið vinnufund kosningastjórnarinnar og þar á undan hafi lítill kjarni í kringum Gunnar, sem samanstendur af Maríu Pétursdóttir, formanni málefnastjórnar, Oddnýju Eir Harðardóttur, stjórnarmanni í framkvæmdastjórn sem einnig er kærasta Gunnars Smára, Söru Stef. Hildar, varaformanni framkvæmdastjórnar, og Margréti Pétursdóttur, stjórnarmanni í framkvæmdastjórn, reynt að koma í veg fyrir að hann yrði haldinn.
Gagnrýni afskriðuð sem fáfræði
Hafi svo síðustu helgi verið boðað til sameiginlegs fundar stjórnanna í flokknum, kosningastjórnar, framkvæmdastjórnar og málefnastjórnar, þar sem, að sögn Karls, enginn vilji hafi verið til þess að fara yfir vinnu vinnuhelgar kosningastjórnarinnar heldur hafi fyrrnefndri skoðunarkönnun verið „slengt upp sem merki þess að engin óánægja hafi verið í flokknum né vilji til breytinga og að lítill grenjandi minnihluti væri með vesen.“
„Og á þeim fundi var öll gagnrýni sem komið hafði málefnalega fram frá þessari vinnuhelgi afskrifuð sem fáfræði og jafnvel vísað til ills innrætis þeirra er höfðu gagnrýnt starfið,“ segir Karl og nefnir að þar hafi hann fengið nóg og sagt af sér.
Ómarktæk tölfræði á bak við mótmæli formanna
Í yfirlýsingu frá formönnum stjórna Sósíalistaflokksins er nefnt að 1,5% félaga hafi setið þann vinnufund kosningastjórnar sem Karl vísar til. Er það nefnt rétt á eftir að 15% félagsmanna hafi lýst yfir ánægju.
„Það er bara bullandi ómarktæk tölfræði hvernig þau eru að reyna að mótmæla. Af því að þau sem koma á vinnuhelgina voru oddvitar úr flestum kjördæmum í síðustu Alþingiskosningum og flest efstu sæti líka. Það var fólk úr öllum stjórnum og virkri grasrót sem hefur tekið þátt í baráttunni,“ segir Karl og heldur áfram:
„Og það var mikill samhljómur á meðal okkar sem vorum að vinna þar um svona lykilatriðin. En fyrir utan þennan litla kjarna í kringum Gunnar Smára sem einmitt sendir frá sér þetta að ég sé í raun bara að tala fyrir 1,5% félagsmanna - það er bara alls ekki rétt.“
Orðið fyrir miklum vonbrigðum
Af hverju telur þú að þessi kjarni hafni þínum ásökunum og standi með Gunnari?
„Ég hreinlega veit það ekki og hef spurt mig að því í smá tíma og orðið fyrir því miður miklum vonbrigðum með þessa góðu félaga mína sem ég hef þekkt lengi og verið mikið með í baráttunni. Ég botna ekki alveg í því.“
Mun búa til breytingartillögur fyrir næsta aðalfund
Hver eru næstu skref, breytir þetta eitthvað stöðu þinni innan flokksins?
„Já, ég er ekki með kosningastjórn lengur en ég mun kalla eftir því og hvetja til þess að það verði fleiri félagsfundir þar sem verður rætt um næstu skref flokksins og hvernig við viljum breyta til batnaðar. Innan ungliðadeildarinnar munum við sjálf gera slíkt og ef stjórnirnar ætla ekki að boða til funda þá munum við bjóða félögum að koma og ræða um niðurstöður vinnuhelgarinnar og búa til breytingartillögur sem yrðu þá lagðar fram á aðalfundi Sósíalistaflokksins í maí. Við viljum og ég hef lengi kallað eftir því að þetta sé gert í opnu og lýðræðislegu ferli með aðkomu sem flestra félagsmanna þannig að það sé ágæt sátt um breytingarnar sem eru samþykktar á næsta aðalfundi,“ segir Karl og heldur áfram:
„Þar liggur hundurinn grafinn í því að formaður framkvæmdastjórnar og fleiri í kringum hann hafa ekki viljað fara í þá vinnu.“
Gunnar hafi hafnað sáttum
Hefurðu eitthvað rætt við Gunnar Smára og ef ekki, sérðu það samtal eiga sér stað?
„Því miður ekki. Hann neitaði að borga mér tvö mánaðarlaun sumarið 2023 og það hefur ekki beint verið gott samband á milli okkar síðan þá þó að ég hafi nú reynt. Það er svona eiginlega beint í kjölfar kosninganna sem að það er svo lagt til að ég fari á svona sáttarfund með honum og ég gengst við því en ekki hann,“ segir Karl en starfið segir hann hafa verið í tengslum við miðilinn Samstöðina þar sem Gunnar Smári er ritstjóri.
Reyndi að leita til annarra formanna án árangurs
Aðspurður hvort hann hafi leitað til annarra formanna innan flokksins eins og t.d. Maríu Pétursdóttur, formanns málefnastjórnar eða Sönnu Magdalenu segir hann svo vera.
„Ég kom til þeirra persónulega og reyndi að fara formlegar leiðir innan flokksins til þess að segja frá þessu og því miður var aldrei tekið á því þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Og ég er nú ekki einn um það að hafa komið og reynt að fá hjálp með eitthvað slíkt hvað varðar hann.“
Af þeim sökum segist Karl vera að tilkynna afsögn sína með opinberlegum hætti. Hann hafi verið búinn að leita allra leiða og segist honum hafa farið að líða eins ekki stæði til að taka á málum og að verið væri að gera hann sjálfan og fleiri að vandamálinu, en ekki hegðun Gunnars Smára.
„Því miður er það staðan og ég er ekki einn um það.“
Segir Gunnar hafa logið upp á sig
Gunnar Smári boðaði til skyndifundar á miðvikudag í kjölfar ásakana Karls á hendur honum og segir Karl hafa mætt á þann fund.
„Þar tók Gunnar Smári til máls og talaði í um klukkutíma. Þar var hann að bregðast við því sem ég var að segja og ásakaði mig sömuleiðis um ýmislegt, eins og ég hefði breytt hámarksaldri ungra sósíalista úr 30 í 35 ára til þess að halda mér sjálfum sem forseta ungliðahreyfingarinnar sem er bara hrein og bein lygi sem hann grípur þarna út úr lausu lofti.“
Gunnar Smári boðar til skyndifundar
Vildi ekki leyfa Karli að svara
Segist Karl hafa beðið um að taka sjálfur til máls til að svara ásökunum Gunnars en að Gunnar hafi ekki viljað það og meinað honum mótsvar þar sem áætlað var að aðeins Gunnar myndi tala og taka svo við nokkrum spurningum í kjölfarið.
„En ég spyr félagsmenn sem voru á fundinum og þau sögðu að ég mætti fara upp, þannig að ég fór upp og svaraði því sem hann sagði og svo voru nokkrar spurningar í viðbót og þær voru nú flestar að taka undir flest af því sem ég hef verið að segja,“ segir Karl og bætir við:
„Enda er það bara kolrangt að ég tali bara fyrir eitthvað 1,5%.“
Ágreiningur um lýðræðislega ferla og menningu
Aðspurður segir hann ágreining innan flokksins ekki vera hugmyndafræðilegan heldur snúa meira að lýðræðislegum ferlum og menningu innan flokksins.
„Við í ungliðunum ætlum að stuðla að því að unnið verði að breytingartillögum fyrir aðalfund sameiginlega með félögum okkar í sem bestri sátt og það er einmitt líka eitthvað sem hefur verið stoppað af Gunnari Smára - að sú vinna fái að fara fram.“