Landsmenn hafa eflaust tekið eftir því að nú er byrjað að glitta í vorið. Sólin skín á heiðskírum himni, hálkan er horfin, grasið byrjað að grænka og vetrarúlpurnar komnar í geymslu.
Margir eru þegar byrjaðir að huga að vorverkunum, enda aldrei of seint að byrja að undirbúa komu sumarsins.
Árni Björn Kristjánsson, fasteignasali og vaxtarræktarkappi, er einn af þeim sem geta vart beðið eftir sumrinu, ef marka má nýjustu færslu hans á Instagram.
Árni Björn nýtti blíðviðri dagsins, forsmekkinn af því sem koma skal, til að þrífa pallinn og deildi skemmtilegu myndskeiði af sér á samfélagsmiðlasíðunni, en þar sést hann, með kúst í hönd, að gera vorhreingerningu á pallinum, kviknakinn.
„Það er officially ALVEG að koma sumar! Vorhreingerningin á pallinum var tekin í nýju fötum keisarans því það er svo gott veður.
Fleiri sem eru spenntir fyrir sumrinu?” skrifaði hann við myndskeiðið.