fim. 13. mars 2025 20:31
Rannsóknarstofnun Wuhan í veirufræðum.
BND taldi að kórónuveiran hefði óvart lekið frá rannsóknastofu

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að þýska leyniþjónustan hafi talið að 80-90% líkur séu á því að kórónuveiran hafi óvart lekið frá kínverskri rannsóknastofu.

Tvö þýsk dagblöð greina frá því að þau hafi komist yfir upplýsingar um sérstakt mat sem njósnastofnunin BND gerði árið 2020 en var aldrei birt.

Leyniþjónustan bjó yfir vísbendingum um að veirufræðistofnun í Wuhan hefði verið að framkvæma tilraunir þar sem átt var við veirur með þeim hætti að þær ættu auðveldara með að smitast á milli manna, að því er segir í umfjöllun á vef BBC.

Ítrekað neitað sök

Kína hefur ítrekað neitað þessu og sagt að það ætti að vera í höndum vísindamanna að taka ákvörðun um orsökina. Kínverjar hafa bent á rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem komst að þeirri niðurstöðu að kenningar um leka frá rannsóknastofu í Kína væru „afar ólíklegar“.

Engin samstaða er um orsök kórónuveirufaraldursins.

Vísindamenn hafa gagnrýnt harðlega kenninguna um leka frá rannsóknastofu. Margir segja að það séu engar óyggjandi sannanir sem styðji hana.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/03/01/fbi_telur_koronuveiruna_af_rannsoknarstofu/

Á öðru máli

Sumar leyniþjónustustofnanir eru hins vegar á öðru máli og nú hefur BND bæst í hóp þeirra sem telja kenninguna trúanlega.

Í janúar sagði bandaríska leyniþjónustan CIA að kórónaveiran hefði líklega lekið frá rannsóknastofu en að ólíklegra væri að hún hefði komið frá dýrum. FBI hafði áður komist að sömu niðurstöðu. 

Saaremaa-verkefnið

Samkvæmt umfjöllunum þýsku miðlanna Die Zeit og Sueddeutscher Zeitung komu starfsmenn BND saman í Berlín árið 2020 til að rannsaka uppruna kórónuveirunnar í aðgerð sem kölluð var Saaremaa-verkefnið.

Það mat kenninguna um rannsóknastofuna sem „líklega“ þó að ekki lægju fyrir óyggjandi sannanir.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2021/12/16/veiran_hafi_liklegast_lekid_af_rannsoknastofu/

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2021/03/31/utilokar_ekki_ad_veiran_hafi_borist_ur_tilraunastof/

til baka