Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað 200% tolli á vín, kampavín og aðrar áfengar vörur frá Frakklandi og öðrum löndum í Evrópusambandinu. Kemur hótunin í kjölfar áætlaðra refsitolla Evrópusambandsins á meðal annars bandarískt viskí, sem taka eiga gildi í byrjun apríl.
„Ef ekki verður hætt við þessa tolla um leið munu Bandaríkin bráðlega setja 200% toll á öll VÍN, KAMPAVÍN OG ÁFENGAN VARNING FRÁ FRAKKLANDI OG ÖÐRUM ESB-LÖNDUM,“ skrifaði forsetinn á samfélagsmiðlum.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/03/12/esb_gripur_til_adgerda_vegna_tollahaekkana_trumps/
Bregðast við tollahækkunum Bandaríkjanna
Frá því Trump sór embættiseið hefur hann beitt tollum til að þrýsta á önnur lönd í viðskiptum og ýmsum stefnumálum en í gær tilkynnti Evrópusambandið tollahækkanir er ná til vöruinnflutnings fyrir um 28 milljarða dollara frá Bandaríkjunum – til að bregðast við tollahækkunum Bandaríkjamanna á vörur úr stáli og áli sem tóku gildi aðfaranótt miðvikudags.
Gagnrýndi Trump ESB og sagði 50% álagningu á viskí „andstyggilega“.
Þá sagði hann sambandið „eitt fjandsamlegasta og árásargjarnasta skatt- og tollavald í heiminum“ sem stofnað hafi verið „í þeim tilgangi að nýta sér Bandaríkin“.
Hamlandi tollar
Bandarísk brugghús hafa sagst „mjög vonsvikin“ yfir ákvörðun ESB.
„Að endurreisa þessa hamlandi tolla þegar áfengisiðnaðurinn stendur frammi fyrir lægð á bandarískum markaði mun draga enn frekar úr vexti og hafa neikvæð áhrif á brugghús og bændur um allt land“, sagði Chris Swonger, yfirmaður Distilled Spirits Council, í yfirlýsingu.
Árið 2018 leiddu sambærilegir tollar til 20% lækkunar á útflutningi á bandarísku viskíi til ESB-landa. Þegar tollarnir voru teknir úr gildi árið 2021 hækkaði sú tala um 60%.
Segir mótaðgerðir „sterkar en í samræmi“
Tollastríði Trump hefur verið miðað að Kanada, Mexíkó og Kína, en forsetinn segir löndin ekki hafa gert nóg til að hindra smygl á eiturlyfinu fentaníl til Bandaríkjanna.
Einnig hefur tollastríðinu verið miðað að ákveðnum varningi, eins og stáli, áli og kopar.
Sum lönd hafa gripið til refsitolla gegn Bandaríkjunum, svipað og ESB.
Kína hefur til að mynda heitið því að gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana til að bregðast við tollum Bandaríkjanna og hefur þegar gripið til 10% og 15% tolla á bandarískan landbúnað, eins og sojabaunir og kjúkling.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir mótaðgerðir ESB „sterkar en í samræmi“ við Bandaríkin.