fim. 13. mars 2025 17:30
Doomscrolling Endalaust „skroll“ getur aukið streitu og kvíða.
Ertu að farast úr stressi?

Daglegt líf getur verið annasamt og krefjandi. Margir þekkja það að vera á hlaupum frá morgni til kvölds – koma börnunum í leikskóla, sinna vinnu, takast á við umferðina, skipuleggja heimilið og sinna fjölmörgum verkefnum. Þegar loksins gefst tími til að slaka á getur verið erfitt að finna réttu aðferðina.

Hefðbundnar slökunaraðferðir eins og jóga og hugleiðsla henta ekki öllum, en sem betur fer eru til margar aðrar leiðir til að draga úr streitu. K100 tók saman nokkrar áhugaverðar og nokkuð óhefðbundnar aðferðir sem geta hjálpað fullorðnu fólki að slaka á og endurhlaða orkuna.

 

1. Gæludýr án skuldbindingar

Gæludýr hafa róandi áhrif á bæði líkama og sál. Rannsóknir sýna að það að klappa dýrum getur minnkað streituhormónið kortisól og aukið framleiðslu á oxýtósíni, hormóni sem stuðlar að vellíðan.

En hvað ef þú átt ekki dýr?

Kattakaffihús Kattakaffihúsið er í miðbæ Reykjavíkur en þar geta gestir notið kaffibolla í félagsskap katta. Að sitja í rólegu umhverfi með spökum kisum hefur róandi áhrif og getur dregið úr streitu.

 

Purrli Ef þú átt ekki kött en elskar róandi hljóðið frá malandi kisu geturðu heimsótt Purrli.com og hlustað á sérsniðið kattarmal sem breytist með tímanum, rétt eins og raunveruleg kisa væri hjá þér.

Ef þú ert svo heppin/n að eiga gæludýr, þá er fullkomið tækifæri til að minnka streituhormón með því að kjassa þau og njóta stundarinnar.

2. ASMR

ASMR (Autonomous Sensory Meridian Response) er einstök skynræn upplifun sem sumir fá þegar þeir hlusta á ákveðin hljóð, t.d. hvíslandi raddir, burstahljóð eða pappírsbrak.

Rannsóknir benda til þess að ASMR geti lækkað hjartsláttartíðni, aukið vellíðan og hjálpað fólki að sofna hraðar. Fjölmargar vefsíður, YouTube-rásir og Spotify-listar eru tileinkaðir þessu fyrirbæri – svo ef þú hefur ekki prófað ASMR áður, gæti verið þess virði að kanna hvaða áhrif aðferðin hefur á þig.

 

 

3. „Heimskulegur göngutúr“

Að fara út í göngutúr er einföld en áhrifarík leið til að draga úr streitu. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel stutt ganga getur bætt skap, aukið einbeitingu og dregið úr neikvæðum hugsunum. En það er ekki alltaf auðvelt að koma sér af stað – sérstaklega í íslensku veðri.

Þetta endurspeglast í TikTok-trendinu „Taking a stupid walk for my stupid mental health“ (sem þýða mætti lauslega yfir á íslensku svona: „Fara í heimskulegan göngutúr fyrir heimskulegu andlegu heilsuna mína“) þar sem fólk deilir myndböndum af sér að pína sig út í göngutúr til að hlúa að andlegri heilsu – jafnvel þegar illa liggur á þeim. Það er einmitt þessi tilfinning sem margir tengja við: Við vitum að hreyfing er góð fyrir okkur, en stundum þurfum við smá sjálfshvatningu til að fara af stað.

@grandadjoe1933 Go for a walk they say 🙄 #mentalhealthmatters #humour ♬ оригинальный звук - _malifisenta007_

 

Hvernig lögum við þetta að íslenskum veruleika?

Klæddu þig vel og láttu veðrið ekki stoppa þig. Það er fátt betra en að koma inn í hlýjuna eftir ferskan göngutúr.

@ninalaevski So true🤑 #stupidwalkchallenge ♬ оригинальный звук - _malifisenta007_

 

Settu á tónlist, hlaðvarp eða jafnvel náttúruhljóð, ef þér finnst óþægilegt að ganga í þögn eða nærð ekki að komast úr látunum sem fylgja oft þéttbýli. Við mælum samt sérstaklega með að reyna að hlusta á náttúruna.

Ef allt annað bregst geturðu farið á vefsíðuna Tree.fm og hlustað á náttúruhljóð, jafnvel þótt þú sitjir bara inni og þykist vera úti í göngutúr.

4. Hlátur og öndunaræfingar

Hlátur hefur jákvæð áhrif á líkamann – hann minnkar streituhormón, eykur endorfín og bætir skapið. Rannsóknir hafa sýnt að það að gera sér upp hlátur eða þykjast hlæja getur haft sömu jákvæðu lífeðlisfræðilegu áhrifin og ekta hlátur. Mörgum gæti þótt þetta hálf vandræðalegt en þá getur verið gott að vera viss um að þú sért í einrúmi.

Ef þú vilt prófa þetta geturðu:

Kreist fram hlátur í nokkrar sekúndur og séð hvort þér líður betur.

Horft á fyndin myndbönd eða hlustað á hlaðvörp sem fá þig til að brosa.

Tekið þátt í hláturjóga í hópi (sem er algjör sprengja fyrir andlega heilsu!).

Streita veldur hraðari öndun, en djúp öndun virkjar slökunarkerfið.

Hér eru tvær einfaldar aðferðir:

Box-öndun (4-4-4-4): Andaðu inn í 4 sekúndur, haltu inni í 4 sekúndur, andaðu út í 4 sekúndur, haltu úti í 4 sekúndur.

Lengri útöndun: Andaðu rólega inn í 4 sekúndur, andaðu frá þér í 6 sekúndur eða lengur.

Aðeins nokkrar mínútur af öndunaræfingum geta róað taugakerfið og dregið úr spennu.

 

5. Dagbækur og jákvæðni

Að skrifa niður hugsanir og tilfinningar getur verið frábær leið til að vinna úr streitu og endurskoða hugarfar sitt. Hér eru nokkrar leiðir sem geta hjálpað:

„Bullet journaling“ (punktadagbók): Skipuleggðu hugann með því að skrá niður verkefni, tilfinningar og markmið.

Þakklætisdagbók: Að skrifa niður þrjú jákvæð atriði á hverjum degi getur aukið vellíðan.

Jákvæð sjálfsrýni: Að velta fyrir sér hvað hefur gengið vel frekar en því sem hefur farið úrskeiðis getur hjálpað til við að minnka neikvæða sjálfsgagnrýni og kvíða.

 

6. Skapandi slökun

Lego – Legokubbar geta skapað frábært verkefni til að minnka stressið. Lego hefur einmitt nýverið gefið út svokölluð Lego-blóm sem eru ótrúlega sniðug fyrir þá sem vilja róandi handavinnu.

 

Fullorðinslitabækur og demantamyndir – Mörgum þykir afskaplega róandi að lita í sérstakar litabækur ætlaðar fullorðnum og nú virðast svokallaðar demantsteikningar einnig vera að slá öllu við í vinsældum.

 

Prjón og hekl – Fyrir þá sem hafa áhuga er svo auðvitað hægt að prjóna og hekla.

Púsluspil og kapall – Að púsla róar hugann og veitir tilfinningu fyrir árangri. Það sama á við um að leggja kapal.

7. Tölvuleikir sem veita hugarró

Tölvuleikir þurfa alls ekki að vera stressandi og sumir eru hreinlega gerðir til minnka streitu. Hér má sjá nokkra róandi leiki en hægt er að fá flesta þeirra einnig í snjallsíma þó þeir séu einnig til fyrir leikjatölvur eins og Nintendo Switch.

Stardew Valley – Sveitalíf þar sem þú ræktar jörðina þína og eignast vini.

Animal Crossing – New Horizons – Fallegur leikur þar sem þú hannar eyjuna þína.

A Short Hike – Gönguferð í leikjaformi þar sem þú kannar náttúruna.

Unpacking – Notalegur leikur þar sem þú raðar hlutum á sinn stað.

Minecraft í Creative mode – Slakandi byggingarspilun án streitu eða tímamarka.

 

8. Hvað ætti að forðast?

Doomscrolling“ – Að skoða endalaust af neikvæðum fréttum getur aukið kvíða.

Of mikil skjánotkun á kvöldin – Skjágláp getur haft neikvæð áhrif á svefn.

Óskipulagt umhverfi – Drasl getur aukið stress, en ruslapokaaðferðin getur hjálpað.

Að vanrækja grunnþarfir – Svefn, næring og hreyfing skipta öllu máli. Við vitum þetta öll en í alvöru! Svefninn hefur svo ótrúlega mikið að segja.

Að fresta mikilvægum hlutum – Ókláruð verkefni geta safnast upp og valdið óþarfa streitu.

til baka