Á árunum 2025 til 2028 mun umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytið verja allt að einum milljarði í styrki til leitar og nýtingar á jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar. Með árangri mun m.a. nást að lækka húshitunarkostnað heimila og skapa átta milljarða ávinning fyrir ríkissjóð.
Þetta kemur fram í ávarpi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um átak í leit og nýtingu jarðhita 2025-2028, en átakið var kynnt rétt í þessu í ráðuneytinu.
Beint: Kynna stærsta átakið á þessari öld
Jarðhiti jafnar leikinn
Jóhann segir Ísland í einstakri stöðu þar sem yfir 90% heimila landsins hafi aðgang að hitaveitu sem nýti jarðhita til húshitunar.
Eftir standi þó tæp 10% sem noti aðrar leiðir til húshitunar sem séu rándýrar, óhagkvæmar og ósanngjarnar. Því hlutfalli þurfi að ná hratt niður á næstu árum. Því sé yfirskrift átaksins Jarðhiti jafni leikinn.
Grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun
Segir ráðherrann að með árangri í leit og nýtingu jarðhita muni t.d. nást að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er mestur, ekki verði einnig náð að létta kostnaði af fyrirtækjum, sveitarfélögum sem og grunnþjónustu í skólum og hjúkrunarheimilum á köldum og krefjandi svæðum.
„Þetta er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og byggðaþróun í landinu,“ segir Jóhann og bætir við að ríkisstjórnin muni nú stíga stærri skref í þessum efnum en hafa áður verið stigin á þessari öld.
Slá margar flugur í einu höggi
„Á árunum 2025 til 2028 ætlum við að verja allt að einum milljarði króna í styrki til leitar og nýtingar á jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar,“ segir Jóhann.
Hann segir milljarð háa fjárhæð og að um hápólitíska ákvörðun sé að ræða að ráðstafa slíkri upphæð í verkefni á borð við þetta frekar en önnur. Að sögn Jóhanns verði þó með þessu verkefni margar flugur slegnar í einu höggi.
Ríkisstjórnin leggi áherslu á byggðajöfnuð, að jafna aðstöðumun fólks og fyrirtækja og treysta á stoðir hinna dreifðu byggða. Þá ætli ríkisstjórnin að auka framboð á orku, leggja áherslur á orkuöryggi og orkunýtni og ná árangri í orkuskiptum og loftslagsmálum.
Átakið Jarðhiti jafni leikinn þjóni öllum þeim markmiðum.
Samsvari raforkunotkun 50 þúsund rafbíla
Þá segir ráðherrann fjárfestinguna ábótasama og skynsamlega nýtingu á almannafé og teiknaði hann upp sviðsmynd sem, að mati sérfræðinga sem hafa unnið með ráðuneytinu að átakinu, sé raunhæf.
Segir Jóhann að ef t.d. myndi takast að losa um 20% af þeirri raforku sem nú er nýtt til rafhitunar heimila, stofnana og fyrirtækja sé það sambærilegt um 120 gígawattstundum af raforku.
Sé þá verið að losa um framboð á orkunni án fjárhagslega og umhverfislega kostnaðar sem fylgir nýrri virkjun.
Ef það er hugsað þá í samhengi við orkuskiptin þá samsvari 120 gígawattstundir raforkunotkun 50 þúsund rafbíla og ef þeir komi í staðinn fyrir bensínbíla minnkar losun í samgöngum um meira en 100 þúsund tonn af kolíoxíði á ári.
átta milljarða króna ávinningur
Þá segir ráðherrann að þegar fjárhagsþáttur og hagsmunir ríkissjóðs séu skoðaðir megi sjá að á þessu ári sé verið að verja rúmum 2,5 milljörðum króna í niðurgreiðslur húshitunar á rafhituðum svæðum. Samanber þar rúmlega 25 milljörðum króna síðastliðin tíu ár sé uppreiknað á verðlagi í janúar 2025.
Segir hann að ef helmingur af þeim 120 GWst væri niðurgreidd rafhitun sem myndi færast yfir í jarðvarma myndi niðurgreiðsluþörf ríkisins lækka um 540 milljónir króna á ári og skatttekjur ríkisins af raforkunni aukast um 300 milljónir.
Þá sé á tíu ára tímabili verið að tala um 8 milljarða ávinning fyrir ríkissjóð.
Á kynningunni tók einnig til máls Vilhjálmur Hilmarsson, stjórnarformaður Loftslags- og orkustofnunar, en stofnunin mun hafa umsjón með framkvæmd átaksins.
Þá tók Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannabæjar, til máls en hún er einnig formaður Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.