Samkvæmt tilkynningu hefur Samband íslenskra sveitarfélaga undirritað rammasamning við netöryggisfyrirtækið Syndis um veitingu á vöktunarþjónustu fyrirtækisins fyrir sveitarfélög landsins.
Með samningnum fá sveitarfélögin aðgang að sérhæfðri SOC (Security Operation Centre) og AFTRA (External Attack Surface Management) þjónustu. SOC þjónusta Syndis felur í sér sólarhringsvöktun á netumferð og tölvukerfum sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á upplýsingaöryggi.
„Við hjá Syndis leggjum mikla áherslu á að gera Ísland öruggara og bæta almennt netöryggi samfélagsins. Með þessum samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga tryggjum við öllum sveitarfélögum landsins greiðan aðgang að öflugum vörnum gegn tölvuárásum. Við leggjum sérstaka áherslu á að hafa SOC-þjónustuna okkar vaktaða allan sólarhringinn af sérfræðingum, enda er stöðug vöktun og hröð viðbrögð lykilatriði í því að verjast netógnum á skilvirkan hátt. Þetta samstarf er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð að styrkja stafrænar varnir landsins í heild sinni,“ segir Anton Egilsson, forstjóri Syndis.