fös. 14. mars 2025 06:30
Guðrún S. Sæmundsen ræddi um óvænta stefnumótareynslu sem fékk hana til að kynna sér fjölástir, í Skemmtilegri leiðinni heim.
Hætti við stefnumótið á síðustu stundu – en forvitnin var vakin

„Það er föstudagskvöld og ég ligg uppi í sófa, með kött í yfirþyngd mér á vinstri hönd, á meðan ég vafra um á Tinder.“

Svona hófst grípandi pistill blaðakonunnar og rithöfundarins Guðrúnar S. Sæmundsen á Smartlandi, sem vakti mikla athygli í lok febrúarmánaðar.

https://www.mbl.is/smartland/samskipti/2025/02/28/fjolast_eda_framhjahald/

Í pistlinum fjallaði hún um reynslu sína af því að kynnast myndarlegum manni sem virtist afar áhugaverður – þar til hún komst að því að hann væri giftur. Við nánari skoðun reyndust aðstæður þó flóknari en svo, því maðurinn var í því sem kallast Ethical Non-Monogamy (ENM), eða heiðarlegu fjölásta sambandi.

Dró vinnufélaga inn í vangavelturnar

Guðrún ræddi málið í Skemmtilegri leiðinni heim við þau Regínu Ósk, Ásgeir Pál og Jón Axel. Hún sagði þessa lífsreynslu hafa vakið hjá sér margar spurningar og hvatt hana til að kafa dýpra í þetta óhefðbundna sambandsform.

„Þetta olli ákveðnu – kannski ekki beint hugarangri – en ég velti þessu fyrir mér fram og til baka,“ sagði Guðrún. „Ég dró nokkrar úr vinnunni með mér í vangavelturnar, og það voru miklar pælingar um þetta tiltekna mál, fjölástir almennt, og hvort ég ætti yfirhöfuð að hitta manninn sem ég „matchaði“ við á Tinder.“

Hún útskýrði að í heiðarlegu fjölásta sambandi væru báðir aðilar í fullu samráði og hefðu komið sér saman um fyrirkomulagið. En hún spurði sig hvort hún gæti raunverulega treyst því að svo væri í þessu tilfelli – sérstaklega þar sem eiginkona mannsins var stödd í öðru landi.

„Annar vinkill er svo að þú ert í opnu sambandi en ert inni á Tinder að leita að sambandi eða fleiri elskhugum. Mér finnst það ótrúlega svona – er hann kynlífsfíkill?“ velti hún fyrir sér.

Hætti við á síðustu stundu

Þrátt fyrir forvitni sína ákvað Guðrún á endanum að sleppa því að hitta manninn.

„Það munaði svo litlu, sko, af því að ég er svo forvitin í eðli mínu,“ sagði hún. „En maður þarf alltaf að vega og meta. Á ég að eyða tíma í eitthvað sem ég veit að verður ekki neitt? Hvað fæ ég út úr þessu? Allt þetta. Þessar spurningar vakna. Ég þarf að eyða pening í barnapössun til þess að hitta hann. Það er ákveðinn fórnarkostnaður.“

Aðspurð hvort hún hefði verið forvitin um manninn sjálfan eða sambandsformið sagðist hún eingöngu hafa viljað vita meira—fyrst og fremst vegna forvitni.

„Því fleira fólk sem maður hittir og því ólíkari týpur sem maður kynnist á lífsleiðinni, því opnari verður maður sjálfur og umburðarlyndari fyrir ólíkum einstaklingum. Og svo er aldrei að vita nema maður hefði haft eitthvað mjög gott út úr þessu,“ sagði hún og uppskar hlátur í stúdíóinu.

Í kjölfar reynslunnar ákvað Guðrún að kynna sér fjölástir betur og tók hún því viðtal við við Valdimar Þór Svavarsson sem birtist á Smartlandi á dögunum. Hann rekur ráðgjafafyrirtækið Fyrsta skrefið ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Magnúsdóttur, og sérhæfa þau sig í ráðgjöf í tengslum við sambönd, meðvirkni og áfallavinnu.

https://www.mbl.is/smartland/samskipti/2025/03/08/thetta_er_malefni_sem_audvelt_er_ad_hneykslast_yfir/

Valdimar staðfesti að fjölástir væru svo sannarlega ekki nýtt fyrirbæri og að svona fyrirkomulag í samböndum hafi fylgt mannkyninu frá upphafi. 

 „Við erum alltaf að kanna hlutina en reynum að hafa þetta innan ákveðinna marka svo við séum ekki að skaða aðra eða okkur sjálf,“ sagði Guðrún sem bætti við að Napóleon Bonaparte, hafi að öllum líkindum verið fjölásta. 

Hún sagði að Valdimar hafi bent á að þótt umræðan hafi opnast meira á síðari árum, þýði það ekki endilega að fjölástir væru algengari nú en áður. 

„Við eigum það til að skilgreina allt í drasl í dag. Setja allt í kassa. Það þarf allt að vera svo skilgreint og útskýrt og svona. Þannig að þetta hefur alltaf verið til en í dag er til nafn yfir þetta. Það eru til ótal tegundir af fjölástarsamböndum og hvernig fyrirkomulagið er í sambandinu,“ sagði Guðrún

Í umræðunni rifjaðist einnig upp að síðan einkamal.is var mikið notuð löngu fyrir daga Tinder.

„Þar var víst alls konar í gangi,“ sagði Guðrún kímin.

Opnar fyrir frekari umfjöllun

Guðrún hyggst halda áfram að kafa dýpra í þetta viðfangsefni og kanna fleiri hliðar þess.

„Það eru einstaklingar þarna úti sem vilja koma í viðtal út af þessu. Það er aldrei að vita nema þau viðtöl detti inn,“ sagði hún að lokum.

 Þeir sem hafa áhuga ættu því að fylgjast vel með Smartlandi á næstunni.

Hér má hlusta á spjallið í heild sinni.  

 

 

til baka