Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr hvort sé betra fyrir fólk í sambúð, að vera samsköttuð eða ekki.
Sæll
Bara ein léttvæg spurning. Er betra eða verra að samskatta í sambúð?
Kveðja,
HK
Sæll
Virkilega áhugaverð spurning en þetta er einmitt það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég les viðtöl við fólk í fjölásta samböndum (polyamory), hvernig mögulegri samsköttun sé háttað hjá hópnum.
Til þess að fyrirbyggja mögulegan misskilning þá beinist þetta svar að samsköttun tveggja einstaklinga, hvorki fleiri né færri.
Aðilar sem deila sameiginlegu heimili eiga rétt á samsköttun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum hvað varðar upphaf skráningar eða ef viðkomandi eigi börn saman.
Samsköttun hefur til dæmis þann ágæta kost að sambúðaraðilar fullnýta persónuafslátt hvors annars, þar að auki ef mikill munur er á launafjárhæð sambúðaraðila þá nýtir hærra launaði sambúðaraðilinn hluta af ónýttu lægra skattþrepi lægra launaðs sambúðaraðilans án þess að það bitni á honum á nokkurn hátt. Á sama hátt eru skattfrelsismörk fjármagnstekna kr. 600.000 á sambúðaraðila, þannig að ef annar á arðberandi fjármagnseignir en hinn ekki þá nýtist þessi afsláttur að fullu á grundvelli þess að fjármagnstekjur samskattaðra eru skattlagðar sameiginlegar.
Hin hliðin á þessu er þegar annar aðilinn er skráður einstætt foreldri og þiggur einhverskonar félagslegar bætur, á kostnað okkar i hinna, meðan að hann er í raun að deila fjárhag sínum og heimili með „sambúðaraðila“ án þess að sú sambúð sé skráð. Slíkt fyrirkomulag er því miður ekkert annað en skattasniðganga.
Fjármagnstekjur eru alltaf sameiginlegar hjá hjónum og samsköttuðu fólki í óvígðri sambúð. Slíkt getur komið misjafnlega niður á fólki, t.d. þegar fólk byrjar sambúð á ójöfnum fjárhagslegum grunni og hefur raunverulega ekki sameiginlegan fjárhag. Dæmi um slíkt er ef annar sambúðaraðili er á framfæri Tryggingastofnunar eða þiggur atvinnuleysisbætur. Þá geta þær réttmætu bætur skerst ef hinn sambúðaraðilinn hefur fjármagnstekjur til dæmis húsaleigutekjur. Við þetta fellur niður réttur til bóta á grunni sameiginlegra fjármagnstekna sem eru það kannski ekki í raun.
Samskattaðir sambúðaraðilar bera ábyrgð á sköttun hvors annars á sambúðartíma. Því er það ekki endilega frábærasta hugmynd í heimi að samskatta sig með fjárhagslegu óreiðufólki. Ábyrgð á slíkri skuld sem myndast á sambúðartíma fellur ekki niður þrátt fyrir að sambúð sé slitið.
Eins og gefur að skila er þetta ekki tæmandi upptalning á kostum og göllum samsköttunar og er að ýmsu að hyggja áður en þessi ákvörðun er tekin.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.