Eitt frægasta nautasalat sem sögur fara af er salatið á veitingastaðnum Spírunni sem er til húsa á sama stað og Garðheimar við Álfabakka í neðra Breiðholti. Salatið þykir ómótstæðilega gott, létt og ferskt í maga.
Maðurinn á bak við Spíruna er Rúnar Gíslason matreiðslumeistari sem einnig á og rekur veisluþjónustuna Kokkana. Hann afhjúpar hér fyrir lesendum uppskriftina að nautasalatinu sem hefur heillað matargesti Spírunnar upp úr skónum undanfarin ár.
„Það er rétt að nautasalatið hefur verið einn af okkar vinsælustu réttum frá því að það kom á matseðil. Það hefur þessa blöndu af austurlensku bragði og að vera saðsamt en samt er léttleikinn í fyrirrúmi,“ segir Rúnar og bætir við að það hafi fjölmargir beðið um uppskriftina.
Spíran er þekkt fyrir sinn holla og girnilega hádegisverðarseðil og ekki síst fyrir helgarbrönsinn sem er hinn glæsilegasti og fólk getur sett saman sinn eigin disk aftur og aftur.
Elskaði salötin sem komu með matnum
„Hugmyndafræðin á bak við Spíruna kom þegar ég var mikið að borða á Gló hjá Sollu og Ella en var til í fá fjölbreyttara úrval af próteinum. Ég elskaði salötin sem komu með matnum en var líka til í lamb, naut eða fisk,“ segir Rúnar þegar hann er spurður um hugmyndafræðina á bak við veitingastaðinn Spíruna.
„Það sem ég vildi líka var að hafa ekki hveiti eða sykur í réttum dagsins en að hafa samt sæta bita til sölu ef mann langaði í smá sætt eftir matinn. Spíran datt upp í hendurnar á mér árið 2016 og hófst þá þróun á hugmyndafræðinni.
Þetta tók smátíma eins og allir góðir hlutir. Þegar við fluttum á nýjan stað var hægt að fullkomna hugmyndina með húsnæðinu sem við erum mjög ánægð með, bæði sem starfsaðstöðu fyrir fólkið okkar og gesti sem hafa verið mjög ánægðir með breytinguna.
Útisvæðið okkar var mjög vinsælt síðasta sumar þrátt fyrir erfitt tíðarfar og verðum við með meiri áherslu á létta rétti, kokteila og vín í sumar. Eins og ég segi alltaf langar mig að vera með heiðarlegan mat sem þýðir gott hráefni án aukaefna. Einföld eldun og þér líður vel á eftir,“ segir Rúnar að lokum glaður í bragði.
Nautasalatið hefur verið einn af vinsælustu réttum Spírunnar frá því að það kom á matseðil. Það hefur þessa blöndu af austurlenskum brögðum og að vera saðsamt en samt er léttleikinn í fyrirrúmi.
Nautasalat Spírunnar með austurlenskri dressingu
Fyrir 4
- 350 g eldað nautakjöt, skorið í mjög þunnar sneiðar
- Ferskt salat að eigin vali
- 16 kokteiltómatar, skornir í tvennt
- Jarðskokkaflögur
- Granateplafræ
- 150 g pikklaður rauðlaukur
- Austurlensk dressing, sjá uppskrift fyrir neðan
Aðferð:
- Byrjið á því að gera dressinguna.
- Skerið eldaða nautakjötsbitann í mjög þunnar og fallegar sneiðar.
- Skerið næst kokteiltómatana í tvennt.
- Veljið síðan disk undir salatið og byrjið að raða salatinu á diskinn, síðan nautakjötssneiðunum, kokteiltómötunum og dreifið svo jarðskokkaflögunum yfir ásamt granateplafræjunum og rauðlauknum.
- Berið síðan fram með austurlensku dressingunni.
Austurlensk dressing
- 100 ml hrísgrjónaedik
- 50 ml mirin
- 20 g miso-paste
- 10 gr sambal olek
- 15 g tahini
- 25 g ferskt rifið engifer
- 3 stk. hvítlauksgeirar
- 50 ml sesamolía
- 1 límóna, kreista safann úr henni
- 250 ml mild ólífuolía
- Sjávarsalt eftir smekk
Aðferð:
- Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið vel saman.