Lalit Patidar, 18 ára gamall Indverji, er samkvæmt heimsmetabók Guinness, með loðnasta andlit í heiminum. Á andliti hans eru um 201,72 hár á fersentímetra sem þýðir að meira en 95% af andliti hans er þakið hári.
Ástæðan fyrir útliti hans er afar sjaldgæft heilkenni sem kallast hypertrichosis, oft nefnt „varúlfsheilkenni“, sem veldur óvenju miklum hárvexti á líkamanum. Frá miðöldum til dagsins í dag hafa aðeins um 50 staðfest tilfelli af þessu heilkenni verið skráð um allan heim – sem gerir Lalit sannarlega einstakan.
Bekkjarfélagarnir skelkaðir í fyrstu
Vegna útlits síns hefur Lalit þurft að þola ýmislegt í gegnum tíðina, svo sem forvitnislegar augngotur og dónaleg ummæli frá ókunnugum. Þegar hann mætti í skólann í fyrsta sinn voru jafnvel samnemendur hans skelkaðir.
„Þeir voru hræddir við mig,“ segir Lalit í viðtali við Heimsmetabók Guinness.
„En þegar þeir fóru að kynnast mér og tala við mig, þá skildu þeir að ég var ekkert svo ólíkur þeim. Ég leit kannski öðruvísi út að utan, en að innan er ég eins og allir aðrir.“
Lalit hefur lært að fagna sérstöðu sinni og sýnir fylgjendum sínum daglegt líf sitt á YouTube-rás sinni.
Nýverið flaug hann til Mílanó á Ítalíu til að taka þátt í sjónvarpsþættinum Lo Show dei Record, þar sem hann fékk opinbera viðurkenningu fyrir heimsmetið sitt. Þar skoðaði sérfræðingur í hárvexti andlit Lalit og tók nákvæmar mælingar með því að raka parta af hárinu og reikna út fjölda hára á fersentímetra.
Þegar heimsmetið var staðfest sagði Lalit: „Ég er orðlaus. Ég veit ekki hvað ég á að segja – ég er svo glaður að fá þessa viðurkenningu.“
Hann bætti við að flestir sem hann hittir hafi sýnt honum hlýju og virðingu, þó að sumir séu vitanlega ekki eins vingjarnlegir.
Vill ekki fjarlægja andlitshárin
Þegar hann er spurður hvort hann hafi íhugað að fjarlægja andlitshár sín svarar hann: „Það er í raun lítið sem ég hef að segja við fólk um það. Ég vil bara koma því á framfæri að mér líkar við mig eins og ég er og vil ekki breyta því hvernig ég lít úr.“
Þrátt fyrir áskoranirnar er Lalit heppinn með að eiga kærleiksríka og styðjandi fjölskyldu og dreymir um að ferðast um heiminn og kynnast ólíkum menningarheimum.