Sólveig Eiríksdóttir, eða Solla eins og hún er oftast kölluð, flaug yfir þveran hnöttinn til að upplifa töfra Ástralíu og njóta góðra stunda með vinafólki sínu, leikstjóranum Baltasar Kormáki, sambýliskonu hans, myndlistarkonunni Sunnevu Ásu Weisshappel, og ungri dóttur þeirra, hinni sjö mánaða gömlu Kilju.
Baltasar, Sunneva Ása og Kilja hafa verið búsett í Ástralíu síðustu mánuði vegna kvikmyndaverkefnis, en Baltasar er um þessar mundir að leikstýra nýrri spennumynd, Apex, fyrir streymisveituna Netflix sem skartar stórstjörnunum Charlize Theron, Taron Egerton og Eric Bana í aðalhlutverkum.
Sólveig hefur gefið skemmtilega innsýn í ferðalagið á Instagram-síðu sinni og virðist vera að njóta alls þess besta sem Ástralía hefur upp á að bjóða, enda með góða leiðsögumenn.
Góðar vinkonur
Sólveig og Sunneva Ása hafa þekkst í dágóðan tíma. Þær tengdust sterkum vináttuböndum þegar sú fyrrnefnda fékk myndlistarkonuna, sem er einnig afar fær leikmyndahönnuður, til að endurhanna heimili sitt í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum síðan.
Í húsinu er margt skemmtilegt sem grípur augað, en eldhúsið, hjarta heimilisins, er einstakt og engu öðru líkt.