Lilja Sif Þorsteinsdóttir, sálfræðingur og eigandi Heilshugar, hefur sérhæft sig í áfallafræðum og aðstoðað einstaklinga með að koma tilfinningum sínum í réttan farveg. Ómeðhöndluð áföll foreldra segir hún geta erfst á milli kynslóða og valdið tilfinningalegum skaða. Sú kenning gengur undir hugtakinu millikynslóðasmit sem hvort tveggja heyrir undir erfðir og smitáhrif sem hljótast af óheilbrigðum aðstæðum og umhverfi.
„Það er hugtak sem kallast utangenaerfðir (e. epigenetics). Þú ert fædd með öll þín gen en það er það á hvaða genum kviknar og slokknar á sem hefur rosalega mikið með umhverfið þitt að gera. Þannig ef þú lendir í einhverri reynslu þá geta utangenaerfðir kveikt eða slökkt á einhverjum genum hjá þér og það getur síðan erfst til þinna afkomenda,“ útskýrir Lilja.
„Við höfum vitað af þessu í dýrum í heillangan tíma en nú eru komnar rannsóknir á þessu á fólki líka að svona áföll erfast kynslóð fram af kynslóð og það gerist ekki bara í genunum. Þetta getur til dæmis brotist út sem skapgerðareinkenni, innri órói eða ýmislegt svoleiðis.“
Sársaukafullt að pota í opin sár
Óunnin áföll geta valdið miklum sársauka og skaða, bæði líkamlega og tilfinningalega. Það er lífeðlislega ómögulegt að bæla niður erfiðar tilfinningar ævilangt svo ekkert beri á. Erfiðar og sárar tilfinningar munu í langflestum tilfellum brjóta sér leið fram á yfirborðið hvort sem það birtist líkamlega eða andlega.
Tilfinningalegum sársaukanum líkir Lilja við opið og blæðandi sár sem þarfnast aðhlynningar og umbúðaskipta.
„Svo er það ekki síður það að ef þú sem foreldri ert með opið sár og eitthvað sem getur „triggerað“ upp í þér eitthvað þá er svo erfitt að eiga við það. Af því þannig virka sár,“ lýsir hún.
„Ef þú myndir pota í öxlina á mér svona þá er það ekkert vont en ef ég væri með opið sár hérna þá væri það mjög vont ef það væri verið að pota í þetta. Ég ræð ekki við viðbrögðin, maður ræður ekki við sársaukaviðbrögðin,“ segir hún jafnframt og útskýrir þar með því ástandi sem fer af stað þegar talað er um svokallað millikynslóðasmit.
„Það er það sem um er að ræða líka þegar talað er um þessi millikynslóðasmit að ef að við erum með opin sár sem barnið eða umhverfið potar í þá ráðum við ekki við það að við förum upp í tilfinningatitring.“
Smelltu á spilarann hér að neðan til að nálgast viðtalið við Lilju í heild sinni.