Íþróttafræðingurinn Hildur María Leifsdóttir nýtir frítíma sinn iðulega í útlandaferðir og kom nýverið úr sjö vikna ferðalagi um Taíland. Hún fór með Jakobi, kærasta sínum og Línu Maríu, dóttur þeirra.
„Ég hef alla tíð verið með mikla ævintýraþrá og hef ferðast til yfir þrjátíu landa. Ég fór í Asíureisu beint eftir menntaskóla og árið 2017 flutti ég til Cayman-eyja í Karíbahafi og bjó þar í tæplega tvö ár sem var algjört ævintýri.
Ég hef einnig eytt góðum tíma á Filippseyjum og í Dóminíska Lýðveldinu, og ferðast þvert um Bandaríkin svo að eitthvað sé nefnt. Mér finnst ótrúlega gaman að koma til framandi landa, m.a. til að sjá nýja menningarheima og að vera í öðruvísi umhverfi. Fallegar strendur og hiti er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég reyni helst að fara ekki of oft til sama landsins, heldur kýs ég frekar að fara á nýja áfangastaði og upplifa eitthvað nýtt og víkka þannig sjóndeildarhringinn ásamt því að búa til einstakar minningar með þeim sem eru með í för.“
Hverjar eru skemmtilegustu ferðir sem þú hefur farið í?
„Þær eru nokkrar eftirminnilegar en Taílandsferðin með litlu fjölskyldunni minni verður alltaf ofarlega í huga. Aðrar góðar ferðir eru til að mynda Evrópuflakk með fjölskyldunni minni og fjölskyldu mágs míns, sumarið 2023. Við byrjuðum ferðalagið í Lundúnum en systir mín var að útskrifast úr námi, þaðan fórum við til Póllands og svo lá leiðin til Slóvakíu þar sem mágur minn var að útskrifast úr læknisfræði. Þar á eftir fórum við öll saman til Ungverjalands og í lokin fórum við Jakob tvö saman til Króatíu, sem var algjör paradís,“ segir hún.
„Sú ferð sem er líklega hvað eftirminnilegust er fyrsta ferðin mín til Cayman-eyja, þangað fór ég upprunalega til þess að fara að hitta vinkonur mínar sem ég kynntist í Miss Universe, en ég tók þátt í Miss Universe á Filippseyjum árið 2017.
Við hittumst á Cayman-eyjum til þess að taka þátt í árlegu karnivali og get ég sagt að sá dagur er einn sá skemmtilegasti sem ég man eftir og þetta var svo frábrugðið öllu sem ég hafði upplifað. Þetta varð þess valdandi að ég frestaði fluginu mínu heim til Íslands, réð mig í vinnu og settist þar að í tvö ár.“
„Síðan má ég til með að nefna afmælisferð mömmu með fjölskyldunni til Máritíus fyrir nokkrum árum en það er lítil eyja í Afríku og þvílíkt ævintýri sem það var að koma þangað. Þar eru ótrúlega fallegar strendur og miklir skógar sem við skoðuðum í langri zip-line ferð.“
Hildur María nýtti hluta af tíma sínum í fæðingarlofi til þess að fara í Taílandsferðina með fjölskyldunni sinni. Þau stoppuðu svo við í Malasíu á leiðinni heim.
„Ég hafði áður komið til Taílands og fannst það æðislegt og Jakobi hafði lengi langað að fara þangað. Snemma árs 2024 byrjuðum við að ræða um möguleikann á að fara einhvern tímann á meðan við værum í orlofi, en við festum í rauninni aldrei neitt fyrr en rétt fyrir brottför í lok árs og var Lína þá orðin níu mánaða. Við keyptum þá einfaldlega bara flugið út og hótel í eina viku og ætluðum svo að láta það ráðast hvert við færum og hvað við yrðum lengi. Við fórum til þriggja borga, Bangkok, Pattaya og Hua Hin og til eyjunnar Koh Samui.“
Hvernig fannst ykkur best að finna gistingu fyrir þessa ferð?
„Við notuðum Booking-síðuna mjög mikið til að finna hótel og notuðum aðra síðu sem heitir Agoda sem var með alls kyns tilboð á síðustu stundu. Sú síða var sniðug fyrir okkur í þessari ferð vegna þess að við bókuðum flestar gistingar með litlum sem engum fyrirvara, í einhverjum tilfellum daginn áður en við mættum og stundum jafnvel samdægurs. Þegar við komum til Taílands átti rigningartímabilið að vera nýbúið en við vorum mjög óheppin með veður, því að á þessum tíma var fellibylur að ganga yfir suðausturhluta Asíu. Það var því mikil rigning og vindur meirihlutann af ferðinni og í rauninni breyttust þau plön sem við höfðum upprunalega gert. Eins og sannir Íslendingar reyndum við því að elta góða veðrið og vorum við þá ánægð með að hafa ekki bókað alla gistingu og ferðalög fyrir fram, sem við hefðum þá verið meira bundin við.“
Hótel hremmingar
„Við áttuðum okkur fljótt á því að í Taílandi eru hótelin oft mikið flottari á vefsíðum heldur en þau eru í raun og veru. Þegar við vorum stödd á Koh Samui þá langaði okkur að prófa að fara á annað hótel, á öðru svæði, og ákváðum þá að taka einfaldlega heilan dag og fara um eyjuna og skoða hótelin. Þá vissum við að hverju við gengum nokkrum dögum síðar. En þegar við vorum að færa okkur frá Koh Samui til Hua Hin þá gátum við einungis skoðað hótelið á netinu, eins og yfirleitt er, en það leit hrikalega vel út á síðunni og átti að vera fallegt fimm stjörnu hótel í taílenskum stíl við ströndina.
Eftir langt ferðalag mættum við loks á svæðið að nóttu til og sáum strax að þetta var hræðilegt hótel í algjörri niðurníðslu. Hótelið hafði þá auglýst sig sem lúxushótel með einkaströnd en það var til að mynda engin strönd og hafði ekki verið í mörg ár. Þau voru því að nota gamlar myndir á bókunarsíðunni sem voru teknar þegar hótelið var í betra standi. Við höfðum bókað gistingu þarna í viku en við fengum nóg eftir þrjár nætur og tékkuðum okkur út. Sem betur fer fundum við nýtt, frábært hótel þar sem við vörðum síðustu tíu dögunum okkar í Taílandi.“
Hvernig gekk ferðalagið með lítið barn?
„Þegar ég horfi til baka þá gekk það ótrúlega vel. Við vorum örlítið stressuð að fara í fyrstu flugin út þar sem við vorum að fara í fyrsta sinn með lítið barn í flug og vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast. Það var lítið sofið í flugunum en Línu Maríu leið vel, sem skipti mestu máli, og allt gekk áfallalaust fyrir sig. Við fórum samtals í sjö flug og það kom mér á óvart hvað allir voru yndislegir í kringum okkur og sýndu mikla þolinmæði. Það er auðvitað alltaf krefjandi að vera með lítið barn í flugvél og vitanlega var stundum grátur og fann maður sig knúinn til að standa eða labba um flugvélina með hana. Það var samt merkilegt hve oft einhverjir samferðamenn fóru að spjalla við Línu eða leika við hana þegar hún var lítil í sér sem létti lífið töluvert hjá þreyttum foreldrum hennar.“
„Að bíða með að bóka flugið heim fannst okkur þó rökrétt vegna Línu litlu, en við vissum ekki fyrirfram hvort að allt myndi ganga upp eða hvort við myndum mögulega vilja koma heim fyrr. En allt gekk að óskum og við enduðum því á að vera á ferðalagi allan þann tíma sem við ætluðum okkur. Planið var alltaf að koma heim rétt fyrir jól til að geta eytt þeim með fjölskyldum okkar þar sem þetta voru fyrstu jólin hennar Línu Maríu.“
Hvernig var ykkar upplifun af þessum áfangastöðum í Taílandi?
„Veðrið hafði mikil áhrif á ferðina, vegna þess að það rigndi frekar lengi, við eltum veðrið frekar en að fara á þá staði sem okkur langaði fyrir fram kannski mest að heimsækja. Við vorum í frábæru veðri í Pattaya og Hua Hin og eigum því yndislegar minningar þaðan með Línu, sem naut sín svo vel í sundlauginni og úti í garðinum, en staðirnir sjálfir voru kannski ekki ofarlega á lista hjá okkur þegar við komum út. Pattaya er mikill djammstaður en við vorum á stóru og frábæru hóteli sem bauð upp á allt sem við þurftum, svo að við eyddum mestum tíma þar, á hótelinu í okkar búbblu sem ég sé alls ekki eftir.
Koh Samui er frábær eyja og mæli ég með því að fara þangað fyrir þá sem eru að fara til Taílands og ég myndi klárlega vilja koma þangað aftur. Það rigndi því miður meirihlutann af dvöl okkar þar en eyjan var samt sem áður uppáhalds áfangastaðurinn okkar í ferðinni, og við gerðum margt eftirminnilegt þar. Okkur fannst Bangkok mjög yfirþyrmandi með lítið barn og frekar erfitt að ferðast þar með barnavagni, en það er lítið um gangstéttir í borginni. Við vorum því mjög spennt að komast þaðan yfir í rólegra umhverfi. Taíland er frábært land til að koma til, þar sem hver áfangastaður er svo ólíkur þeim næsta. Okkur langaði að fara á fleiri eyjar og vera sunnar í landinu og væri það klárlega eitthvað sem við myndum gera ef við færum aftur.“
Langar þig að ferðast meira með fjölskyldunni þinni?
„Við eigum bókaða ferð til Frakklands í sumar með foreldrum mínum og systkinum sem við erum afar spennt fyrir. Okkur langar mikið að fara saman til Cayman-eyja þar sem það er staður sem mér mun alltaf þykja afar vænt um og ég á dýrmæta vini þar. Ég er mjög spennt fyrir því að kynna fjölskyldu mína fyrir þeim. Svo er líka mjög ofarlega á listanum að fara í skíðaferð í alpana með vinum en við Jakob erum bæði á snjóbrettum og finnst okkur fátt skemmtilegra en að fara í slíkar ferðir. Þá er einnig hugmynd um að fara til Japans á árinu, en bróðir Jakobs er að fara í skiptinám þangað og er því freistandi að fara og heimsækja hann. Það er því um nóg að velja. Annars ætlum við að reyna vera dugleg að fara í skemmtilegar ferðir með litlu stelpunni okkar og erum við full tilhlökkunar fyrir lífinu með henni,“ segir Hildur María að lokum.