fim. 13. mars 2025 06:30
Aaron Warren fagnaði „gullna afmælisdeginum“ sínum með blöðrum, húmor og humarsúpu.
Lifði 24 árum lengur en spáð var – og fagnaði með húmor og humarsúpu

Aaron Warren frá Tennessee í Bandaríkjunum er lifandi sönnun þess að jákvæðni og seigla geta brotið niður hindranir. Hann fæddist með Spinal Muscular Atrophy (SMA), og læknar töldu ólíklegt að hann myndi lifa lengur en til þriggja ára. En þann 27. febrúar síðastliðinn, 27 árum síðar, sannaði hann hið gagnstæða með einstökum lífsanda sínum.

Til að fagna þessum merka áfanga, sem hann kallar „gullinn afmælisdag“ (27 ára á 27. degi mánaðarins), deildi Aaron mynd þar sem hann stillti sér upp við stórar blöðrur merktar Disabled AF – orðaleikur sem endurspeglar jákvæða afstöðu hans til lífsins.

„Ég hef lifað 24 árum lengur en mér var spáð!“ skrifaði Aaron og bætti við: „Ef ég þyrfti að lýsa deginum í einu orði, væri það þakklæti.“

Hann þakkaði fjölskyldu sinni, vinum, samstarfsfólki – og jafnvel hjólastólnum sínum, sem hann segir að beri sig „á herðum sér“.

„Nú ætla ég að fagna með humarsúpu,“ sagði hann og bætti við: „Og ef þið sjáið margarítu á hjólastólnum mínum … þá sáuð þið það ekki.“

Nánast ómögulegt að ganga í flottum skóm áður fyrr

Aaron er þó ekki aðeins þekktur fyrir jákvætt hugarfar – hann er einnig frumkvöðull sem vinnur að því að bæta aðgengi í tískuiðnaðinum.

Hann stofnaði „Zipped Brands“, fyrirtæki sem sérhæfir sig í að breyta vinsælum merkjaskóm með því að bæta við rennilásum, svo fólk af öllum getustigum geti auðveldlega farið í þá.

„Vegna fötlunar minnar og boginna táa var nær ómögulegt fyrir mig að ganga í skóm – sérstaklega þeim sem mér fannst flottir,“ útskýrði Aaron. „Ég var búinn að sætta mig við að flottir skór væru ekki fyrir mig.“

View this post on Instagram

A post shared by A-a-ron (@aaronwarrenn)

 

Svo fékk hann hugmynd: Hvað ef hægt væri að bæta rennilásum á eftirlætisskóna?

Það sem hófst sem lausn á hans eigin vandamáli varð fljótt að fyrirtæki sem tryggir að fleiri hafi aðgengi að þægilegum og flottum skóm.

View this post on Instagram

A post shared by A-a-ron (@aaronwarrenn)

 

Saga Aarons sýnir að það má alltaf finna lausnir – ef maður hugsar út fyrir boxið.

Hér má sjá afmælisfærslu Aarons:

 



 

 

 

til baka