sun. 16. mars 2025 22:00
Margar ástæður geta legið að baki kynlífsleysi.
Þetta segja taugasálfræðingar um kynlíf

Hvað segja taugasálfræðingar um mikilvægi kynlífs? Tímaritið Stylist.co.uk fór í saumana á því sem kemur marga við.

 

Því meira kynlíf því betra

Svo virðist sem löngunin eftir kynlífi aukist eftir því sem maður stundar oftar kynlíf. Þetta er vegna dópamín losunar heilans sem á sér stað þegar maður á von á kynlífi og á meðan því stendur. 

„Taugalífeðlisfræðin er afar flókin þegar kemur að kynlífi og almennri kynhvöt og tekur til ýmissa heilasvæða, jafnvel mænunnar,“ segir Faye Begeti, taugalæknir og vísindamaður. 

„Þegar við gerum eitthvað sem veitir okkur einhvers konar ánægju þá losnar um vellíðunarhormón og það styrkir okkur í því að vilja endurtaka upplifunina. Þetta nær ekki aðeins til kynhegðunar heldur upplifum við þetta einnig þegar við borðum eða horfum á góða bíómynd.“

„Reglulegt kynlíf getur einnig skilað sér í betra kynlífi hvað gæði varðar. Þannig að þegar við stundum kynlíf, ein eða með öðrum, þá styrkjum við betur sambandið á milli kynfæra og heilans. Því oftar, því sterkari verða tengingarnar. Þannig gæti kynhvötin orðið sterkari og með tíma verður auðveldara að fá betri og sterkari fullnægingu.“

Reglulegt kynlíf gott fyrir heilsuna

„Vellíðunarhormónin fá mann til þess að líða betur eftir kynlíf og slík nánd getur einnig brúað bil milli tveggja einstaklinga sem eru að kljást við erfiðleika í sambandinu. Þá eiga margir auðveldara að sofna eftir kynlíf. Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur reglulegt kynlíf stuðlað að almennu heilbrigði, minnkað kvíða og eflt andlega heilsu til langs tíma litið.“

„En allar þessar jákvæðu hliðar kynlífs hverfa um leið og kynlífið er orðið að kvöð eða er streituvaldandi á einhvern hátt. Kynlífið verður að þjóna okkur til góðs.“

Því meira því betra?

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl bættrar heilavirkni og tíðni kynlífs. Konur á aldrinum 18-29 ára stóðu sig betur á prófum ef þær stunduðu reglulega kynlíf samanborið við þær sem gerðu það ekki. Rannsóknir á karlkyns rottum sýndu það sama, þær rottur sem stunduðu kynlíf daglega sýndu meiri taugavirkni en þær sem stunduðu kynlíf einu sinni á meðan á rannsókninni stóð.

Sérfræðingarnir benda þó á lágt alhæfingargildi slíkra rannsókna og að margir aðrir þættir eiga hlut að máli. Aldur, menntun og samfélagsleg staða einstaklinga hefur oftast mun meiri áhrif á andlega virkni fólks. Svo getur það verið að þeir sem stunda reglulegt kynlíf eru einfaldlega bara í betra formi og almennt virkari en þeir sem gera það ekki. 

Hvaða áhrif hefur kynlífsþurrð?

„Flestir upplifa tímabil af litlu kynlífi einhvern tímann á ævinni. Aðstæður í lífinu geta orðið til þess. En fyrst reglulegt kynlíf er gott fyrir heilsuna, er þá lítið kynlíf skaðlegt?“

"Það getur verið erfitt fyrir þá sem vilja stunda kynlíf en geta það ekki. Minningin um gott kynlíf er þeim ljós og upplifa ákveðna sorg yfir missinum. Það getur í vissum tilfellum valdið þunglyndi. 

Svo eru aðrir einfaldlega með minni kynhvöt t.d. vegna breytingaskeiðs eða barneigna. Þeir ættu ekki að hafa áhyggjur heldur einfaldlega leita ráða til sérfræðinga. Stundum er hægt að bregðast við með einföldum úrræðum."

„Það þarf að skoða upptök kynlífsþurrðarinnar. Sumir vilja sneiða hjá kynlífi til þess að vinna í sjálfu sér. Svo eru aðrir sem finnst að kynlífið ætti að vera mun oftar en það er til dæmis fólk í samböndum þar sem gagnkvæm löngun er ekki lengur til staðar. Ef aukin tíðni kynlífs leiðir til meiri kynlífslöngunar þá getur minni tíðni leitt til minni löngunar. Þetta er ákveðinn vítahringur sem skapast og getur verið erfitt að ráða bót á og mikil hætta er á að pör festist í þessu mynstri. Þá er gott að leita sér hjálpar kynlífsfræðings.“

 

til baka