Halldór Kr. Sigurðsson hefur leiðbeint fólki við að búa til konfekt, kransakökur og páskaegg í liðlega 30 ár. Kransakökur eru ættaðar frá Danmörku en þar lærði hann listina að baka þær.
Halldór er menntaður bakari og konditor frá Kransakökuhúsinu í Kaupmannahöfn. Hann hefur nýtt reynsluna frá námsárunum og heldur námskeið fyrir fólk sem langar að læra að listina að baka kransakökur.
Segðu okkur aðeins frá ástríðu þinni í kransakökugerð, hvenær gerðir þú þína fyrstu kransaköku?
„Það hefur verið í kringum árið 1992 þegar ég var að læra að verða bakari. Ég var heppinn að komast að sem lærlingur hjá Kransakökuhúsinu í Kaupmannahöfn en þar var framleitt mikið af kransakökuhornum, kransakökutoppum og ýmsum smástykkjum úr kransakökumassa. Ástríðan kemur í raun út frá því að persónulega finnst mér
kransakaka alveg svakalega góð og einnig finnst mér formið á kökunni fallegt, hún er hálfgerður skúlptúr.“
Eru kransakökur enn vinsælar í fermingarveislum landsmanna?
„Já, þær eru mjög vinsælar í dag. Oftar en ekki er hefð innan fjölskyldna að bjóða upp á
kransakökur í fermingarveislum,“ segir Halldór og bætir við að hver og einn geti síðan gert sitt eigið þema í kransakökugerðinni. „Til að mynda fylgt þemanu sem er í veislunni.“
Kransakökuhefðin kemur frá Danmörku
Hvaðan kemur hefðin?
„Hún kemur frá Danmörku og á sér langa sögu þar. Kransakökur eru ekki bara vinsælar fyrir fermingarveislur heldur einnig í útskriftarveislum og við hátíðleg tilefni eins og áramót svo fátt eitt sé nefnt. Þá er vinsælt að bjóða upp á kransakökukonfekt eða toppa í alls konar veislum og viðburðum.“
Hver er galdurinn á bak við kransakökugerð?
„Að búa til deig úr réttum hráefnum. Einnig að hafa réttan stífleika á deiginu, þ.e. að hafa ekki of mikið af eggjahvítu í deiginu, ásamt því að baka kökuna rétt. Þegar búið er að forma kökuna er baksturinn lykilatriði, að hún nái smá skel en verði djúsí að innan.“
Ertu til í að fara yfir ferlið og hvað er mikilvægt að hafa í huga í þessari vegferð?
„Þegar þú ert komin með kransakökudeig er því deilt niður og búnar til lengjur, sem eru eins og pylsa á þykkt. Fyrsta lengja er 8 cm og svo er bætt 3 cm við hverja lengu, þ.e. 8 cm, 11 cm, 14 cm og koll af kolli.
Þessar lengjur eru mótaðar í hringi og efsta brúnin á hringjunum er „klöppuð létt til“ þannig að auðveldara sé að raða henni saman eftir bakstur. Hringirnir eru bakaðir í um það bil 10-14 mínútur á 175°C hita á blæstri. Ef kakan er sett á tvær plötur þarf að snúa þeim við í miðjum bakstri. En auðveldast er náttúrulega að koma á námskeið til mín til að læra réttu handtökin,“ segir Halldór sposkur á svip.
„Hægt er að frysta bökuðu hringina í allt að sex mánuði. Þegar þeir eru teknir úr frysti er vert að geyma þá yfir nótt á borði, ekki í plasti eða neinu sem hylur hringina.
Þegar komið er að því að setja kökuna saman er gott að máta hringina saman, raða þeim þannig að kakan verði ekki skökk. Því næst er búinn til glassúr, sem er í raun bara flórsykur og eggjahvíta, og hafist handa við að sprauta kökuna hring eftir hring með fínlegum línum og henni raðað saman í turn.“
Ljúffengur biti úr kransaköku og súkkulaðitrifle
Nú er líka hægt að gera alls kyns kransakökubita og margir vilja hafa þá litla í dag, ekki of stóra. Ertu með einhverjar tillögur að nýjungum?
„Hver og einn hefur sinn háttinn á, hvort sem bitarnir eru sprautaðir eða búnir eru til bitar eða jafnvel kúlur. Bitana er hægt að skreyta með bræddu súkkulaði sem dreift er yfir í þunnum línum. Það er kallað að drissa yfir með súkkulaði. Varðandi nýjungar er hægt að búa til trifle-kransakökukonfekt sem er ljúffengur biti úr kransaköku og súkkulaðitrifle.“
Hvað er vinsælast að gera í dag þegar kemur að skreytingum?
„Oft og tíðum er litaþema í veislunum, þá er stundum matarlitur settur í glassúrinn í takt við litaþemað. Ég hef séð ýmsar útgáfur, til að mynda þar sem Star Wars-fígúra var sett sem toppur ofan á kökuna. Fólk er að skreyta kökurnar á ýmsan hátt. Það sem ég hef gert undanfarið er að bræða sykur og festa innpakkað uppáhaldsnammið mitt á kökuna, til dæmis eins og Freyjukonfekt.“
Er verið að skreyta með lifandi blómum, marsipanskrauti, sælgæti, súkkulaði eða öðru?
„Já, það er ekkert óalgengt en ef verið er að nota lifandi blóm er gott að pakka stilknum inn í álpappír áður en honum er stungið í kökuna. Einnig er vert að hafa í huga að vera með ætisblóm, blóm sem má borða en það gæti verið fallegt á toppnum á kökunni. Það er mjög algengt að skreyta kökuna með sælgæti og þá er best ef það er innpakkað og fest með sykurbráð á kökuna.“
Gott er að skreyta kökuna 1-2 dögum fyrir veisluna
Eru einhver góð ráð sem þú vilt gefa fólki fyrir fermingarundirbúninginn?
„Ef það á að bjóða upp á kransaköku er gott að skreyta hana 1-2 dögum áður en veislan er haldin. Svo er lykilatriði að stressa sig ekki um of og njóta samverunnar,“ segir Halldór og bætir við að fermingarbarnið geti meira segja gert sína eigin kransaköku.
„Ég mæli eindregið með að fermingarbarnið komi með á námskeiðið og eigi þar með þátt í að baka sína eigin kransaköku en ég verð til að mynda með kransakökunámskeið í Blómavali 13. mars næstkomandi,“ segir Halldór að lokum og er farinn að hlakka til að kenna tilvonandi fermingarbörnum rétta handbragðið þegar kransaköku skal gjöra.