lau. 22. mars 2025 13:00
Fermingarveisla Helga verður haldin heima hjá honum.
Tilfinningin að fermast er geggjuð

„Guð er alltaf hjá þér,“ segir Helgi Þór Atlason um þann lærdóm sem hann tekur með sér út í lífið úr fermingarfræðslunni. Helgi er þrettán ára og fermist í Kópavogskirkju 13. apríl. Undirbúningurinn fyrir stóra daginn hefur gengið vel og ætlar frænka hans að baka Rice Kristpies-fermingarköku fyrir veisluna. Það lét aldrei neinn vafi á því að Helgi vildi kirkjulega fermingu og segir hann tilfinninguna við að fermast vera geggjaða. 

Helgi Þór Atlason fermist 13. apríl í Kópavogskirkju. Hann segir það aldrei hafa verið neitt vafamál að fermast í kirkju. Eldri bróðir hans fermdist einnig kirkjulega og sjálfur segist Helgi hafa iðkað trúna m.a. með bænum.

„Mér finnst það [að fermast] bara geggjað.“

Helgi er þrettán ára og verður fjórtán í ágúst. Hann er nemandi í Kársnesskóla í Kópavogi og æfir knattspyrnu með Breiðabliki fjórum sinnum í viku.

Kirkjuorgelið flottast

Líkt og önnur börn í fermingarárganginum hefur Helgi verið í fermingarfræðslu síðan í haust og í vetur. Spurður um fræðsluna segir hann hana hafa verið mjög skemmtilega. Það mikilvægasta sem hann tekur með sér úr fræðslunni er betri þekking á Guði og Jesú, líkt og hann orðar það, en ekkert hafi þó komið honum á óvart í þeim efnum.

Það sem stóð upp úr þessu öllu saman var dagsferðin í Skálholt þar sem krakkarnir fengu að njóta þess ganga um staðinn og fá innsýn í mannlíf og persónur sem áður voru þar.

Í Skálholtsdómkirkju stendur altari Brynjólfs Sveinssonar biskups sem var smíðað árið 1673.

Þar eru einnig fleiri gersemar eins og ljósakrónan sem einnig er sögð ljósahjálmur Brynjólfs Sveinssonar og predikunarstóllinn, en þar hafa ófáir prestar staðið, m.a. hinn mikli predikari Jón Vídalín biskup.

Helgi segir þó kirkjuorgelið hafa verið langflottast og eitthvað sem stóð upp úr í ferðinni en orgelið er staðsett innarlega í kirkjunni, á hægri hönd þegar gengið er inn. Magnþrunginn ómur orgelsins hefur eflaust höfðað vel til Helga þar sem hann er sjálfur nýfarinn að læra á píanó, ásláttarhljóðfæri sambærilegu orgelinu.

 

Athöfnin sjálf eitt það mikilvægasta

Undirbúningurinn fyrir stóra daginn hefur gengið vel að sögn Helga. Veislan verður haldin fyrir nánustu fjölskyldu á fermingardaginn sjálfan, á heimili hans, og reiknar hann með 50-60 gestum. Litaþemað í veislunni verður gult og hvítt og súkkulaðigosbrunnurinn á eflaust eftir að vekja mikla lukku meðal gesta.

Spurður um veitingar segir Helgi að það verði pantaðir smáréttir og bakaðar kökur, en frænka hans gerir sér lítið fyrir og bakar Rice Krispies-fermingarköku.

„Ég er búinn að velja fermingarfötin og ætla að vera í jakkafötum úr Jack & Jones, með bindi og í strigaskóm við.“ Helgi bætir því við að flestir vina sinna ætli að kaupa fermingarfötin í Jack & Jones.

„Svo fer ég í klippingu.“

Helgi hefur ágætishugmynd um hvað hann langar í í fermingargjöf og segir peninga, úr og jafnvel tölvu efst á óskalistanum.

Hvað finnst þér mikilvægast við daginn sjálfan?

„Athöfnin í kirkjunni og svo þessi tími sem ég fæ að hitta nánustu fjölskyldu.“

Þegar þú ert búinn að fermast heldurðu að þú takir einhvern lærdóm með þér út í lífið?

„Já, Guð er alltaf með þér.“

til baka