sun. 16. mars 2025 13:00
Þórey fermist í Lindakirkju í Kópavogi og er spennt fyrir deginum.
„Ég mun alltaf hafa grunngildin í huga“

Þórey María Einarsdóttir, 13 ára nemandi í grunnskólanum NÚ í Hafnarfirði og ballerína, segir fermingarfræðsluna hafa komið sér ansi skemmtilega á óvart og að hún kenni
fermingarbörnum hvernig eigi að vera góðar manneskjur. Þórey er spennt fyrir þessum
stóra áfanga í lífi sínu og er undirbúningur í fullum gangi fyrir veisluna sem haldin verður
á heimili hennar í Kópavogi. Það sem er þó mikilvægast á fermingardaginn, í huga Þóreyjar, er að hafa gaman með fjölskyldu og vinum.

Hin 13 ára gamla Þórey María Einarsdóttir stundar nám í 8. bekk við grunnskólann NÚ í Hafnarfirði, skóla sem er ætlaður unglingum í 8.-10. bekk og með áherslu á íþróttir. „Það eru aðallega krakkar í afreksíþróttum í þessum skóla. Þar eru aðeins öðruvísi áherslur, t.d. í staðinn fyrir að taka eitthvert hefðbundið valfag þá erum við í íþróttavísindum þar sem er lögð áhersla á markmiðasetningu, næringarfræði, svefn og hugarfar.“

Sjálf er Þórey ballerína, hún hefur æft ballett frá tveggja ára aldri og stundar æfingar í dag við Listdansskóla Íslands, sex til sjö daga vikunnar. Hún svarar glöð í bragði þegar hringt er í hana til að spjalla um stóra daginn, fermingardaginn sjálfan, en hennar dagur er á pálmasunnudag, 13. apríl.

 

Fermingarfræðslan kom á óvart

Það vafðist aldrei fyrir Þóreyju að fermast í kirkju. „Mér fannst það sjálfsagt. Ég vildi halda upp á trúna og viðhalda góðum gildum.“

Hún fermist í Lindakirkju í Kópavogi, í því sveitarfélagi þar sem hún er búsett. Spurð út í fermingarfræðsluna segir Þórey: „Hún kom mér rosalega mikið á óvart, hvað hún er skemmtileg og lífleg og hvað hún kennir góð gildi fyrir lífið.“ Henni finnst fræðslan einfaldlega kenna krökkum hvernig eigi að vera góð manneskja.

Var eitthvað sem þú lærðir sem þú hafðir ekki hugmynd um?

„Nei, ekki beint en mér fannst ég læra mikið af lífsreynslusögunum sem prestarnir hafa sagt okkur. Eftir að ég heyrði þessar sögur er ég meðvitaðri úti í daglega lífinu.“

Þórey hefur stundað fermingarfræðsluna samviskusamlega og spurð út í ritningarversið er hún fljót til svars: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum,“ segir hún og bætir við að þetta sé sálmur 119, vers 105.

 

Ballettþema í veislunni

Fermingarundirbúningurinn er kominn á fullt og að nógu er að huga. Þórey segist ætla að halda veisluna heima hjá sér í Kópavogi en þangað verður nánustu fjölskyldu og vinum boðið. „Ég er ekki alveg komin með töluna á fjöldanum en þetta verður frekar lítil veisla myndi ég segja.“

En minni veisla er ekki samnefnari fyrir minna fjör, enda nokkuð ljóst á samtalinu að það á eftir að verða mikið stuð heima hjá Þóreyju á fermingardaginn. „Við verðum með sælgætis-, snakk- og poppbar, þar sem hægt er að setja góðgætið í sellófanpoka með límmiðum merktum nafninu mínu og fermingardeginum.“ Að auki verður partítjald í garðinum en þar segir Þórey að verði kandífloss- og krapvél og einnig myndakassi, svo að gestir geta tekið myndir af sér í bullandi stemningu. „Það verður sko stuð þar!“

Og hverju fleiru hefurðu hugað að fyrir stóra daginn?

„Ég hef verið að undirbúa veitingar og hvaða þema ég vildi hafa. Ég hannaði líka boðskort.“ Þórey segir að veitingarnar verði aðkeyptar og að það verði smáréttahlaðborð með pinnamat og snittum.

Það segir sig kannski sjálft að í veislunni verði ballettþema, með bleikum, hvítum og silfruðum litum og skrauti. „Svo ætla ég að hafa táskó og hvít blóm á borðinu.“ Þá verður hvít slaufukaka með vanillubragði frá Sætum syndum í eftirrétt.

Framtíðin björt

Þórey keypti fermingarkjólinn í Gallerí sautján. „Þetta er hvítur stuttur kjóll skreyttur blúndum að ofan. Svo keypti ég hvíta hælaskó í GS skóm og einnig hvíta strigaskó til að hvíla fæturna inni á milli.“

Spurð segir hún ekkert eitt ákveðið í fermingartískunni sem jafnöldrur hennar kaupi sér og að mikil fjölbreytni sé í vali á kjólum sem ýmist séu í lit eða hvítir, þó bætir hún við að flestar vinkonur hennar hafi keypt fermingarfötin í Gallerí sautján.

Þegar búið er að fara yfir klæðnaðinn liggur beinast við að spyrja um hár og förðun. Þórey segist munu fara í greiðslu á hárgreiðslustofu og ætlar að hafa hluta hársins uppsettan í fléttum og restin af hárinu leiki laus í stórum krullum.

„Ég keypti fermingarskartið í Kaupmannahöfn þegar ég var þar í ballettferð í febrúar sl. en skartið er silfureyrnalokkar og hringar frá Pilgrim. Svo ætla ég sjálf að gera létta förðun heima.“

Hvað finnst þér skipta mestu máli á fermingardaginn?

„Að hafa gaman með fjölskyldu og vinum.“

En þá er stóra spurningin hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Mig langar aðallega í peninga til þess að komast í ballettferðir til útlanda en svo finnst mér líka gaman að fá flotta skartgripi og svoleiðis,“ svarar Þórey. Hún á sér einmitt stóran framtíðardraum um að verða atvinnuballettdansari. „Ég myndi vilja fara í virtan ballettskóla erlendis,“ og nefnir Þórey The Royal Danish Ballet í Kaupmannahöfn.

„Ég hef alltaf haft þolinmæðina í ballettinn og hef mikla ástríðu fyrir dansinum,“ segir Þórey og er hún viss um að lærdómur fermingarfræðslunnar fylgi sér út í lífið. „Ég mun alltaf hafa grunngildin í huga,“ bætir hún við að lokum.

til baka