sun. 23. mars 2025 13:00
Hér er mynd úr fermingarmyndatöku hjá Hörpu Hrund.
„Ég hef haft þá reglu að mynda aldrei fermingarbörn á fermingardaginn sjálfan“

Ljósmyndarinn Harpa Hrund Bjarnadóttir hefur tekið fermingarmyndir af þónokkrum
fermingarbörnum í gegnum tíðina en hún segist hafa mest gaman af myndatökum með fólki. Sjálf á hún fjögur börn og er það næstyngsta að fara að fermast í apríl. Hún mælir alls ekki með því að fara í fermingarmyndatöku á fermingardaginn því það sé of mikið stress.

„Ég á fjögur börn og fullt af dýrum, hund, ketti, hænur, finkur og er að rækta býflugur. Ég er með stóran garð heima hjá mér ásamt gróðurhúsi, og rækta mikið af mínu eigin grænmeti. Ég vinn þó við aðaláhugamálið mitt sem er að mynda fólk. Núna í mars á þessu ári hef ég verið með mína eigin ljósmyndastofu opna í tuttugu ár. Ég er með stúdíóið mitt í Reykjahverfi í Mosfellsbæ og er með 2.000 fermetra garð sem liggur út að náttúrunni, þá er eins og maður sé uppi í sveit og nota ég garðinn mikið í myndatökur. Ég er með Úlfarsfell, Reykjafell, hesta og kálgarða í bakgarðinum. Ég lærði ljósmyndun fyrst í Svíþjóð og kláraði í Iðnskólanum í Reykjavík sem er Tækniskólinn í dag. Ég fór á samning hjá Barböru Birgis í Ljósmyndaverinu Skugganum sem var í Bankastræti á sínum tíma. Það sem heillar mig mest við ljósmyndun eru samskiptin við fólk, ég hef til dæmis oft reynt að vera duglegri að taka landslagsmyndir en myndavélataskan endar alltaf lengst aftast í skottinu eftir ferðir okkar um landið. Ég sérhæfi mig í öllu sem viðkemur fólki en þar má nefna myndatökur af ungbörnum eða á meðgöngu, og fyrir tilefni eins og fermingar, útskriftir og brúðkaup. Svo tek ég líka myndir af stórfjölskyldum en af og til tek ég myndir fyrir fyrirtæki, auglýsingar og leikskóla. Mér finnst skemmtilegast að hafa vinnuna sem fjölbreyttasta,“ segir Harpa Hrund.

 

Lykilatriði að hafa afslappað andrúmsloft

„Áður fyrr voru meiri tarnir, fermingartörnin, brúðkaupstörnin og jólatörnin. Sem betur fer er þetta mun dreifðara í dag. Fólk er farið að gifta sig árið um kring og það er orðið algengara að fermingarbörn vilji geyma myndatökuna fram á seinni hluta vors eða fram á sumar. Þá er hægt að fá bæði myndir innan- og utandyra, bakgrunnurinn úti er orðinn skemmtilegri, trén eru orðin grænni og það er ekki eins kalt. Ég hef á bakinu rúmlega 4.000 myndatökur og held að fermingarmyndatökurnar séu í kringum tuttugu prósent af því svo að ég hef myndað í kringum 800 fermingarbörn. Mér finnst allra mikilvægast að það sé hlustað á hvað unglingurinn vill. Sumir vilja koma með allskonar föt eða eitthvað tengt áhugamálum sínum en aðrir vilja það alls ekki. Til þess að ná góðum myndum af manneskju þá þarf hún að vera eins afslöppuð og hún getur orðið, svo það skiptir miklu máli að fermingarbarnið sé með í að skipuleggja myndatökuna.

Einnig er betra að mínu mati að koma frekar tíu mínútum of seint í myndatöku en að drífa sig of mikið því þá getur myndast mikið stress. Mér finnst líka skipta máli að fermingarbarnið hjálpi til við að velja myndirnar sínar. Ég hef vanið mig á að setjast niður með viðkomandi eftir myndatökuna og við veljum myndirnar saman. Ég hef verið í fermingarmyndatöku þar sem eldra systkini er með í för, sem ég hef þá myndað nokkrum árum áður, og hef þá heyrt að systkinið sé ennþá ánægt með sínar myndir, þrátt fyrir að vera kannski komið yfir tvítugt! Það er alveg frábært að heyra slíkt og er það líklegast besta hrós sem ég fæ sem ljósmyndari.“

 

Fermingarbörn í dag orðin dugleg að sjá um hár og förðun sjálf

„Ég hef haft þá reglu að mynda aldrei fermingarbörn á fermingardaginn sjálfan þar sem það eykur á stress. Í eitt skipti lét ég það eftir viðskiptavini að mynda strák á fermingardaginn sjálfan og það er eina fermingarmyndatakan sem ég hef þurft að endurtaka. Ég náði ekkert til hans í fyrri myndatökunni og myndirnar urðu ekki góðar. Þegar hann kom í seinna skiptið þá náði ég miklu betur til hans og spurði hann hvað hefði verið að síðast þegar hann kom, þá sagðist hann hafa verið mjög stressaður. Myndirnar voru margfalt betri í seinna skiptið og ákvað ég þá að vera með það sem fasta reglu hjá mér að mynda ekki á deginum sjálfum. Það er í boði að fá myndirnar tilbúnar fyrir veisluna en þá þarf að koma þremur vikum fyrir fermingardaginn svo ég nái að vinna myndirnar. Þau sem vilja fara í prufugreiðslu nýta hana mjög oft í myndatökuna og þannig er hægt að mynda bæði með hárgreiðslu en einnig skella hárinu í tagl eða breyta hárinu og taka fjölbreyttar myndir. Annars finnst mér líka mikið um það að fermingarbörn séu farin að græja hárgreiðsluna sjálf og jafnvel farða sig sjálf. Börn í dag eru svo dugleg að tileinka sér nýja hæfileika og eru oft bara ánægðari með sig eftir að hafa gert hárið fínt sjálf og farðað sig sjálf,“ segir Harpa Hrund.

til baka