Dagný Jóhannsdóttir fermist 17. apríl. Hún hefur sterkar skoðanir á öllu sem viðkemur
fermingunni og er búin að velja kjól, litaþema og ákveða hárgreiðslu. Það eina sem liggur ekki ljóst fyrir er hvert hún fer í fermingarferð með bróður sínum sem fermist á næsta ári.
Eitt af fermingarbörnum ársins er Dagný Jóhannsdóttir, nemandi í Langholtsskóla. Hún ætlar að fermast þann 17. apríl næstkomandi, á skírdag. Dagný á einn bróður sem heitir Gunnar Vilji og er hann einu ári yngri en systir hans og fermist því á næsta ári. Móðir þeirra, kennarinn Inga Rut Gunnarsdóttir, segir dóttur sína svo sannarlega vera með puttann á púlsinum þegar kemur að því að undirbúa fallega veislu og skapa skemmtilegt andrúmsloft, en það fer ekki á milli mála að Dagný er afar klár og veit hvað hún vill.
„Dagný er nemandi í 8. bekk og æfir brasilískt jiu-jiutsu í Mjölni. Dagný og Gunnar Vilji hafa æft þar saman í nokkur ár. Hún hefur mikinn áhuga á tísku en hún leggur einnig mikið upp úr því að standa sig vel í námi. Hún er strax farin að huga að því hvernig hún kemst inn í Menntaskólann í Reykjavík þar sem hana langar þangað og í framhaldi af því að fara í læknisfræði. Henni finnst jafnframt gaman að ferðast, hvort sem það er innanlands eða til útlanda en líkt og við fermingarundirbúninginn er það skipulagningin sem heillar mest,“ segir Inga Rut.
Systkinin fá sameiginlega fermingargjöf
Dagný var strax staðráðin í því að halda stóra veislu og verður hún því haldin í sal.
„Ég held að það sé óhætt að segja að undirbúningurinn sé sá hluti sem hún er hvað spenntust fyrir. Það er örugglega ár síðan hún byrjaði að skoða kjóla, hárgreiðslur og skreytingar. Hana langar mest í nýtt rúm í fermingargjöf og að gera breytingar á herberginu sínu. Þar sem bróðir hennar fermist svo strax á næsta ári náðum við foreldrarnir að gera samning við systkinin um að þau fengju sameiginlega ferð í fermingargjöf, þ.e.a.s. ef þau ná að koma sér saman um áfangastað. Þrátt fyrir að vera samrýmd geta þau einnig rifist um alla skapaða hluti,“ segir Inga Rut.
Dagný fermist í Langholtskirkju. Fermingarfræðslan hefur verið ótrúlega öflug og skemmtileg að hennar mati.
„Ég fór í Vatnaskóg ásamt krökkum úr Langholtskirkju, Laugarneskirkju og Áskirkju í vetur. Auk þess að fræðast um kristna trú hafa fermingarbörnin svo fræðst og rætt um sjálfsmyndina og samskipti, hvernig það er að upplifa sorg og áföll og tekið þátt í fjáröflunarátaki sem snýst um aðgang að hreinu vatni í Eþíópíu, ásamt mörgu öðru uppbyggilegu,“ segir Dagný.
Litríkt þema
Veislan byrjar klukkan eitt og verður boðið upp á lamb og kalkún þar sem Dagný hefur alltaf kunnað að meta gott kjöt.
„Hún var líka spennt fyrir því að velja eftirrétti, sem þó verða með hefðbundnari hætti, þar má nefna bæði marsipan- og súkkulaðikökur ásamt kransaköku,“ segir Inga Rut.
Þeim mæðgum þykir það ekki verra að hægt sé að fá kökurnar með skrauti í þemalitunum frá Bakarameistaranum.
„Skreytingarnar eru án efa sá hluti undirbúningsins sem Dagný hefur verið spenntust fyrir. Hún er strax farin að huga að því hvernig skreytingarnar eigi að vera hjá bróður sínum á næsta ári. Hún var búin að velja þemaliti strax fyrir áramót og urðu bleikur, rósagylltur, grænn og hvítur fyrir valinu. Hún mun ekki fara í myndatöku en við ætlum að hafa myndakassa með fallegum bakgrunni í fermingunni í staðinn,“ segir Inga Rut og bætir við:
„Fermingarbarnið er einnig búið að huga að förðun, en hún ætlar að vera með létta og náttúrulega förðun þar sem hún notar ekki farða dagsdaglega. Hárið verður sett í tvær fastar fléttur sem mynda svo stóran snúð og verður hann með brúðarslöri. Við erum svo heppin að hárgreiðslukonan okkar ætlar að koma heim til okkar um morguninn svo það mun vonandi skapa notalega morgunstund í upphafi fermingardagsins,“ segir Inga Rut.
„Dagný var með sterka skoðun á því hvernig kjóllinn ætti að líta út og fundum við hann í Cosmo fyrir nokkrum vikum. Hún ætlar svo að vera í flottum strigaskóm en okkur fannst það mun sniðugra en að vera í hælum þar sem hún mun nota skóna áfram í sumar,“ segir móðir fermingarbarnsins.