Fermingardagur Unnars Steins A. Arnrúnarsonar er 29. mars. Hann fermist borgaralega á vegum Siðmenntar og segir það aldrei hafa hvarflað að sér að fermast í kirkju. Fermingarnámskeiðið sem hann sótti hjá Siðmennt var, að hans sögn, bæði skemmtilegt
og fræðandi. Hann efast ekki um að hann taki lærdóminn með sér út í lífið. Í huga Unnars er fermingin spennandi áfangi í lífinu og það mikilvægasta við daginn sjálfan er að hann verði skemmtilegu
Unnar Steinn A. Arnrúnarson er 13 ára nemandi við Réttarholtsskóla. Fyrir þremur árum tók hann ákvörðun um að fermast borgaralega og segir þá ákvörðun hafa legið ljósa fyrir. „Það fór aldrei í gegnum hugann að fermast kirkjulega.“
Hann hefur einnig fyrirmynd að borgaralegri fermingu en frændi hans fermdist hjá Siðmennt.
Hjá Siðmennt er rík trúfrelsisstefna sem felur í sér að telja sannfæringar-, trú- og tjáningarfrelsi til almennra lýðréttinda, eins og segir á heimasíðu félagsins. Félagið sér m.a. um að ferma börn borgaralega, en íslensk börn eru þeirrar lukku aðnjótandi að hafa val um með hvaða hætti þessi stóri áfangi í lífi þeirra fer fram.
Skemmtilegt námskeið og nýir félagar
Unnar, sem verður 14 ára í sumar, hefur prófað ýmsar tómstundir, t.d. knattspyrnu og karate, en æfir nú körfubolta hjá Val og segir afar skemmtilega stemningu á æfingum.
„Mér finnst körfubolti höfða best til mín.“
Fermingardagur Unnars er 29. mars. Honum hefur fundist aðdragandinn að fermingardeginum góður og fór hann t.d. á námskeið tvær helgar hjá Siðmennt til að undirbúa þennan stóra áfanga í lífi sínu.
„Það voru nokkuð margir krakkar á námskeiðinu hjá Siðmennt og ég kynntist nokkrum þeirra og eignaðist félaga.“
Unnar segir boðskapinn á námskeiðinu hafa skilað sér vel. Þar fóru krakkarnir í leiki og lærðu um lífið og tilveruna, hegðun og kærleika og hvernig koma ætti fram við náungann.
„Við lærðum hvað það er að verða fullorðinn.“
Það var ekkert á námskeiðinu sem kom honum sérstaklega á óvart en hann bætir við að hann muni klárlega taka lærdóminn með sér út í lífið.
Spennandi að fullorðnast
Fermingarmyndatakan fer fram á Spáni en þegar viðtalið er tekið er Unnar á leiðinni þangað með fjölskyldunni í tíu daga ferð. Fermingarathöfnin í lok mars verður í Hörpu, að henni lokinni verður haldið til veislu í sal Knattspyrnusambands Íslands í Laugardal og segist Unnar búast við um 90 gestum.
Hann er þó nokkuð slakur yfir þessu öllu saman og finnst bara spennandi að fá að fullorðnast, eins og hann orðar það.
„Ég held að við munum kaupa hluta af veitingunum og einnig útbúa eitthvað sjálf, eins og beef bourguignon, sem frænka mín og maðurinn hennar elda fyrir okkur.“ Hann bætir við að á boðstólum verði einnig hin hefðbundna kransakaka og marenskaka og þá verður sælgætisbar þar sem gestir geta valið sér eitthvað gott í gogginn.
Litaþemað í veislunni verður grænt, svart og hvítt og þá verður myndasýning á stórum skjáum í salnum með ýmsum skemmtilegum myndum úr fjölskyldumyndaalbúminu.
„Við ætlum líka að gera kahoot fyrir gestina, sem er mjög skemmtilegur leikur.“
Aðspurður segist Unnar ekki halda að það sé einhver sérstök fermingartíska í gangi hjá jafnöldrum sínum. Hann er ekki búinn að kaupa fermingarfötin en hefur þó ákveðna hugmynd um hverju hann vill klæðast: „Það verða örugglega dökkar gallabuxur, hvítir skór, hvítur bolur og fínn jakki.“
Hvað langar þig í í fermingargjöf?
„Mig langar í góðan „gaming“-stól, utanlandsferð og svo yrði ég alltaf sáttur við pening og myndi þá leggja allavega 80% af honum strax inn á bankabók.“
Það er ákveðið tilhlökkunarefni að fá gjafir og fagna áfanganum með fjölskyldu og vinum. Það sem er þó mikilvægast í huga Unnars er að fermingardagurinn verði skemmtilegur, eins og hann segir að lokum.