sun. 6. apr. 2025 13:00
Gestirnir í veislunni verða í kringum hundrað og Maddý býður bæði fjölskyldu og vinum úr fimleikunum og skólanum. Hún segir að það verði einhver skemmtiatriði og eins og er þá séu þau að pæla í að vera með Kahoot-spurningakeppni sem snúi að henni. „Í veislunni hjá systur minni var dansatriði en ég ætla ekki að vera með svoleiðis,“ segir hún.
Skemmtilegast að pæla í fermingarfötunum

Magdalena Andradóttir er 13 ára dugleg og lifandi stelpa en hún segist oftast vera kölluð Maddý af vinum og fjölskyldu. Hún býr í Laugarnesinu með foreldrum sínum og tveimur systrum en hún er miðjubarn, auk þess er á heimilinu hundurinn Mía. Maddý er í 8. bekk
í Laugalækjarskóla og mun fermast í Laugarneskirkju 1. júní næstkomandi. Hún hefur lagt stund á fimleika frá þriggja ára aldri og æfir nú í þrjár og hálfa klukkustund fimm sinnum í viku, auk þess var hún lengi vel í samkvæmisdönsum sem hún segist nýlega hafa lagt á hilluna. „Ég æfði þessar tvær íþróttir saman í u.þ.b. 10 ár og svo kom að því að þetta bara gekk ekki upp saman.“

Maddý hefur alltaf æft fimleika með Ármanni. „Ég er að æfa áhaldafimleika sem eru meira einstaklingsfimleikar. Ég hef tekið þátt í mörgum mótum og var einmitt að keppa bara um síðustu helgi.“ Maddý hefur unnið til fjölda verðlauna og segist hafa verið nokkrum sinnum í öllum sætum, fyrsta, öðru og þriðja. Stundum keppir hún í öllum greinum en líka á einu og einu áhaldi. „Mér finnst gólfið og tvísláin skemmtilegustu greinarnar,“ bætir hún við og segir að auk íþróttanna finnist sér skemmtilegt að vera með vinum og þá helst vinunum í fimleikunum.

Lærði Faðirvorið í fermingarfræðslunni

Hvers vegna ákvað Maddý að fermast? „Bara af því að vinkonur mínar voru að fermast og eldri systir mín fermdist líka og mig langaði bara til þess.“ Hún er ekki lengi að svara þegar hún er spurð hvort hún hafi velt því fyrir sér tilganginum með fermingunni. „Mig langar bara að sýna hvað ég trúi á. Ég er búin að vera að fara í fermingarfræðslu og þar förum við fyrst í einhverja leiki og svo er bara mismunandi hvað við erum að fræðast um í hverjum tíma.“ Hún brosir og bætir vandræðalega við að hún þurfi oft að fara fyrr úr fræðslunni til að mæta á fimleikaæfingar og missi því svolítið af því sem fer fram. „En ég þurfti að læra Faðirvorið í fermingarfræðslunni, ég kunni það ekki en kann eitthvað smá núna. Ég þarf líka að velja mér eitthvert svona vers.“

 

Amma sá um fermingarskóna

Helsti fermingarundirbúningurinn hefur snúið að því að finna þema fyrir veisluna sem haldin verður í Laugalækjarskóla.

„Við mamma erum aðallega búnar að vera að skoða hvernig við ætlum að skreyta og hvaða þema og litir verða í veislunni. Við erum líka búnar að fara vel yfir hverjum á að bjóða og svoleiðis. Mér hefur þótt einna skemmtilegast að pæla í hverju ég ætla að vera á fermingardaginn.“ Hún segist mikið vera búin að skoða fermingarkjóla en hún sé ekki búin að kaupa hann enn. „Ég er búin að finna skóna og svo er ég búin að skoða kjóla við þá til dæmis í Yeoman. Strigaskórnir eru hvítir með smá svona bleiku á hælnum frá Alexander McQueen, sem amma mín gefur mér.“

Vill hafa litla og náttúrulega förðun

Maddý segist ætla að vera með krullur í hárinu á fermingardaginn. „Ég ætla ekki í æfingagreiðslu því þetta er hárgreiðslumaðurinn minn hann Stebbi sem þekkir mig mjög vel og hann gerir alltaf bara nákvæmlega það sem maður vill. Ég er að fara í klippingu til hans fljótlega og þá ræðum við þetta. Mig langar að hafa svona liði sem gerðir eru með stórum bursta og blásara.“ Hún segist svo og ætla að fara í neglur fyrir stóra daginn. „Ég ætla líka að mála mig sjálf og það verður bara svona náttúrulegt, mér finnst ekki fallegt að vera mikið máluð.“ Hún segist ekki ætla að fara í hefðbundna fermingarmyndatöku í stúdíói heldur fari hún í fimleikamyndatöku í fimleikasal og svo fjölskyldumyndatöku fyrir utan skólann þar sem veislan er haldin.

Ætlar að vera með hamborgara frá Búllunni í veislunni

Hún segir að mamma og pabbi hafi hjálpað sér mikið í undirbúningnum og ákvörðununum varðandi ýmis praktísk atriði en allt ferlið hafi verið mjög afslappað og hjá þeim sé ekkert fermingarstress eða verið að gera of mikið eða flókið. „Veitingarnar ákváðum við saman en það verða hamborgarar frá Hamborgarabúllunni, við fáum bara svona Búllubíl sem kemur og sér um þetta en systir mín var með þannig líka,“ segir Maddý og flissar. „Við verðum líka með einhverjar kökur, kransaköku og súkkulaðiköku sem við kaupum líklega tilbúnar.“ Hún bætir við að ákvörðunin um að hafa ferminguna 1. júní hafi verið vegna þess að þá séu meiri líkur á góðu veðri.

Gestirnir í veislunni verða í kringum hundrað og Maddý býður bæði fjölskyldu og vinum úr fimleikunum og skólanum. Hún segir að það verði einhver skemmtiatriði og eins og er þá séu þau að pæla í að vera með Kahoot-spurningakeppni sem snúi að henni. „Í veislunni hjá systur minni var dansatriði en ég ætla ekki að vera með svoleiðis.“

 

Þemað hvítt, gull og „rose gold“

Hún segist vera búin að skoða ýmislegt þegar kemur að fermingarskreytingum og þema. „Mig langaði að hafa hvítt og gull en líka „rose gold“ út af því að systir mín var með þann lit í sinni fermingu og mér fannst það svo flott. Við eigum eitthvert skraut til í þessum litum og svo ætlum við að kaupa hvítan pappadúk á rúllu og svo fáum við örugglega blóm frá versluninni Blóm og fiðrildi. Veitingaborðið verður skreytt með blómum og gullperlum hugsa ég. Ég er í raun búin að ákveða flest og nú á bara eftir að kaupa það sem upp á vantar.“

Ferð til New York gjöfin frá mömmu og pabba

Hvað skyldi vera efst á óskalistanum þegar kemur að fermingargjöfunum. „Sko mig langar alveg bara í pening og kannski einhverja skartgripi. Síðan langaði mig mikið í einhverja útlandaferð frá mömmu og pabba,“ segir hún og brosir. „Ég er búin að fá að vita hvað ég fæ frá þeim en það er ferð til New York, ég fer með mömmu og pabba í fjögra daga ferð í lok maí rétt fyrir ferminguna mína.“ Maddý segist aldrei hafa komið til New York og hún hlakki mikið til ferðarinnar.

Þegar hún er að lokum spurð hvað sé mesta tilhlökkunarefnið á fermingardaginn sjálfan segir Maddý, án þess að hika, að það sé örugglega bara að hitta alla gestina og spila Kahoot.

til baka