þri. 18. mars 2025 06:30
Mæðgurnar Agnes Brynja Hjartardóttir og Valgerður Gréta Gröndal undirbjuggu stóra daginn saman en Agnes fermdist borgaralega 13. apríl í fyrra í Hörpu í Norðurljósasalnum.
Svífum enn á bleiku skýi eftir fullkominn dag

Valla segir að það skipti máli að persónuleiki barnsins þurfi skíni í gegn þegar halda á veislu og að barnið þurfi að fá að njóta sín.

„Agnes fermdist borgaralega þann 13. apríl í fyrra í Hörpu. Þegar fór að líða að því að skrá börnin í fermingarfræðslu spjölluðum við um hvort og hvar hún vildi fermast. Hún var strax ákveðin í að fermast hjá Siðmennt og það var að sjálfsögðu auðsótt. Fermingarfræðslan þeirra hentaði Agnesi mjög vel þar sem hún er mjög listræn og gat því valið fræðslu sem tengist vel hennar áhugasviði,“ segir Valla.

„Athöfnin sjálf fór fram í Norðurljósasal Hörpu og við eigum varla orð yfir hversu vel var staðið að henni og hversu hátíðleg hún var. Nokkur fermingarbörn voru með atriði og þvílíkir hæfileikar komu í ljós hjá þessum krökkum,“ bætir Valla við hughrifin.

 

Pöntuðu sal með árs fyrirvara

Þegar kom að því að velja fermingardaginn voru mægðurnar sammála um að velja dag þar sem væri frí daginn eftir og því varð laugardagur fyrir valinu.

„Eins og margra mæðra er siður sá ég að mestu um undirbúninginn í samvinnu með Agnesi. Þegar fermingardagurinn hafði verið valinn fórum við strax í að panta sal en ég mæli með því að gera það með árs fyrirvara. Það hljómar kannski eins og algjört rugl en því miður er það þannig að þeir verða fljótt uppbókaðir og ef þið viljið vera viss um að fá sal sem hentar á réttum degi þarf allan þennan fyrirvara.

Global taste veisluþjónusta er með stórkostlegan sal í Skógarhlíð 12 og hann hentaði okkur fullkomlega. Passlega stór og með hliðarherbergi út frá salnum þar sem við komum fyrir dótakassa með alls konar skemmtilegu dóti fyrir krakkana.“

Númer eitt, tvö og þrjú að eiga samtal við fermingarbarnið

Hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að undirbúa fermingardaginn og veisluna?

„Númer eitt, tvö og þrjú er að eiga samtal við fermingarbarnið, hvaða væntingar hefur það og hvernig sér það fyrir sér fermingardaginn og veisluna. Mörg börn vilja ekki stóra veislu þvert á það sem foreldrar halda. Agnes vildi veislu en ekki það stóra að hún myndi ekki þekkja helminginn af gestunum. Við fórum síðan yfir hvað mörg fermingarbörn vilja hafa í veislunum sínum og hefur verið vinsælt síðustu ár. Hún vildi til að mynda alls ekki nammibar, blöðruboga, súkkulaðigosbrunn og slíkt en kaus að hafa myndakassa. Út frá gestalista og óskum fermingarbarnsins mæli ég með því að gera grófa fjárhagsáætlun og safna yfir árið fram að fermingunni svo höggið verði sem minnst fyrir veskið. Því þrátt fyrir að veislan verði ekki stór eru upphæðirnar fljótar að safnast saman. Ég mæli líka með því að halda utan um allt sem snýr að veislunni í einu skjali,“ segir Valla.

 

Valdi fallegan kóngabláan kjól

Þegar kom að því að velja klæðnað fyrir stóra daginn hafði fermingarstelpan sterka skoðun á því hvað hún vildi og hvað ekki.

„Agnes Brynja vildi alls ekki fermast í klassískum hvítum blúndukjól, hún valdi þess í stað mjög fallegan kóngabláan mynstraðan kjól í Gallerí 17. Hún vildi ekki vera í hælaskóm og vildi hvorki panta sér hárgreiðslu né förðun, hún sá um það alveg sjálf. Með því að gera þetta sjálf myndaðist rými fyrir eitthvað annað eins og til dæmis að leigja myndakassa,“ segir Valla.

Þemanu fyrir veisluna, bæði hvað varðaði veitingar og skreytingar, leyfði Valla dóttur sinni að ráða að mestu leyti. „Hún var strax ákveðin í að hafa ljósbleikt og silfrað þema. Ég gat því haft það í huga næsta árið að fylgjast með og koma auga á eitthvað sem passaði fyrir það þema. Hún vildi líka hafa kökur og klassískt bakkelsi í hátíðlegu formi frekar en heitan mat eða smáréttahlaðborð.“

Staðráðin að gera sem fæstar veitingar sjálf

„Við foreldrarnir erum mikið matarfólk og vorum ákveðin í að hafa kransaköku, litla marsípantertu og snittur. Það er einhver nostalgía falin í því og svo lengi sem Agnes fengi það sem henni þætti best var henni alveg sama. Við pöntuðum marsípantertuna og kransakökuna hjá Tertugallerí. Kransakökuna pöntuðum við óskreytta þar sem við vildum fá að stjórna útliti hennar en ég treysti mér ekki í að baka kransaköku þrátt fyrir orðróm um að það væri ekkert mál. Það eina sem ég bakaði sjálf voru makkarónur með saltkaramellu sem ég skreytti kransakökuna með og raðaði á bakka.“

 

Valla komst að ýmsum leyndardómum um veitingar fyrir undirbúninginn, til að mynda að það væri veisluþjónusta hjá IKEA. „Snitturnar pöntuðum við hjá IKEA en það var einhver snillingurinn sem sagði mér að það væri hægt að panta hjá þeim fyrir veislur. Þær eru ótrúlega matarmiklar, ferskar, fallegar og á góðu verði.

Þrátt fyrir að vera matarbloggari sem bakar mörgum sinnum í viku var ég staðráðin í því að gera sem fæstar veitingar sjálf. Ég fékk Passion bakarí, sem er eitt mitt uppáhalds, til að sjá um stærsta hluta veitinganna auk þess sem mágkona mín, sem gerir bestu heitu rétti í heimi, sá um að gera nokkra fyrir veisluna,“ segir Valla.

Mæðgurnar vildu bjóða upp á veitingar sem þeim sjálfum finnst góðar og voru þær í anda þeirra veitinga sem hafa verið bornar á borð í barnaafmælinum í gegnum tíðina.

Til að minnka stress og dreifa kostnaði

Útsjónarsemi og hugmyndaauðgi Völlu kom sér vel í undirbúningnum. Sumt föndraði hún sjálf eða pantaði hjá öðrum.

Aðspurð segir Valla að hún hafi gefið sér góðan tíma til að safna skreytingum og þar hafi hún vandað til verka. „Það gerði ég bæði til þess að dreifa kostnaði og til að minnka stress. Ég keypti notað, nýtt og fékk gefins skraut sem nýttist ótrúlega vel. Ég mæli eindregið með því að fylgjast vel með fermingargrúppunum á Facebook þar sem hægt er að fá notað skraut á slikk eða jafnvel gefins. Ég keypti annað í versluninni Allt í köku en eftir að hafa gert verðsamanburð fannst mér hún koma best út.

Til að mynda var það Andrea hjá 29 línum sem útbjó fyrir mig undurfallegan kökutopp úr tré sem ég setti á kransakökuna en hún sker einnig út kortaskilti sem ég hafði ofan á kortakassanum. Við vildum ekkert flækja kortakassamálin en við notuðum kassa sem ég keypti í Söstrene Grene og skar út op í lokið og hafði fallega kortaskiltið ofan á honum.

Á miðju veisluborðinu var ég með trékassa sem ég átti niðri í geymslu og lakkaði hvítan. Á honum var ég með kertastjaka og blóm í stórum vasa sem ég setti saman. Ég var með rósir í þremur litatónum, hvítt brúðarslör, bleikar nellikur og eucalyptus sem ég raðaði í vendi á veisluborðið, gjafaborðið og á borðin í salnum.“

 

Týpískar myndir teknar í sumarfríum og í hversdagsleikanum

Eitt af því sem vert er að skipuleggja vel er fermingarmyndatakan en flestir fara í myndatökuna fyrir fermingardaginn og forsýna myndirnar í fermingarveislunni sjálfri.

„Við fórum í fermingarmyndatöku hjá Eiríki Inga ljósmyndara töluvert fyrir fermingardaginn sjálfan til þess að nýta fermingarmyndirnar í veislunni. Við prentuðum út nokkrar myndir sem við hengdum á borða auk þess sem við röðuðum nokkrum myndum í ramma sem við höfðum á gjafaborðinu. Það kom mjög skemmtilega út,“ segir Valla og bætir við að þau hafi líka boðið upp á myndasýningu í veislunni.

„Það mæltist mjög vel fyrir og gestunum fannst alveg dásamlegt að fá að sjá myndir af fermingarbarninu á ýmsum aldri. Flestar þessara mynda hafði enginn séð enda týpískar myndir sem maður tekur í sumarfríum og í hversdagsleikanum og eru síðan fastar í einhverju skýi sem enginn fær að sjá.

Við leigðum einnig myndakassa og bakgrunn með sem vakti mikla lukku. Við vorum með hann frammi á ganginum og það er bæði gaman að fá þessar myndir og minningar úr veislunni en einnig er þetta ákveðin afþreying fyrir veislugestina.“

Hvað var það sem ykkur mæðgunum fannst standa upp úr á fermingardeginum?

„Hvað það var yndislegt að hitta fólkið sitt og gleðjast saman yfir góðu kaffi. Það var svo mikil gleði og hamingjan var nær áþreifanleg. Það spilaði allt svo vel saman, fermingarathöfnin sjálf, veðrið var bjart og fallegt og veitingarnar eins og þær gerast bestar. Agnes var svo hamingjusöm með allt og við fjölskyldan svífum enn á bleiku skýi eftir þennan fullkomna dag,“ segir Valla með bros á vör.

Myndirnar segja meira en þúsund orð.

til baka