lau. 5. apr. 2025 19:00
Baldvin Rökkvi Hjartarson fermist í Áskirkju.
Ætla að nýta tækifærið og láta mynda alla stórfjölskylduna

Hjónin Erla Baldvinsdóttir og Hjörtur Ingi Eiríksson eiga fjögur börn og er það yngsta að fara að fermast í vor. Það er einkasonurinn Baldvin Rökkvi en hann er svo heppinn að eiga þrjár eldri systur. Foreldrarnir og fjölskyldan öll eru orðin ansi sjóuð að undirbúa fermingu og fermingarveislu. Baldvin gat þó eðli málsins samkvæmt ekki nýtt sér föt eða skó frá systrunum en þær hjálpa til á annan hátt.

Baldvin verður spenntari með hverri vikunni fyrir fermingarveislunni sinni en við mæðginin skipulögðum hana saman. Hann er óneitanlega spenntur fyrir gjöfunum en efst á óskalistanum er sími en einnig dreymir hann um skemmtiferð til útlanda. Hann kveðst líka mjög spenntur fyrir því að hitta alla fjölskylduna og vinina sem ætla að koma og gleðjast með fjölskyldunni,“ segir Erla sem er að ferma í fjórða skiptið. Elsta dóttir hennar heitir Halla María og er verkfræðingur í Kaupmannahöfn. Svo kemur Sara Hlín sem er 23 ára læknanemi og býr í Slóvakíu og sú þriðja er Sóldís Erla, 18 ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands.

 

Fjölskyldan hefur lengi búið í Laugarneshverfi í Reykjavík.

„Systurnar fermdust allar í Laugarneskirkju en Baldvin valdi sér að fermast í Áskirkju, á pálmasunnudegi, 13. apríl næstkomandi. Flestir vinir hans munu einnig fermast í Áskirkju og var fermingarfræðslan þar á hentugum tíma með tilliti til æfinga, en Baldvin er öflugur í íþróttum. Hann æfir körfubolta með KR og spilar fótbolta með Þrótti. Hann æfði líka fimleika þegar hann var yngri en boltaíþróttirnar tóku yfir við sjö ára aldur,“ segir Erla. Hún segir að sonur hennar sé félagslyndur.

„Vinirnir eru líka stór hluti af lífinu og eru þeir ansi duglegir að hanga saman í raunheimum sem og tölvuheimum. Það er því nóg að gera þessa dagana hjá þessum duglega dreng,“ segir Erla.

 

Veislan verður í hátíðarsal Laugarnesskóla

Er eitthvert þema í veislunni?

„Baldvin ætlar að hafa blátt og gyllt litaþema og verða allar skreytingarnar í þeim litum. Veislan verður haldin í hátíðarsal Laugarnesskóla þar sem Baldvin var nemandi frá fyrsta til sjötta bekkjar,“ segir Erla en hún hefur starfað í skólanum síðan 2001.

„Boðsgestir eru um það bil 100 talsins. Í Laugarnesskóla starfar frábær matreiðslumaður sem heitir Sigurður og hann hefur verið ráðinn í það að sjá um matinn í veislunni. Það verður gamaldags steikartvenna með öllu tilheyrandi. Fermingarbarnið elskar kjúklingavængi, svo að þeir verða á boðstólum og keyptir úti í bæ. Í eftirrétt verða tertur og sætindi sem Sigurður, ömmur fermingarbarnsins, ég sjálf og frænkur okkar sjá um að útbúa,“ segir hún.

 

Hvernig hefur fermingarfræðslan verið?

„Baldvin hefur verið ánægður með fermingarfræðsluna hjá Áskirkju. Haustið byrjaði með ferð í Vatnaskóg með öllum fermingarbörnum hverfisins. Í hverri viku hafa svo verið tímar með sóknarprestinum í Áskirkju. Þar hefur verð fjölbreytt dagskrá og viðfangsefnin þörf og góð. Til dæmis var boðið upp á flott sjálfstyrkingarnámskeið þar sem sjálfsmyndin var aðalumræðuefnið.

Það er stefnan er að fara með fermingarbarnið í myndatöku og taka í leiðinni myndir af stórfjölskyldunni. Eins þarf að taka myndir af Sóldísi Erlu, sem fermdist á tímum kórónuveirufaraldursins, það átti alltaf eftir að fara með hana í myndatöku sem varð ekkert úr en betra seint en aldrei,“ segir Erla og brosir.

til baka