Sóknarprestur Kópavogskirkju, séra Sigurður Arnarson, ráðleggur fermingarbörnum að hafa
kærleikann, trúna, gleðina og vonina að leiðarljósi á stóra daginn. Nú hafa börnin verið í fermingarfræðslu í vetur og er þar margt hægt að taka með sér út í daglega lífið, eins og náungakærleikann. Hann segir kirkjusókn ungmenna hafa aukist síðustu tvö ár, ekki einungis hérlendis heldur einnig annars staðar á Vesturlöndum.
„Innihaldið er það sama, það er staðfesting að þú viljir lifa í þessum heimi sem kristin manneskja, með kristin gildi að leiðarljósi,“ segir sóknarprestur Kópavogskirkju, séra Sigurður Arnarson, um inntak fermingarfræðslunnar. Nú er ansi mikilvægur tími að renna upp hjá flestum þrettán og fjórtán ára börnum hérlendis þegar fermingardagurinn nálgast og hafa þau sem fermast í kirkju verið í fermingarfræðslu í vetur og síðastliðið haust.
„Börnin hafa þetta frelsi til að ákveða hvort þau vilji staðfesta trúna og lifa sem kristnar manneskjur og fermingin snýst um það,“ bendir Sigurður á.
Umgjörðin breytt
Sigurður fagnar þrjátíu ára vígsluafmæli 21. maí á þessu ári. Hann lauk kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og var vígður til Grafarvogssafnaðar við hlið séra Vigfúsar Þórs heitins Árnasonar, sóknarprests þar.
Árin 2001-2002 dvaldi Sigurður í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði framhaldsnám í sálgæslu á Meriter-sjúkrahúsinu í Madisons, Wisconsin, þaðan sem hann hlaut starfsréttindi sem sjúkrahúsprestur. Á árunum 2002-2003 þjónaði Sigurður sem prestur Íslendinga á Bretlandseyjum og hafði þjónustuskyldu við utanríkisráðuneytið, Sjúkratryggingar Íslands og samfélag Íslendinga í Lúxemborg. Þaðan lá svo leiðin til baka í Grafarvoginn.
Spurður um hvort mikið hafi breyst í kringum fermingar síðan hann var vígður til prests segir Sigurður að vissulega hafi umgjörðin breyst og þá einkum hvað varðar fræðslu og hvernig kirkjan nálgast mismunandi aldurshópa.
„Fræðslan hefur breyst á vissan hátt, t.d. með tilkomu samfélagsmiðla.“ Þá nefnir Sigurður að frá 1. febrúar er starfandi samfélagsmiðlastjóri á vegum kirkjunnar sem miðlar upplýsingum og reynir að ná til þess hóps sem fermist á árinu.
„Við erum reglulega með fræðslumola og stutt innlegg á miðlunum Instagram, TikTok og Facebook.“
Mikið liggur að baki trúnni og er hún til gagns í daglegu lífi, þess vegna hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir börn að læra og þekkja grunngildi hennar.
Spurður um mikilvægi kristnifræðslu fyrir ungmenni bendir Sigurður á að hún sé kennd með öðrum hætti í nútímanum: „Kristnifræðsla er orðin að trúabragðafræðslu í dag,“ og er það samkvæmt aðalnámskrá grunnskólanna. Þegar undirrituð var í grunnskóla kallaðist fagið kristnifræðsla og svo aftur öðru nafni þegar Sigurður var barn: „Þegar ég var í Melaskóla var þetta kallað Biblíusögur.“
Fjölbreyttara samfélag
„Ég þjónaði sem prestur Íslendinga aftur árin 2004 til 2009, á Bretlandseyjum og í Lúxemborg,“ segir Sigurður og hefur hann því ágætis reynslu sem prestur af að þjóna þjóðarbroti erlendis sem er í minnihluta, líkt og einnig er gert hérlendis.
„Eitthvað er um að teknir séu upp siðir og venjur í því landi sem sest er að í en algengast er að börn af erlendu bergi brotin leiti þjónustu til sinna safnaða þegar kemur að t.d. fermingum.“
Á Íslandi eru starfandi t.a.m. rétttrúnaðarsöfnuður og kaþólskur söfnuður, þá eru starfandi pólskur og úkraínskur prestur í kaþólsku kirkjunni og rússneskur prestur hjá rétttrúnaðarkirkjunni. Þá sjá íslensku prestarnir um uppfræðslu og að þjónusta þau íslensku börn sem búsett eru erlendis og koma hingað til að fermast.
Spurður um trúarbrögð sem eru fjarlægari kristinni trú, eins og íslam, segist Sigurður ekki þekkja til þess að þau börn hafi fermst í kristinni trú, a.m.k ekki af því sem hann hefur reynslu af. Hann telji þó að það muni breytast með ört stækkandi samfélagi.
„Þeir einstaklingar sem eru af ólíkari trúarbrögðum en okkar munu koma í meiri mæli og leita þjónustu kirkjunnar. Við eigum eftir að sjá það í tengslum við fermingar, skírnarathafnir, hjónavígslur og útfarir. Eftir því sem þjóðfélagið verður stærra og fjölbreyttara þá munu tilfærslur á milli trúarbragða verða partur af þeirri heildarmynd.“
Kirkjusókn að aukast
„Það eru mjög margir sem fermast á hverju ári og meirihlutinn í lútherskri trú,“ segir Sigurður og bendir á að hann geti ekki séð neinn sérstakan mun á aðsókn í kirkjulega fermingu síðan hann tók við sem sóknarprestur Kópavogskirkju 2009.
„Þetta er breytilegt og hver hefur sinn háttinn á. Við tökum á móti öllum í kærleika.“
Hins vegar nefnir hann að áhugi á kristinni trú sé að aukast og vísar þar í viðtal við kollega sinn, séra Grétar Halldór Guðmundsson, prest við Kópavogskirkju, sem birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar. Í viðtalinu kemur m.a. fram að prestarnir hjá Kópavogskirkju og víðar hafi fundið fyrir auknum áhuga á trúnni; að fjöldi ungra karlmanna hafi fengið áhuga á kristinni trú sem og að eldra fólk finni þörf til að tengjast trúnni meira.
„Já við finnum það svo sannarlega að áhuginn er aukinn,“ segir Sigurður.
Til að mæta þessum aukna áhuga hefur verið sett á legg námskeiðið Líf í trú í kapellu Kópavogskirkju sem fer fram 5. mars til 16. apríl.
„Og námskeiðið verður líka sniðið fyrir yngra fólk sem vill fræðast meira um trúna. Svo eru auðvitað starfandi æskulýðsfélög í mörgum söfnuðum.“
Í þessu samhengi vísar Sigurður einnig í umfjöllun Lestarinnar á Rás 1 þar sem fram kom að prestar finni fyrir því að kirkjusókn ungs fólks hefur aukist síðastliðin tvö ár, einkum hjá ungum karlmönnum, frá aldrinum fjórtán ára og upp úr. Spurður um ástæður segir Sigurður erfitt að tiltaka ákveðnar ástæður, en nefnir þó fjölþættara safnaðarstarf. Hann bætir við að áhugavert væri að skoða þennan aukna áhuga betur því áhuginn sé einlægur og hann fer ekki einungis vaxandi hérlendis heldur einnig annars staðar á Vesturlöndum.
„Þegar fólk kynnir sér starf kirkjunnar sér það hve mikið það er og hve marga fleti mannlífsins það snertir. Það er boðskapur trúarinnar; trú, von og kærleikur, sem getur ekki annað en höfðað til fólks.”
„Gleði í drottni“
Að sögn Sigurðar hafa börnin í fermingarárgangnum 2025 verið í fermingarfræðslu síðan í haust. Sú breyting hefur orðið á að fagið er kennt í safnaðarheimilum og kirkjum áður en skólinn byrjar á haustin og teygir sig yfir skólaárið, en þá þurfa börnin ekki að mæta eins oft að vetrinum, eins og áður var.
Hvað í trúnni er gott úti í daglega lífinu og hvað getur trúin kennt börnunum?
„Í trúnni er t.d. fjallað mikið um náungakærleika, eitthvað sem allir mættu tileinka sér meira nú til dags og ekki síður við sem fullorðin erum. Það er svo margt í kristinni trú sem gott er að taka með sér út í lífið. Hún boðar kærleika, fögnuð og gleði. Ég gæti ekki tekist á við þetta líf nema hafa kærleikann, vonina og gleðina að vopni, og ekki má gleyma einlægninni, auðmýktinni og heiðarleikanum. Trúin kennir okkur að taka fólki eins og það er.“
Hver eru þín skilaboð til barnanna á stóra daginn?
„Skilaboðin eru afar einföld, þetta snýst um trú, von, kærleika og gleði, jú, og t.d. einlægni. Fyrir þau sem fermast í kristinni trú þá er mjög gott að segja: Verið glöð í drottni, því það er beint úr Biblíunni,“ bætir hann við léttur í bragði.
„Áframhaldið skiptir einnig máli og þau grunngildi sem á að rækta. Öll erum við að komast í takt við okkur sjálf með því að hafa grunngildin og sannleikann að leiðarljósi. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Það er öxullinn í þessu,“ útskýrir Sigurður og leggur áherslu á mikilvægi þess að börnin taki lærdóminn frá fermingarundirbúningnum með sér út í lífið.
„Eins og Vigfús heitinn sagði við mig þegar ég var vígður: Gleði í drottni. Þessa einföldu setningu hef ég reynt að tileinka mér í öllu sem ég geri,“ segir hann að lokum.