Hjördís Hildur Jóhannsdóttir var búsett á Ítalíu í tíu ár. Hún var íengst af í Flórens en segist hafa verið heppin að búa við Gardavatnið í eitt ár þegar hún starfaði á hóteli um tvítugt. Suðræn menningin og matur Ítala kalla á hana reglulega enda hefur hún farið margar ferðir þangað sem fararstjóri. Það er flogið beint til Veróna frá Íslandi og þaðan er stuttur spotti til paradísar á jörðu, Gardavatnsins.
Ítalíudrottningin Hjördís Hildur Jóhannsdóttir, deildarstjóri söluvers Úrvals Útsýnar, segir borðhald Ítala öllu afslappaðra en gengur og gerist hérlendis. Klukkan sjö, þegar Íslendingar eru jafnan að snæða kvöldverð eða eru nýbúnir að því, eru Ítalir að byrja á „aperitivo“ á börunum, sem felst í fordrykk og snarli með. Klukkan níu setjast Ítalirnir niður og fá sér að borða og getur borðhaldið staðið fram undir miðnætti.
„Enda sérðu ekki oft litla krakka á veitingastöðum,“ bendir Hjördís á þegar hún segir frá ítalskri menningu.
Þegar minningarnar frá Ítalíuævintýrinu skjóta sér upp í kollinn sér hún sjálfa sig á reiðhjóli, með gott ítalskt rauðvín í körfu á stýrinu, á leið í lautarferð.
„Ég ferðaðist mjög mikið um Ítalíu þegar ég bjó þarna og hef alltaf haft góð tengsl við landið. Ég hef farið þangað í margar ferðir sem fararstjóri,” segir Hjördís, en hún var búsett á Ítalíu árin 2000-2010, lengst af í Flórens, þar sem hún nam ferða- og markaðsfræði við ítalskan háskóla.
Eftir að Hjördís kláraði námið hóf hún störf við amerískan háskóla í Flórens og aðstoðaði nemendur frá Bandaríkjunum við að setjast að á Ítalíu.
Hvernig er enskukunnátta Ítala?
„Ítalir eru góðir í að passa upp á tungumálið sitt og eru rosalega stoltir af því. Allt sjónvarp er talsett á ítölsku og þeir heyra því ekki mikla ensku.“ Hjördís segir ferðamenn þó komast vel af með ágætis ensku. „Í lestunum og svoleiðis er hægt að bjarga sér enda komast þeir ekki upp með neitt annað.“
Upphaflega hófst þó Ítalíuævintýrið þegar hún var um tvítugt og segist Hjördís hafa verið svo heppin að búa við Gardavatnið í eitt ár þar sem hún starfaði á hóteli. Gardavatnið og nærliggjandi borg, Veróna, eru einmitt tilefni viðtalsins, en flogið er beint til Veróna frá Íslandi og er borgin aðeins í hálftíma fjarlægð frá paradís á jörðu, Gardavatninu.
Gardavatnið og umhverfið
Veróna er í norðurhluta Ítalíu, austanmegin við Gardavatnið. Í borginni búa tæplega 642.000 manns og hefur íbúafjöldinn nær tvöfaldast frá árinu 1950. Austanmegin við borgina eru Feneyjar, sem Hjördís segir nánast skyldu að heimsækja, en þangað er um tveggja klukkustunda lestarferð frá Veróna.
„Það er gaman að versla í Veróna en héraðið er einnig mikið vínhérað og þar eru margir búgarðar með góð vín,“ svo að hægt er að fá sveitina beint í æð þegar farið er út fyrir borgarmörkin.
„Verónabúar eiga sitt eigið hringleikahús, líkt og Kólosseum í Róm, og þar eru haldnir óperutónleikar með kanónum á borð við Plácido Domingo og fleirum. Það er mikið lagt upp úr þessum tónleikum á sumrin.“
Frá Veróna er auðvelt að ferðast í allar áttir. Hjördís segir t.d. spennandi kost að fara upp í fjöllin til Madonna di Campiglio, en það gæti verið eins og dagsferð. Skíðasvæðið sem er mörgum Íslendingum kunnugt er einnig frábær staður að sumri til, að sögn Hjördísar, hvort sem er til að fara í heilsulind á einu af hótelunum, borða góðan mat eða einfaldlega til að njóta Dólómítafjalla.
Spurð um hitastigið segir Hjördís það geta verið frekar heitt þarna. „Fyrsta flugið frá Íslandi er í byrjun júní og á þeim tíma getur hitastigið verið allt að 25-30 gráður.“ Hún bætir við að þá sé kjörið að fara að Gardavatninu því þar sé golan meiri.
„Gardavatnið er einstaklega fallegt og það er svo gaman að fara út á vatnið, hvort sem er á hjólabát eða á bát.”
Við Gardavatn er ekki hið hefðbundna strandarlíf, að sögn Hjördísar, en hrikalega gaman að vera þar. Svæðið er fjölbreytt og býður upp á ýmsa möguleika. Yndislegir bæir eru meðfram vatninu og auðvelt að ferðast á milli þeirra með strætó. Þar er einnig aragrúi veitingastaða og hótela sem hafa mörg hver aðgang að vatninu fyrir gesti.
„Svo má ekki gleyma að nefna Gardaland sem er þeirra Disney World, en allur skemmtigarðurinn er í rómverskum stíl.“
Hinn fullkomni dagur
Þá er kjörið að lesendur fái innsýn í fullkominn sunnudag við Gardavatnið, að mati Hjördísar Ítalíudrottningar.
Hvernig myndi sá dagur vera?
„Sunnudagar eru afslappandi dagar á Ítalíu og margar verslanir lokaðar. Ítalir klæða sig upp á þessum helgidegi og það snýst eiginlega allt um að hittast og borða og gefa sér góðan tíma í það.“
Þá verða staðir eins og Gardavatnið vinsæl dægrastytting.
„Í kringum vatnið eru margir hjólastígar og hægt er að leigja hjól á hótelunum. Ég myndi fá mér góðan kaffibolla í morgunsárið og helst drekka það einhvers staðar þar sem ég hefði gott útsýni yfir vatnið. Síðan myndi ég fara í góðan hjólatúr.“
Eftir hjólatúrinn segist Hjördís myndu fá sér árstíðabundið salat og „baða það“ í góðri ólífuolíu. „Ég myndi örugglega fá mér smá pasta með. Það þarf ekkert að vera stór skammtur. Þegar ég er á Ítalíu fæ ég mikla löngun í góða pastarétti. Með matnum yrði það allan daginn rautt eða hvítt og til að toppa máltíðina, kaffi og t.d. limoncello með, fyrir meltinguna.“
Á Ítalíu er auðvelt aðgengi að góðum ís, en ísbúðirnar dúkka upp á hverju horni enda Ítalir þekktir fyrir gelato-ísinn.
„Eftir máltíðina myndi ég fá mér góðan ís og rölta um með hann. Þegar er rosalega heitt fara Ítalirnir heim og leggja sig. Á heitum degi er líka hægt að fara með kláfi upp í fjöllin. Bærinn sem ég bjó í heitir Malcesini og þar er t.d. hægt að fara í kláfinn. Annars myndi ég nú bara koma mér þægilega fyrir við vatnið með kalt hvítvín.“
Matarmenningin
Á spjallinu við Hjördísi er ljóst að þegar á að hafa það gott á Ítalíu spila matur og drykkur stóra rullu. Hún er búin að segja frá því klukkan hvað Ítalir borða kvöldverð og hve langan tíma þeir gefi sér við kvöldverðarborðið.
„Ítalir borða svo hádegismat klukkan eitt og þeir taka sér líka góðan tíma í hádeginu til að snæða.“
Eins og áður sagði er mikil vínræktun, sérstaklega á svæðinu í kringum Veróna, af bæði hvítvíni og rauðvíni.
„Og þeir [Ítalir] fá sér rauðvín á hverjum degi og það er bara í menningu þeirra. Þú átt ekkert endilega við neitt vandamál að stríða þótt þú drekkir áfengan drykk dags daglega. Þeir eru afar vandvirkir um hvaða vín eigi að vera með hvaða mat.”
En hvað geturðu sagt meira um matarmenningu Ítala?
„Matur er mjög breytilegur eftir árstíðum. Þú finnur það þegar þú gengur í gegnum matarmarkaðina hvað er í uppskerunni það skiptið. Á veitingastöðum er matseðlunum skipt út reglulega miðað við hvaða grænmeti og ávextir eru í boði. Það er ekkert sami matseðillinn allt árið. Í nóvember þegar nýja ólífuolían kemur verður fókusinn á mat þar sem er notuð ólífuolía með. Alls staðar skipta þeir út matnum algjörlega eftir árstíðum.“
Hjördís útskýrir að matarmenning á Ítalíu sé orðin þannig að alls staðar sé hægt að fá grænmetisrétti og salat, sérstaklega á sumrin. Þá sé einnig mikið um ávexti.
„Ítalir fara mikið út að borða, sérstaklega á sumrin, vegna þess að í hitanum nenna þeir ekkert endilega að kveikja á gaseldavélinni heima hjá sér og elda. Auk þess hve ódýrt er að fara út að borða.“
Misskilningurinn mikli
Ekki má gleyma að minnast á pastað, en Hjördís segir mikinn misskilning gæta hérlendis varðandi hvernig matreiða eigi gott pasta.
„Pasta á Ítalíu er engin kaloríubomba. Við erum að matreiða þetta vitlaust hér heima með því að vera að dúndra hvítlauk í þetta allt saman, rjóma og rjómaosti. Þarna þarftu lítið annað en góða tómata, grænmeti og smá ólífuolíu og þá ertu komin með góðan rétt. Ítalir eru ekki með allan þennan lauk og hvítlauk. Ég held ég hafi aldrei smakkað hvítlauksbrauð þarna úti. Það er örugglega eitthvað amerískt.“
Ja hérna, og eru Íslendingar að gera eitthvað fleira sem er á gráu svæði hjá Ítölum?
„Það er ekki hefð fyrir því að borða mikinn morgunmat á Ítalíu. Ítalir fá sér heldur einn góðan kaffi og eitthvað sætt með.“
Hjördís útskýrir að t.d. einn bolli af cappuccino sé morgunmatur fyrir Ítölum. „Þeim finnst magnað að fólk panti sér heilan bolla af flóaðri mjólk eftir hádegis- eða kvöldmat. Þeir skilja ekki hvernig maginn ræður við þetta eftir máltíð. Espresso er bara þeirra kaffi, líka eftir kvöldmat.“
Hún bendir á að Ítalir séu ekki svona mikil mjólkur- og jógúrtþjóð eins og Íslendingar. Þeir borði mikinn ís, en þeirra ís er gelato og það er ekki mikill rjómi í honum.
Hvernig matur er á svæðinu í kringum Veróna og Gardavatnið?
„Norður-Ítalía er svo nálægt Austurríki og var hluti af gamla keisaradæminu. Maturinn er af öðrum toga, meiri fjalla- og sveitamatur heldur en t.d. í bæjunum meðfram ströndinni þar sem er meiri fiskur og sjávarafurðir. Það er mikið um kjöt og pasta, sérstaklega þarna í fjöllunum. Svo nota þeir ólífuolíuna mjög mikið.“
Eftir allar lýsingarnar er undirrituð komin með vatn í munninn af tilhugsuninni um að fá ekta ítalskan mat og það sama á við um Hjördísi, sem segist ekki geta beðið eftir að koma þangað aftur.
„Þetta land er bara svo mikill hluti af mér.“