lau. 15. mars 2025 15:30
Drekinn lét rauðar viðvaranir ekki stoppa sig

Kínverskum bílum hefur verið mætt með ákveðinni tortryggni á evrópskum markaði og hafa efasemdir verið uppi um gæði þeirra og öryggi. Margir kínverskir bílaframleiðendur hafa því lagt sig fram af nokkrum þrótti við að stemma stigu við slíkum fordómum og sýna fram á að þeir séu svo sannarlega samkeppnishæfir utan Asíu.

Bílaframleiðandinn BYD hefur notið mikilla vinsælda á kínverskum markaði allt frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2003 og varð stærsti rafbílaframleiðandi í heimi á fjórða ársfjórðungi árið 2023 þegar félagið tók fram úr Tesla. BYD hefur líka verið stærsti bílaframleiðandinn í Kína frá 2023 þar sem Volkswagen hafði áður trónað á toppnum í áraraðir. Frá árinu 2021 hefur BYD svo hægt og bítandi rutt sér til rúms á evrópskum markaði við góðar viðtektir og hóf Vatt ehf. sölu á merkinu hér á landi árið 2023.

Það skal viðurkennast að undirrituð vissi ekki mikið um BYD er hún arkaði niður í Skeifu í bílaumboð Vatt ehf. til að sækja lyklana að glænýjum sjö sæta jeppa, BYD Tang 4x4. Fyrri útgáfa Tang hefur þegar getið sér gott orð hér heima við en hér er til umfjöllunar splunkuný útfærsla af fjölskyldubílnum. Nýja útgáfan er rafdrifinn borgarjeppi með fjórhjóladrifi og með nóg af plássi.

 

 

Nuddið nær í gegnum úlpuna

Í fljótu bragði var margt sem kveikti áhuga minn er ég settist undir stýri og ýmislegt við hönnun Tang og viðmót sem sló mig sem nýstárlegt, skapandi og ferskt. Það er öðruvísi bragur yfir Tang en maður hefur vanist en oft er hætt við að framleiðendur fylgi sömu stefnum og straumum um of og endi með of svipaðar niðurstöður. Ég stóðst því ekki mátið og glöggvaði mig á sögu bílsins og framleiðandans strax á bílastæðinu enda fór ósköp vel um mig í þægilegum og mjúkum sætunum sem búa ekki einungis yfir snöggum og skilvirkum sætishita heldur fjórum nuddstillingum í bæði bílstjóra- og farþegasætinu. Tang er langt frá því að vera eini bíllinn á markaðinum með nuddstillingu í framsætunum en hann er án efa með bestu nuddstillingarnar sem undirrituð hefur prófað til þessa – jafnvel í gegnum hnausþykka úlpu bílstjórans þennan dag þegar rauð veðurviðvörun var í gildi.

Sætin eru ekki einungis þægileg heldur sömuleiðis einstaklega lagleg og úr ekta leðri og eru skemmtilega og fallega bólstruð með eins konar demantalöguðu mynstri. Þá var leðuráklæði sætanna í bílnum, sem fenginn var til reynsluaksturs, fallega kamelbrúnt, sem er skemmtileg tilbreyting frá svörtum og gráum sætum úr endurunnum efnum sem hafa verið í tísku að undanförnu. Sætisáklæðin og almennt viðmót bílsins gefa svo sannarlega strax til kynna að um sé að ræða bifreið í lúxusflokki.

 

 

Formlínur drekans

Tang-jeppinn er jú hluti af Dynasty-syrpu framleiðandans og sækir nafn sitt til Tang-veldisins, auðugasta keisaraveldisins í sögu Kína sem ríkti frá 618 til 907 á eftir Sui-veldinu og því óhætt að segja að BYD sé stolt af uppruna sínum og menningarsögu. Þá vísar BYD sömuleiðis til drekans, einkennistákns og fyrrverandi þjóðardýrs Kína, í lýsingu sinni á bílnum. Drekar eru tákn fyrir styrk og kraft og hefur aðalhönnuður BYD, Wolfgang Egger, samþætt þá eiginleika í hönnun nýs BYD Tang. Afraksturinn er jeppi þar sem einstakt handverk, kraftmiklar formlínur og glæsileiki sameinast. Eggers er enginn byrjandi í bílahönnun og hefur m.a. getið sér frægð fyrir hönnun sína fyrir framleiðendur á borð við Audi, Lamborghini og Alfa Romeo.

Bíllinn er óneitanlega glæsilegur, stór og íburðarmikill líkt og nafnið gefur til kynna. Framljósin kveikja og slökkva á sér lið fyrir lið, sem er ávallt til merkis um að hönnuðir hafi hugað að hverju einasta smáatriði. Inni í bílnum er einnig fallegt og skemmtilegt ljósakerfi í öllum regnbogans litum sem hægt er að stilla eftir eigin höfði hverju sinni. Vanda þarf til verka þegar kemur að marglitum ljósastillingum sem geta auðveldlega litið út eins og LED-ljósakeðja á stúdentagörðum, leikjatölvuborð í unglingaherbergi eða ósmekkleg jólasería. Hönnuðum Tang hefur blessunarlega tekist vel til og er lýsingin engan veginn truflandi heldur dansar skemmtilega yfir mælaborðið á litríkan og smekklegan hátt. Er hann einnig búinn myndarlegu sólþaki, sem hægt er að opna, loka og skyggja þó að ekki hafi gefist tækifæri til að prófa þann búnað í ofsveðrinu í byrjun febrúar.

Ekki er hægt að tala um BYD Tang án þess að tala um hve rúmgóður og plássmikill hann er, en jeppinn er tilvalinn fyrir fjölskyldur sem eiga barnaláni að fagna og eru alls sjö sæti í bílnum, hvar af tvö þeirra eru niðurfellanleg í stóru skottinu. Pláss undir farangur og stærri farm er því vissulega fórnarkostnaður í þágu sjötta og sjöunda farþegans en skottið er 763 lítrar aftan við aðra sætaröð í fremstu stillingu, 578 lítrar aftan við aðra sætaröð í öftustu stillingu og 192 lítrar aftan við þriðju sætaröð, þ.e. þegar öll sætin eru uppi. Verandi elst í stórum systkinahóp má segja að ég sé vel sjóuð þegar kemur að sjö sæta fjölskyldubifreiðum enda dugði ekkert minna undir fimm systkini og foreldra. Þrátt fyrir að ég hugsi til gömlu Chrysler-smárútu fjölskyldunnar með hlýhug þá verður að viðurkennast að Tang-jeppinn hefði verið aðeins meira töff í æfingaaksturinn minn á sínum tíma, en hefði enn hentað vel í skólaskutl, innkaupaleiðangra og dagsferðir.

Nefna má að BYD Tang 4x4 hlaut fimm stjörnur í öryggisprófun Euro NCAP og er búinn háþróuðu ADAS-kerfi (Advanced Driver Assistance System) og fjölbreyttu úrvali öryggisbúnaðar. Bílaframleiðendur í Kína hafa vissulega gerst framsæknari á alþjóðamarkaðnum á síðustu árum í kjölfar rafbílavæðingarinnar. Margir hverjir geta boðið upp á betri verðmiða en evrópskir og bandarískir framleiðendur og hafa einnig sérhæft sig í rafhlöðum sem þola hita- og kuldabreytingar betur en aðrar. Áhyggjur hafa þó verið uppi um að verðmuninum fylgi skerðing á gæðum og að stöðlum framleiðslu og hönnunar á bílum í Kína sé háttað öðruvísi. Á það þó augljóslega ekki við í tilfelli BYD Tang 4x4 að mati öryggisráðsins, sem telur hann ívið öruggari en marga aðra bíla á vestrænum markaði.

Undirrituð hefur þó ekki alltaf verið sammála öryggisvottunum Euro NCAP en stundum kunna hinar ýmsu öryggisstillingar að valda meiri háska en ella, enda er ekkert meira truflandi í akstri en bjöllur og flautur pípandi yfir minnstu smáatriðum, eða belti sem herðir um háls bílstjórans eða stýri sem rykkir í á móti bílstjóranum eins og andstæðingur í reiptogi.

Það á þó svo sannarlega ekki við í tilfelli Tang sem hefur fundið góðan milliveg í öryggi og því að vera ekki gjörsamlega óþolandi og óþjáll í akstri – að undanskilinni stillingunni sem lækkar í tónlistinni þegar bílstjóri ekur 1 kílómetra yfir hámarkshraða sem er jú eingöngu til þess fallið að ala á ökubræði. Hljómkerfi bílsins býr yfir 12 hátölurum á víð og dreif í bílnum en hljóðgæði eru ekki eftirminnilega mikil þótt ágæt séu. Þá leyfi ég mér að kvarta yfir hljóðtökkum þessa ágæta bíls en þeir eru innbyggðir í stýri bílsins og í miðjustokki á hægri hendi bílstjórans. Um er að ræða skrolltakka en ef þrýst er á þá slökkva þeir á hljómkerfinu. Þó að tæknin kunni að hljóma meinlaus kom það nánast undantekningalaust fyrir að ég slökkti óvart á tónlistinni þegar ég ætlaði mér að hækka eða lækka í henni, sem getur hratt orðið þreytandi.

 

 

Rafstöð á hjólum

Það leynir sér þó ekki að BYD-menn vita hvað þeir syngja í öðrum efnum og má þar helst nefna 108,8 kWst BYD Blade-rafhlöðu sem Tang-jeppinn er búinn og tekur einungis 30 mínútur að hlaða hana úr 30% í 80% með hraðhleðslubúnaði. Þá gagnast rafhlaðan einnig sem færanleg rafstöð og er hægt að tengja rafmagnstæki eins og kaffivélar, viðlegubúnað eða rafmagnsgrill við rafhlöðu bílsins.

BYD hefur verið leiðandi í þróun nýjunga við rafhlöðuframleiðslu og hefur fyrirtækið aflað sér mikillar reynslu og viðurkenningar við framleiðslu annarra raftækja, sem virðist koma að góðum notum við bílsmíðina. Hefur fyrirtækið til að mynda lengi annast framleiðslu spjaldtölvunnar iPad fyrir Apple og þarf því ekki að koma á óvart að skjáir og snertitækni í bílum úr röðum framleiðandans eru nær óaðfinnanleg.

15,6 tommu skjár fyrir miðju mælaborði jeppans er með framúrskarandi gæðum og ljóst að BYD hefur sérþekkingu á því sviði. Þá getur bílstjórinn kosið sér hvort hann vilji hafa skjáinn langsum eða þversum og er alltaf gaman að hafa ólíka valmöguleika, jafnvel þegar kemur að einhverju svo smávægilegu, sem gera bílstjóranum kleift að sérsníða bílinn eftir eigin höfði.

Rásfastur í rokinu

Jeppinn var fenginn að láni er rauðar viðvaranir voru í gildi um land allt og stóð hann veður og vinda léttilega af sér. Þrátt fyrir að hafa ekki litist á blikuna á leiðinni að bílaumboðinu var undirrituð hvergi smeyk undir stýri í BYD Tang sem haggaðist ekki í óviðrinu. Öryggistilfinning á vegi byggist nefnilega ekki bara á nýjum og ESB-tilskipuðum öryggisstillingum heldur líka staðfastleika, stærð og gæðum ökutækisins. Þrátt fyrir stærð Tang, sem gæti talið manni trú um að hann sé þunglamalegur í akstri, er jeppinn ansi léttur og frár á vegi og leysir afl sitt úr læðingi hratt og áreynslulaust þegar stigið er á aflgjöfina. Stýringin er þægileg og létt og eru engir hnökrar og hnykkir þegar stigið er af gjöfinni, eins og er því miður of algengt í of viðkvæmum rafbílum. Þá er framrúðuglæja (HUD) sem nýtist vel í akstri auk 360° myndavélar sem kom skemmtilega á óvart, enda mjög misjafnt hvernig útfærslur á slíkum myndavélum eru og hversu vel þær nýtast í akstri.

Gaman var að spreyta sig á að nota raddaðstoð jeppans sem hægt er að ávarpa með orðunum „Hey BYD.“ Eins og á við um flestar raddaðstoðir þreyttist maður fljótt á að blaðra við hana enda margt sem þær eiga eftir að læra eða hafa ekki heimild til að læra. BYD-aðstoðin má þó eiga það að hún er vökul, skýr og heyrir orðaskil hjá jafnvel lágmæltum muldrurum.

BYD Tang 4x4 hefur upp á margt að bjóða og býður vestrænum bílaframleiðendum svo sannarlega birginn þegar kemur að gæðum og öryggi. BYD-drekinn hefur sýnt fram á að hann er ekki einungis samkeppnishæfur heldur er hann mættur til að veita alvöru samkeppni á nýjum markaði.

 

 

BYD Tang 4x4

Fjórhjóladrifinn

Hámarksafl: 380 kWst

BYD Blade-rafhlaða (LFP) 108 kWst

Drægni: 530-682 km (WLPT)

Dráttargeta: 1500 kg

Hámarkshleðslugeta: AC/DC: 11kW/170kW

Hröðun 0-100 á 4,9 sek.

Hámarkshraði: 190 km/klst.

Heildarþyngd: 3.205 kg

Farangursrými: 763 lítrar aftan við aðra sætaröð í fremstu stillingu. 578 lítrar aftan við aðra sætaröð í öftustu stillingu. 192 lítrar aftan við þriðju sætaröð.

Verð: 11.690.000 kr.

Umboð: Vatt ehf.

til baka