lau. 22. mars 2025 10:10
Kristján Reykjalín Vigfússon stundar rannsóknir á þróun sjávarútvegsfyrirtækja.
Stefnumótun í sjávarútvegi flókin

Eins og lesendur vita hafa orðið hreint ótrúlegar breytingar á íslenskum sjávarútvegi á undanförnum fjórum áratugum. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað og búið er að tæknivæða veiðar og vinnslu svo að rekstur útgerðarfélaganna er orðinn mun hagkvæmari en áður, verðmætasköpunin langtum meiri og hagnaður greinarinnar ágætur.

Rætt var við Kristján Reykjalín Vigfússon í síðasta blaði 200 mílna, en hann hefur skoðað þessa þróun og freistað þess að greina stefnumótun og samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, og koma þannig auga á hvað hefur reynst best og líka hvaða hindranir greinin þarf að glíma við.

Forvitnilegt er að skilja betur hvernig sjávarútvegsfyrirtækin komust þangað sem þau eru komin og hvert þau stefna í framtíðinni. Rannsóknir Kristjáns hafa leitt í ljós að margt kemur þar við sögu en í viðtölum hans við stjórnendur hefur m.a. verið nefnt að vöntun á starfsfólki með rétta menntun og sérþekkingu, sem og tæknilegar áskoranir, torveldi stefnumótun og innleiðingu breytinga: „Ytri hindranir koma líka við sögu og snúa t.d. að þætti stjórnvalda, breytingum á sköttum, gjöldum og aflaheimildum. Aðstæður á mörkuðum eru líka óvissu háðar og loks eru margir hagsmunaaðilar sem láta sig sjávarútveginn miklu varða sem hafa áhrif á greinina.“

 

Þegar vinnubrögð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru skoðuð segir Kristján að öll stærstu félögin eigi það sameiginlegt að stefnumótunin er ekki niðurnjörvuð heldur sveigjanleg. „Fyrirtækin marka ekki einfaldlega stefnu og halda öllu óbreyttu næstu árin þar á eftir heldur á sér stað sífelld aðlögun. Ef nefna ætti eina grunnreglu er hún að stefnan fær að mótast í takt við aðstæður hverju sinni. Þegar vel árar eru tækifærin gripin, stoðirnar styrktar, fjárfest í nýjum skipum og félögin stækka við sig en þegar harðnar í ári hægja þau ferðina.“

Það er líka einkennandi fyrir öflugustu fyrirtækin í greininni að þau leggja ríka áherslu á að búa til nýja tekjustrauma og þá oft með það fyrir augum að skapa ný verðmæti en geta líka mildað áhrifin af sveiflum í gengi, kvóta og veiðum.

„Þetta birtist t.d. í aukinni áherslu á fiskeldi sem hjálpað getur þessum félögum að tryggja jafnara framboð, og tilraunum til að þróa vörur sem eru tilbúnar fyrir smásölu. Hefur þetta einmitt vantað í greinina og reksturinn hjá stöndugustu íslensku sjávarútvegsfyrirtækjunum verið mun einsleitari en hjá stærstu keppinautunum í löndum eins og Japan, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum, sem eru ekki bara miklu stærri heldur með mun fjölbreyttari starfsemi og fleiri tekjustrauma.“

Ítarlegt viðtal við Kristján má lesa í síðasta blaði 200 mílna.

til baka